Landsmótið heppnaðist vel í alla staði

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, Formaður UMFÍ, sleit Landsmóti 50+ með formlegum hætti í íþróttahöllinni á Húsavík í dag. Helga Guðrún var virkilega ánægð og þakklát eftir Landsmótið sem heppnaðist vel í alla staði. Veðurfarið var hagstætt og keppendur og áhorfendur skemmtu sér vel á mótinu.

Gestir við setningaathöfnina

HSÞ vann til flestra verðlauna á mótinu, en Þingeyingar unnu alls 13 gull, 16 silfur og 7 brons (óstaðfestar tölur).

Á vef UMFÍ má sjá myndir og úrslit úr öllum keppnisgreinum.

Hér fyrir neðan má skoða viðtöl sem Rafnar Orri tók um helgina.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ

Aðalsteinn Árni Baldursson

Stígvélakastið

Fyrstu Íslandsmeistararnir í stígvélakasti Þingeyskir

Þingeyingarnir Aðalheiður Kjartansdóttir og Jón Ingi Guðmundsson urðu í dag fyrstu Íslandmeistarar í Stígvélakasti á Landsmóti 50+ sem stendur núna yfir á Húsavík. Jón Ingi kastaði 27,5 metra í karlaflokki og Aðalheiður Kjartansdóttir kastaði 18,91 metra.

10371164_10152285876868003_6070112742776323792_o
Aðalheiður Kjartansdóttirmeð gullið.

Reinhard Reynisson HSÞ varð annar í karla flokki með kasti uppá 26,22 metra og Karl Lúðvíksson UMSS þriðji með 23,86 m.

Sjá má öll úrslit úr mótinu hér

Setningarathöfn Landsmóts UMFÍ 50+

Í gærkvöld var formleg setning á Landsmóti 50+ á Húsavík við höfnina þar sem haldin voru skemmtileg ræðuhöld, lifandi tónlist í boði og frábær Marimba hópur kom fram undir stjórn Guðna Braga og einnig voru Hafliði Jósteins og Frímann með skemmtilega tóna. Fáni UMFÍ var dreginn að húni. Góð mæting var á setninguna og virtust keppendur og heimamenn ná vel saman í dansi og söng fyrir framan hvalasafnið í gærkvöld.

Hátíðarfáni UMFÍ

Hjálmar Bogi Hafliðason var kynnir, Bergur Elías Ágústsson, Sveitastjóri Norðurþings, Jóhanna Kristjánsdóttir, formaður HSÞ og Helga G. Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, héldu ræður með hvatningu fyrir keppendur. Meðfylgjandi myndir voru teknar við setningarathöfnina.

Marimbahópurinn úr Hafralækjarskóla spilaði nokkur lög

UMFÍ fáninn dreginn að húni

Gestir við setningaathöfnina

4. Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík um helgina

Um helgina, dagana 20.-22. júní, fer fram 4. Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík. Mótin hafa verið haldin á hverju ári frá 2011 á Hvammstanga, Mosfellsbæ og Vík í Mýrdal í fyrrasumar. Mikill hugur er í framkvæmdaaðilum í Þingeyjarsýslu og hefur undirbúningur fyrir mótið gengið samkvæmt áætlun. Skráningar fyrir mótið hafa gengið vel en skráningu lýkur í kvöld. Allir eru velkomnir á setningu mótsins sem verður á föstudagskvöldið klukkan 20. Sjálf keppni mótsins hefst klukkan 13 á föstudag og lýkur kl. 14 á sunnudag.

Landsmót 50+ netborði

Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ) er mótshaldari að Landsmóti UMFÍ 50+ þetta árið. HSÞ hefur áður haldið Landsmót en það var árið 1987 og hefur því reynslu að því að halda Landsmót. Mótið fer að mestu fram á Húsavík en aðstaðan á Húsavík er nokkuð góð til að halda Landsmót UMFÍ 50+. Stórt íþróttahús er á staðnum en þar munu fara fram fjölmargar keppnisgreinar. Frjálsíþróttavöllurinn er ekki langt frá íþróttahúsinu sem er með malarbraut.

