ÍFF – Íþróttanefnd fullorðinna félagsmanna

Á Ársþingi HSÞ 2015 var samþykkt að stofna nefnd fyrir fullorðna félagsmenn og var henni kosið nafnið „Íþróttanefnd fullorðinna félagsmanna“ – sem mætti skammstafa ÍFF.   Hlutverk nefndarinnar er ekki enn fastmótað, en henni  er m.a. ætlað að hvetja fullorðna einstaklinga til hreyfingar og/eða  íþróttaiðkunar allt árið um kring.  Þar að auki að hvetja til þátttöku á Landsmótum UMFÍ.

Nefndin var loks skipuð að hausti 2015:                                                                 Elín Sigurborg Harðardóttir, formaður;   elinsh@gmail.com                  Aðalheiður Kjartansdóttir,  hk61@simnet.is                                                 Vilhelmína Ásdís Kjartansdóttir,  asdiskja@visir.is

Annars er það ekki endilega málið, að keppa og þurfa að standa sig eitthvað brjálað vel á íþróttamóti.  Allra mikilvægast er að stunda reglulega hreyfingu, allt árið um kring, til að bæta lífsgæðin.  Það er nokkuð klár staðreynd að það er verulega heilsusamlegt að stunda reglulega hreyfingu.  Líkaminn verður ekki bara hraustlegri og sterkari, heldur er hreyfing líka holl fyrir okkur andlega og við losum okkur við stress.  Þetta snýst í raun um að líða vel í eigin líkama – og ekki bara á meðan við erum ung, heldur alla okkar ævi!

Það að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ eða í öðrum skipulögðum keppnum fyrir fullorðna snýst heldur ekki mest um að keppa – heldur það að taka þátt, hafa gaman af því að spreyta sig og njóta félagsskaparins.  Sjötta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Ísafirði helgina 10. – 12. júní 2016 og stefnir nefndin að því að hafa spjallfund fyrir þá sem nú þegar eru ákveðnir að fara og hvetjum aðra til að koma og kynna sér málið.  Spjallfundurinn verður auglýstur sérstaklega.

Á Landsmótinu á Ísafirði er stefnt að ýmsum keppnisgreinum: boccia, bridds, frjálsar, golf, línudans, pútt, ringó, skák, skotfimi, stígvélakast, sund, kappróður, kajakróður, badminton, körfubolti 2 á 2, starfshlaup, pönnukökubakstur, netabætingu og línubeitning. …. Svo að það er af nógu að taka og vel hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt til að taka þátt í.  Síðan er á plani hjá þeim að hafa skemmtidagskrá og dansleik – þannig að þetta verður bara gaman! Nokkrir Þingeyingar hafa nú þegar reynslu af því að taka þátt í þessum landsmótum og var jú sérstaklega góð þátttaka á mótinu sem fram fór á Húsavík árið 2014.

Nefndin hvetur alla fullorðna til að finna sér hreyfingu við hæfi og er af nógu að taka þar sem víðast hvar í Þingeyjarsýslum er í boði skipulögð hreyfing – eða að fólk myndar bara sína hreyfihópa. Svo er ekkert að því að vera „einn í hóp“ !

Nefndin hefur skoðað hvað er í boði fyrir fullorðið fólk í okkar héraði – og það er hellingur!  Tökum það fram að þetta er engan vegin tæmandi listi;     Hreyfing fullorðinna í Þingeyjarsýslum

 

Átröskun og líkamsímynd á meðal íslensks íþróttafólks

Átröskun og líkamsímynd á meðal íslensks íþrottafólks

Miðvikudaginn 27. apríl verður opinn hádegisfundur í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal kl: 12:10

Þar verða kynntar niðurstöður úr glænýrri rannsókn.  Petra Lind Sigurðardóttir MSc í klínískri sálfræði frá HR mun fara yfir helstu niðurstöðurnar.  Rannsóknin beindist að skimun fyrir átröskunar-einkennum meðal íþróttafólks hér á landi.  Samanburður var gerður á þessum þáttum milli kynja, auk þess sem íþróttagreinar voru bornar saman.  Þátttakendur voru íþróttafólk sem keppir á hæsta keppnisstigi í sinni íþrótt hérlendis, 18 ára og eldri.  Nánast engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu viðfangsefni hérlendis og fáar erlendar rannsóknir hafa borið margvíslegar íþróttir saman.

Hver er staða átröskunnar og líkamsímyndar á meðal íslensks íþróttafólks?  Er íþróttafólk óánægt með sína líkamsímynd en almennt gengur og gerist?  Eru karlar líklegri til að vera óánægðari en konur? Hversu algeng er átröskun og í hvaða íþróttagreinum birtist hún helst?

Þátttakan er ókeypis og öllum heimil.

Skráning fer fram á skraning@isi.is

Að lokinni framsögu mun verða opið fyrir spurningar úr sal.

 

Fræðslusjóður HSÞ – auglýst er eftir umsóknum

Stjórn HSÞ auglýsir eftir umsóknum um styrk úr Fræðslusjóði HSÞ. Rétt til að sækja í sjóðinn hafa eingöngu félagar í aðildarfélögum HSÞ.

Umsóknarfrestur er til 15. maí 2016

Umsóknir sendist á skrifstofu HSÞ;  hsth@hsth.is

Tilgangur sjóðsins er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi – með því að sækja t.d. námskeið, fundi eða ráðstefnur.

Nánar um Fræðslusjóð má finna hér á heimasíðunni undir „Stjórn HSÞ“ / sjóðir og styrkir.  Þar má einnig finna umsóknareyðublað

Langaneshlaup UMFL á Sumardaginn fyrsta!

Sumardaginn fyrsta – Á MORGUN – fimmtudaginn 21. apríl n.k. verður hið árlega Langaneshlaup Ungmennafélags Langnesinga.  Þar geta ALLIR verið með því það er í góðu lagi að labba, skokka, hlaupa eða hjóla.  Mældar verða vegalengdirnar 1,5km,  3km, 5km, 7km, 10km, 15km og hálft maraþon eða 21,2km.

Ræst verður frá íþróttahúsinu kl. 10:00  í 15km og 21.2km  og síðan kl. 10:30 fyrir allar hinar vegalengdirnar.

Ekkert þátttökugjald og allir fá verðlaunapening í viðurkenningarskyni og smá hressingu í lokinn.  

Tilvalið fyrir alla fjölskylduna að eiga frábæran dag saman sem byrjar á úti hreyfingu og jafnvel að skella sér í sund á eftir.

ATH:  foreldrar eru hvattir til að koma með yngri börnum til að passa upp á að þau fari ekki of langt og komist aftur til baka.

Vonumst til að sjá sem flesta og ALLIR eru velkomnir!

STJÓRN UMFL             UMF Langnesinga