Fjögurra skóga hlaupið verður 26 júlí

Fjögurra skóga hlaupið fer fram í suðurhluta Fnjóskadals laugardaginn 26. júlí 2014. Öll hlaupin enda á sama stað, á íþróttavelli umf. Bjarma sem staðsettur er við þjóðveg 1. austan brúarinnar yfir Fnjóská.

bjarmi_logo

Keppendur mæta á Bjarmavöllinn þar sem boðið verður uppá akstur á upphafsstaði. Ræst verður í hlaupin á mismunandi tíma, lengstu vegalengdina fyrst. Allar vegalengdirnar sameinast við gróðrarstöðina í Vaglaskógi síðustu 4,3 km.

Vegalengdir
Hægt verður að velja um fimm vegalengdir í ár, en það eru 4,3 km, 10,3 km, 17,7 km, 30,6 km og42,2 km.

Þeir skógar sem hlaupið er eftir eru: Vaglaskógur, Lundsskógur, Þórðarstaðaskógur og Reykjaskógur.

Skráning
Skráning í hlaupið fer fram hér á hlaup.is og lýkur föstudagskvöldið 25. júlí. Fyrir þá sem vilja greiða beint hafið samband við Ósk í síma 8626073 eða okkah@hotmail.com

Verð og lýsing á leiðum

4,3 km skemmtiskokk

 • Skráningargjald kr 2.000.
 • Leið er líka hugsuð sem gönguleið, engin tímataka og frítt fyrir 14 ára og yngri. Ræst frá gróðrarstöðinni í Vaglaskógi og þaðan haldið norður í gegnum skóginn yfir Hálsmela. Hægt að skrá sig á staðnum.
 • Brottför af Bjarmavelli kl. 12.10. Ræsing kl. 12.20.

10,3 km

 • Skráningargjald kr. 3.900
 • Ræst frá gömlu bogabrúnni. Hlaupið suður Vaglaskóg. Sunnan við verslunina er hlaupið eftir bökkum Fnjóskár og meðfram ánni til suðurs. Við bæinn Mörk sameinast hlaupaleiðir og þá er haldið til norðurs í gegnum Vaglaskóg.
 • Brottför af Bjarmavelli kl. 11.10. Ræsing kl. 11.30.

17,6 km

 • Skráningargjald 4.900 kr.
 • Ræst við Illugastaði. Hlaupið í norður eftir Þórðarstaðaskógi. Við bæinn Mörk sameinast hlaupaleiðir og þá er haldið til norðurs í gegnum Vaglaskóg.
 • Brottför af Bjarmavelli kl. 10.20. Ræsing kl. 10.40.

30,6 km

 • Skráningargjald 5.900 kr.
 • Ræst sunnan Reykjaskógar. Hlaupið norður í gegnum Reykjaskóg að Illugastöðum, þaðan austur yfir brú og áfram í norður gegnum Þórðarstaðaskóg, Lundsskóg og Vaglaskóg. Við Illugastaði sameinast þessi leið 17,6 km leiðinni.
 • Brottför af Bjarmavelli kl. 9.00. Ræsing kl. 9.45.

42,2 km

 • Skráningargjald 6.900 kr.
 • Ræst sunnan Skarðsár og hlaupið norður dalinn. Við Illugastaði sameinast þessi leið 17,6 km leiðinni.
 • Brottför af Bjarmavelli kl. 7.45. Ræsing kl. 8.45.

Innifalið í skráningargjaldinu er: Þátttökupeningur, verðlaun fyrir fyrstu sætin, flutningur keppenda á upphafsstaði, drykkir á stöðvum, tímataka-númer, brautarmerking, öryggisgæsla á leiðinni. Boðið verður upp á hressingu á leiðarenda.

Nánari upplýsingar
Gæsla verður við hlaupið og munu félagar úr bsv. Þingey fylgja keppendum eftir. Þátttakendum skalþó bent á að þeir hlaupa á eigin ábyrgð.

Ágóði af hlaupinu ef einhver verður mun renna til bsv. Þingeyjar til kaupa á búnaði til sveitarinnar.

Hægt er að kaupa tjaldstæði á Bjarmavelli. Þar er öll aðstaða mjög góð. Upplýsingar gefur Birna í síma8483547.

Skráning hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki

Skráning er hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina á Sauðárkróki. Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 27. júlí.

Skráning á Unglingalandsmót
Smella á myndina til að skrá sig til leiks

Fleiri keppnisgreinar verða á mótinu á Sauðárkróki en nokkru sinni fyrr. Auk hefðbundinna greina eins og fótbolta, körfubolta, frjálsíþrótta, sunds og glímu verða nokkrar nýjar greinar. Má þar nefna bogfimi, siglingar og tölvuleiki. Auk þess verður keppt í motocrossi, dansi, golfi, hestaíþróttum, skák, stafsetningu, upplestri og strandblaki. Fatlaðir einstaklingar munu keppa í frjálsum og sundi.

