Námskeið fyrir fólk í stjórnum félaga

Við vekjum athygli á námskeiðum fyrir fólk í stjórnum félaga sem standa til boða í haust:

Þann 7. september n.k. verður námskeið á Akureyri í menningarhúsinu Hofi sem hluti af hátíðinni Lýsu, þar sem fólk á í samtali um samfélagið. Yfirskrift námskeiðsins er hlutverk og ábyrgð stjórna félagasamtaka og er það haldið föstudagsmorguninn 7. september á milli klukkan 10:00 – 11:45. Ekkert kostar á þetta námskeið en mikilvægt er að skrá sig. Frekari upplýsingar er að finna á http://www.lysa.is og hlekkur að skráningarsíðu er hér.

Í oktbóber hefst svo námskeið á vegum Opna Háskólans sem hentar stjórnendum og starfsfólki ungmennafélaga. Námslínan hefst 2. október og lýkur 22. janúar 2019. Kennt er annan hvern þriðjudag frá klukkan 9:00 -16:00. Samtals er námslínan 56 klukkustundir – átta lotur sem eru sjö klukkustundir hver. UMFÍ veitir ungmennafélögum 10% afslátt af námskeiðsgjöldum en einnig má benda fólki á að athuga með niðurgreiðslur frá sínum stéttarfélögum. Smellið fyrir skráningu og til að sjá ítarlegri upplýsingar um námslínuna.

 

 

ULM var frábært – Sumarleikar HSÞ um helgina

Unglingalandsmóti UMFÍ var slitið í Þorlákshöfn á sunnudag. Eftir vætusaman föstudag lék veðrið við keppendur það sem eftir lifði helgar, þó svo vindurinn hefði mátt hægja ögn á sér. Fjölmargar persónulegar bætingar litu dagsins ljós og þó nokkrir keppendur HSÞ urðu unglingalandsmótsmeistarar. Viljum við óska þeim öllum innilega til hamingju. Við viljum einnig þakka keppendum HSÞ fyrir þátttökuna og fyrirmyndarhegðun. Vonandi sjáumst við sem flest á Höfn að ári.

Sumarleikar frjálsíþróttaráðs HSÞ fara fram á Laugum nú um helgina 11.-12. ágúst. Þetta er ómissandi liður í frjálsíþróttadagskrá iðkenda HSÞ og einnig hafa félög eins og UFA, UMSS og UÍA verið dugleg að mæta. Við hvetjum alla til að taka þátt í skemmtilegu móti, eða koma á völlinn til að hvetja og hjálpa til. Keppnisgreinar eru nokkuð hefðbundnar hjá 12 ára og eldri en 9 ára og yngri og 10-11 ára keppa í fjölþrautum. Drög að tímaseðli er að finna í mótaforriti FRÍ http://thor.fri.is og boðsbréfið fylgir hér

Unglingalandmót í Þorlákshöfn um helgina

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Þorlákshöfn nú um helgina. Boðið er upp á kvöldvöku á fimmtudagskvöld en keppnin sjálf hefst á föstudagsmorgni. Fríður hópur þátttakenda frá HSÞ verður á svæðinu og taka þau þátt í a.m.k. 11 af þeim 22 keppnisgreinum sem í boði eru. Það verður nóg um að vera á svæðinu því auk keppnisgreina eru fjölmargir afþreyingarkostir í boði sem og kvöldvökur og skemmtanir. Við viljum þakka Langanesbyggð og Ferðaþjónustunni Narfastöðum fyrir að styrkja unglingalandsmótsnefndina í ár.

Allar upplýsingar um dagskrá mótsins, yfirlitskort af keppnissvæðinu og úrslit er að finna á heimasíðu ULM.

Við óskum keppendum öllum alls hins besta – Áfram HSÞ!

Landsmótahrina UMFÍ heldur áfram – ULM næst

Um  nýliðna helgi fór fram Landsmót UMFÍ og 50+ á Sauðárkróki. Boðið var upp á fjöldan allan af alls kyns íþróttagreinum og þrautum auk annarrar skemmtunar. Líklega tóku um 20 manns af starfssvæði HSÞ þátt að þessu sinni, langflestir í 50+ aldurshópnum. Landsmótið var með nýju sniði þar sem engin stigakeppni var á milli sambanda. Mótið var skemmtilegt og fær vonandi að dafna áfram þar sem áhersla er lögð á fjölbreytta hreyfingu og skemmtun fyrir alla þátttakendur. Framkvæmdastjóri HSÞ hlakkar alla vega til að verja landsmótstitil sinn í Þrautabraut á næsta móti. Hér má nálgast úrslit mótsins.

Þá vill HSÞ hvetja fjölskyldur og ungmenni til þess að skrá sig til leiks á Unglingalandsmót UMFÍ sem verður haldið í Þorlákshöfn dagana 2.-5. ágúst n.k. Keppnisrétt hafa allir á aldrinum 11-18 ára og bjóðum við börn fædd árið 2007 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást í för með okkur í ár. Keppnisgreinarnar í ár eru yfir 20 og af mjög fjölbreyttum toga s.s. dorgveiði, sandkastalagerð, stafsetningu, ásamt hefðbundum íþróttagreinum – kynnið ykkur úrvalið á www.ulm.is/dagskra/. Yngri krakkar geta einnig notið sín við fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun sem verður í boði.

Unglingalandsmótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. HSÞ niðurgreiðir mótsgjaldið líkt og undanfarin ár fyrir þingeysk ungmenni og greiða iðkendur af starfssvæði HSÞ aðeins kr. 2940,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.

Fjölskyldan á fjallið – Þorgerðarfjall og Staðarsel

Almenningsíþróttanefnd HSÞ hefur skipulagt fjölskyldugöngu á Þorgerðarfjall í Aðaldal sunnudagskvöldið 10. júní n.k. Farið verður frá Grenjaðarstað kl. 20:00. Göngukassi verður settur upp við vörðuna efst á fjallinu og verður þar í sumar fyrir áhugasama.

Þá hefur ferðafélagið Norðurslóð þegar sett upp göngukassa við Staðarsel á Langanesi sem verður þar í sumar.

Sjá göngulýsingar undir flipanum Hreyfing – útivist Fjölskyldan á fjallið 2018