Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Höfn í Hornafirði dagana 1.-4. ágúst n.k. Keppnisrétt hafa allir á aldrinum 11-18 ára og bjóðum við börn fædd árið 2008 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást í för með okkur í ár. Keppnisgreinarnar eru af fjölbreyttum toga ásamt ýmis konar afþreyingu og skemmtun – kynnið ykkur úrvalið á www.ulm.is. Yngri krakkar geta einnig notið sín við fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun sem er í boði.

Unglingalandsmótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem við hvetjum alla til að mæta á. Góðir styrktaraðilar gera HSÞ kleift að niðurgreiða mótsgjaldið fyrir þingeysk ungmenni og greiða iðkendur af starfssvæði HSÞ aðeins kr. 3450,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.

Við höfum stofnað fésbókarhóp sem kallast „HSÞ á unglingalandsmóti“, endilega sláist í hópinn þar. Þar gefst tækifæri til að setja inn spurningar, óska eftir liðsfélögum, ásamt því að deila upplýsingum. Einnig getið þið haft samband í s. 896-3107 eða á hsth@hsth.is.

Unglingalandsmótsnefnd HSÞ

Styrktaraðilar HSÞ á ULM 2019. Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Jarðböðin, Ísfélag Vestmannaeyja, Landsbankinn, Geir ehf, Verkalýðsfélag Þórshafnar. Takk fyrir stuðninginn

Kvennahlaup ÍSÍ – komdu með

Kvennahlaup ÍSÍ verður hlaupið í 30. sinn í ár víðsvegar á landinu. Hér heima í héraði verður hlaupið á sex stöðum og hvetjum við alla til að taka þátt og njóta útiverunnar.

Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni. Markmiðið var að höfða til kvenna á öllum aldri þar sem ekki yrði keppt til sigurs heldur áttu konur að fá að hlaupa, ganga eða skokka mismunandi vegalengdir eftir því sem þær kysu sjálfar. Þannig er það enn þann dag í dag, engin tímataka og allir fara á sínum hraða þá vegalengd sem þeir kjósa. 

Kvennahlaupið verður á Húsavík, Laugum, Þórshöfn og Kópaskeri á morgun laugardag 15. júní, í Mývatnssveit verður hlaupið þann 19. júní, en Raufarhafnarbúar tóku forskot á sæluna og hlupu þann 10. júní.

Nánari upplýsingar um stað- og tímasetningar má finna á heimasíðunni: https://www.sjova.is/um-okkur/markadsmal/sjova-kvennahlaup-isi/

Landsmót UMFÍ 50+ skráning er hafin

Héraðssamband Þingeyinga hvetur Þingeyinga til að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ sem verður haldið á Neskaupsstað dagana 28.-30. júní n.k.

Mótið er blanda af keppni og hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í eitthvert íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum. Þátttökugjald er 4.900kr.

Skráning á mótið fer fram á síðunni umfi.felog.is en einnig er hægt að hringja í þjónustumiðstöð UMFÍ á skrifstofutíma og skrá sig símleiðis í síma 568-2929.

Ef einhverjar spurningar vakna má hafa samband við skrifstofu HSÞ á netfangið hsth@hsth.is eða í s. 896-3107

Ert þú búin/n að sækja um?

Stjórn HSÞ auglýsir eftir umsóknum um styrk úr Aksturssjóði HSÞ.

Tilgangur sjóðsins er að taka þátt í ferðakostnaði vegna þátttöku barna og unglinga, 18 ára og yngri, á félagssvæði HSÞ í skipulögðum íþróttaæfingum og/eða skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi, á vegum aðildarfélaga HSÞ.
Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum. Umsækjendur geta verið foreldrar/forráðamenn, hópur foreldra eða aðildarfélög HSÞ. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast hér http://hsth.is/log-og-reglugerdir/. Umsóknarfrestur vegna aksturs á vorönn er til og með 31. maí.

Stjórn HSÞ auglýsir einnig Fræðslusjóð HSÞ og Afreksmannasjóð HSÞ

Tilgangur fræðslusjóðs er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi, með því að sækja námskeið, fundi og ráðstefnur ef stjórn sambandsins álítur það íþrótta- og félagslífi í héraði til framdráttar. Tilgangur afrekssjóðs er að styrkja afreksfólk einstaklinga eða hópa innan HSÞ sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni.

Öll aðildarfélög innan HSÞ og félagsmenn þeirra eiga rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum. Reglugerðir sjóðanna og umsóknareyðublöð er að finna á
http://hsth.is/log-og-reglugerdir/.