Góður fótboltavöllur er á frjálsíþróttavellinum en þar fyrir ofan eru nýir gervigrasvellir. Glæsilegur 9 holu golfvöllur er rétt fyrir utan Húsavík. Einnig eru góð skólahúsnæði sem notuð verða um helgina fyrir keppnisgreinar sem eru um tuttugu talsins.

,,Tilbúin að taka á móti fólki í þessu spennandi verkefni“

,,Það var mikill metnaður af okkar hálfu til að fá þetta mót en héraðssambandið stendur á tímamótum á þessu ári þegar það heldur upp á 100 ára afmæli sitt. Við vorum stórhuga á þessum tímamótum og sóttum í byrjun um að halda Unglingalandsmót en fengum ekki. Við ákváðum að halda áfram og fengum Landsmót UMFÍ 50+ til okkar í staðinn sem er á allan hátt mjög spennandi verkefni. Við höldum það á Húsavík sem okkar stærsti þéttbýliskjarni en samt í samstarfi við tvö sveitarfélög, bæði Norðurþing og Þingeyjarsveit, þannig að við förum með mótið inn á tvo staði. Landsmótið er tvímælalaust stærsti einstaki viðburðurinn á aldarafmælisári okkar,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir, formaður Héraðssambands Þingeyinga, en 4.Landsmót UMFÍ 50+ hefst á á Húsavík á föstudaginn kemur og stendur fram á sunnudag. 

Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ
Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ

Jóhanna sagði héraðssambandið vel í stakk búið til að taka þetta mót að sér og aðstæður með ágætum þó að þær gætu alltaf verið enn betri. Aðstæður eru fínar til að taka að sér Landsmót UMFÍ 50+ og boðið er upp á fjölmargar greinar þannig allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Jóhanna sagði að mikið væri horft til heilsueflingar í tengslum við mótið svo að þetta verður um leið íþrótta- og heilsuhátíð sem mótshaldarar telji að skipti miklu máli. Jóhanna sagði að Landsmót UMFÍ 50+ snerist fyrst og fremst um að fá fólk til að koma og hreyfa sig. Lýðheilsuhugsunin væri mjög ofarlega í hugum fólks.

 

– Íþróttaáhugi hefur líklega alltaf verið mikill ásambandssvæði ykkar?

„Já, það er hárrétt. Íþróttaáhuginn hefur alltaf verið mikill hjá okkur en svæðið er stórt og aðildarfélög um 30 talsins með margar ólíkar greinar þar undir. Það er mjög rík hefð fyrir íþróttaæfingum og íþróttaviðburðum og ekki síður menningarhlutverki íþróttanna. Við byggjum mikið upp á kjörorðinu „Ræktun lýðs og lands“,“ sagði Jóhanna.

Finnst ykkur mikilvægt að fá að taka þetta mót
að ykkur og þá jafnvel til lengri tíma litið?

„Það gríðarlega mikilvægt að fá þetta verkefni inn á okkar svæði. Það skiptir héraðssambandið sérlega miklu máli að fá Landsmót UMFÍ til okkar. Það er ekki hægt að fá flottara verkefni fyrir eitt héraðssamband, það segir sig sjálft.“

Í hverju liggur undirbúningur fyrir að halda
mót af þessu tagi?

„Undirbúningurinn felst aðallega í því að ná góðri samstöðu á milli aðildarfélaganna og fá þau til að vinna saman. Einnig vegur fjármögnun þungt í þessu sambandi og svo fáum við aftur á móti góða kynningu, bæði inn á við og út á við. Sveitarfélögin fá góða kynningu og í heild sinni er þetta gott fyrir svæðið. Þetta þjappar okkur vel saman og gerir okkur sterkari þegar upp er staðið. Við fórum fyrir nokkrum árum í gegnum sameiningu Héraðssambands Suður-Þingeyinga og Ungmennasambands Norður-Þingeyinga og þessari sameiningu náum við enn betur með því að halda Landsmót UMFÍ 50+ hér í sumar. Þetta verkefni er jákvætt í alla staði. Við finnum fyrir miklum meðbyr í héraðinu öllu og jákvæðni hvert sem litið er. Mót sem þetta gerir ekkert annað en að auka samstöðu á meðal fólks. Við erum tilbúin að taka á móti fólki og ætlum að vanda okkur við það,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir formaður Héraðssambands Þingeyinga. 

Frétt af vef UMFÍ