Fréttapunktar og tilkynningar 16. feb. 2018

Fréttapunktar og tilkynningar frá HSÞ – ÍSÍ – UMFÍ

Meiðsli, meðhöndlun og fyrirbyggjandi aðgerðir

Miðvikudaginn 21. febrúar mun KSÍ og Háskóli Íslands standa fyrir fyrirlestrum um meiðsli og fyrirbyggjandi æfingar í íþróttum. Fyrirlestrarnir fara fram í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal frá 17:00-20:00.

Aðgangseyrir er 2000kr. Nánari dagskrá og skráningarupplýsingar má finna á: http://www.ksi.is/fraedsla/nr/14710. Bein útsending verður frá fyrirlestrunum á heimasíðu KSÍ.

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ – umsóknir berist fyrir 1. apríl

Umsóknareyðublöð má nálgast á vef UMFÍ: https://www.umfi.is/um-umfi/umsoknir-og-sjodir/

UMFÍ hvetur sérstaklega til þess að sótt verði um styrki vegna verkefna í samræmi við stefnu UMFÍ en þar er áherslan á ungt fólk, jaðarhópa og eldra fólk. Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ hefur þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem talið er að geti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Umhverfissjóður UMFÍ – umsóknir berist fyrir 15. apríl

Umsóknareyðublöð má nálgast á vef UMFÍ: https://www.umfi.is/um-umfi/umsoknir-og-sjodir/

Sjóðurinn styrkir umhverfisverkefni félaga eða einstaklinga innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Skilyrði fyrir styrkjum er að styrkþegi sé félagi/félag í UMFÍ og verkefnið sé umhverfisverkefni. Á síðasta ári var úthlutað úr sjóðnum 950.000 krónum til átta verkefna. Mest voru það verkefni tengd gróðursetningu og vegna skjólbelta við íþróttavelli. Við úthlutun úr sjóðnum er horft til verkefna sem tengjast yngra fólki og verkefna sem stuðla að auknum tengslum við náttúru landsins.

Fjarnám ÍSÍ 1.-3. stig – Fræðslusjóður HSÞ auglýsir

Fjarnám í þjálfaramenntun ÍSÍ fer brátt að hefjast. Um er að ræða annars vegar fjarnám á 1. stigi (8 vikur) og 2. stigi (5 vikur) sem hefst núna á mánudaginn 12. febrúar. Rétt til þátttöku á 1. stigi hafa allir sem lokið hafa grunnskólaprófi.  Til þátttöku á 2. stigi þarf að hafa lokið 1. stigi, hafa gilt skyndihjálparnámskeið og 6 mánaða starfsreynslu sem þjálfari.
Síðasti skráningardagur er föstudaginn 9. febrúar á  http://isi.is/fraedsla/thjalfaramenntun-isi/skraning-i-thjalfaramenntun/

Fjarnám 3. stigs ÍSÍ í þjálfaramenntun verður nú loksins aftur í boði á þessari vorönn.  Námið er almennur hluti þjálfaramenntunarinnar og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Námið hefst mánudaginn 26. febrúar næstkomandi.  Sjá nánar á http://isi.is/fraedsla/thjalfaramenntun-isi/

Af þessu tilefni vill HSÞ minna á og auglýsa eftir umsóknum í Fræðslusjóð HSÞ.  Nánari upplýsingar og eyðublöð má annað hvort nálgast á http://hsth.is/sjodir-og-styrkir/ eða á skrifstofu HSÞ hsth@hsth.is

Framkvæmdastjóraskipti

Eva Sól afhendir Gunnhildi lyklana að skrifstofu HSÞ

Nú um áramótin urðu framkvæmdarstjóraskipti hjá HSÞ. Eva Sól Pétursdóttir ætlar að hverfa á vit ævintýranna til Danmerkur í lýðháskóla og hefur Gunnhildur Hinriksdóttir tekið við keflinu. Gunnhildur er íþróttafræðingur að mennt og kenndi áður við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni. Gunnhildur er úr Mývatnssveitinni og keppti lengi fyrir HSÞ í frjálsíþróttum og spriklar nú með kerlum úr sveitinni í blaki sem keppa undir nafni HSÞ á Íslandsmóti. Gunnhildur er nú búsett á Laugum ásamt fjölskyldu sinni.

Stjórn HSÞ vill koma á framfæri kærum þökkum til Evu fyrir starf sitt fyrir sambandið og jafnframt óska henni góðs gengis og skemmtunar í Danmörku. Þá býður stjórnin Gunnhildi velkomna til starfa.