Afþreyingardagskrá Unglingalandsmótsins er metnaðarfull. Í boði er m.a. þrautarbraut fyrir alla aldurshópa, útibíó, leiktæki og andlitsmálun fyrir yngstu kynslóðina. Þrjár smiðjur verða starfræktar, en það eru söngsmiðja, myndlistarsmiðja og leiklistarsmiðja. Gönguferðir verða um bæinn og nágrenni Sauðárkróks, júdókynning, knattþrautir KSÍ, tennisleiðsögn og kynning á parkour, sumbafitness, markaðstorg, popping-kennsla og opið golfmót.

Á hverju kvöldi verða glæsilegar kvöldvökur þar sem margir af okkar þekktustu tónlistarmönnum koma fram. Má þar nefna Jón Jónsson, Sverri Bergmann, Þórunni Antoníu, Friðrik Dór, Úlf Úlf og Magna Ásgeirsson.

Skrá sig hér

Sumarleikar HSÞ 2014

Sumarleikar HSÞ fóru fram á Laugavelli sl. helgi. Alls mættu 147 keppendur til leiks frá 9 félögum.  Það eru heldur færri keppendur en á undanförnum Sumarleikum sem skýrist af því að Gautaborgarleikar voru á sama tíma.  Gott veður var báða dagana þó heldur kaldara á sunnudeginum. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og allir höfðu gaman af. Eitt Íslandsmet var sett en það var hinn stórefnilegi Ragúel Pino Alexandersson 13 ára frá UFA  sem stökk 5,68 í langstökki.

Boðhlaupssveit 10-11 ára hnáta; Hafdís Inga Kristjánsdóttir, Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir, Eyrún Anna Jónsdóttir, Natalía Sól Jóhannsdóttir
Boðhlaupssveit 10-11 ára hnáta; Hafdís Inga Kristjánsdóttir, Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir, Eyrún Anna Jónsdóttir, Natalía Sól Jóhannsdóttir

Brói þjálfari (Jón Friðrik Benónýsson) á um þessar mundir 50 ára keppnisafmæli í frjálsum íþróttum.  Af því tilefni skoraði hann á  Þorstein Ingvarsson í 60 m. hlaup.  En Brói telur hann besta frjálsíþróttakarlmann fyrr og síðar í sögu HSÞ.  Þorsteinn vann en Brói hljóp á 10,10 sek.

Þorsteinn Ingvarsson og Jón Friðrik Benónýsson kátir eftir hlaupið
Þorsteinn Ingvarsson og Jón Friðrik Benónýsson kátir eftir hlaupið

HSÞ átti 33 keppendur og  stóðu þeir sig að venju  vel. Helsti árangur keppenda frá HSÞ var:

Í flokki 9 og yngri:

Jakob Héðinn Róbertsson var í 1. sæti í 60 m hlaupi, langstökki og 400 m langhlaupi.
Hafþór Höskuldsson var í 1. sæti í boltakasti, 3. sæti í 60 m hlaupi og langstökki.
Edda Hrönn Hallgrímsdóttir var í 2. sæti í langstökki.

Í flokki 10 – 11 ára:

Bergþór Snær Birkisson var í 1. sæti í hástökki.
Ari Ingólfsson var í 1. sæti í spjótkasti  og 3. sæti í hástökki.
Guðni Páll Jóhannesson var í 2. sæti í 60 m hlaupi og 3. sæti í langstökki.
Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir var í 1. sæti í 60 m hlaupi, langstökki, hástökki og 600 m hlaupi.
Natalía Sól Jóhannsdóttir var í 3. sæti í 60 m hlaupi, spjótkasti og kúluvarpi.
Hafdís Inga Kristjánsdóttir var í 2. sæti í spjótkasti og kúlu.

Í flokki 12-13 ára:

Benóný Arnórsson var í 3.sæti í 200 m hlaupi.
Páll Vilberg Róbertsson var í 2. sæti í spjótkasti.
Katla María Kristjánsdóttir var í 2. sæti í langstökki og 3. sæti í 60 m hlaupi.

Í flokki 14-15 ára:

Eyþór Kári Ingólfsson var í 1. sæti í kringlukasti, 2. sæti í spjótkasti og hástökki og í 3. sæti í kúluvarpi og langstökki.
Unnar Þór Hlynsson var í 2.sæti í langsstökki, 3. sæti í 100 m. hlaupi og spjótkasti.
Hlynur Aðalsteinsson var í 1. sæti í 1500 m hlaupi og 2. sæti í 800 m hlaupi.

Í flokki 16-17 ára:

Arna Dröfn Sigurðardóttir var í 1. sæti í 60 m hlaupi og langstökki og 2. sæti í hástökki.
Auður Gauksdóttir var í 3.sæti í hástökki.
Marta Sif Baldvinsdóttir var í 2. sæti í kúluvarpi.

Í flokki karla og kvenna:

Snæþór Aðalsteinsson var í 2.sæti í 1500 m hlaupi.
Dagbjört Ingvarsdóttir var í 1. sæti í langstökki.

Einnig átti HSÞ 4 boðhlaupssveitir á verðlaunapalli.

Við þökkum  öllum fyrir komuna á Sumarleika, starfsfólki fyrir vel unnin störf og velunnurum fyrir stuðninginn en HSÞ, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Heimabakaríi og Ferðaþjónustan á Narfastöðum styrktu leikana að þessu sinni .

Frjálsíþróttaráð HSÞ – Hulda Skarphéðinsdóttir.