Unglingalandmót í Þorlákshöfn um helgina

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í Þorlákshöfn nú um helgina. Boðið er upp á kvöldvöku á fimmtudagskvöld en keppnin sjálf hefst á föstudagsmorgni. Fríður hópur þátttakenda frá HSÞ verður á svæðinu og taka þau þátt í a.m.k. 11 af þeim 22 keppnisgreinum sem í boði eru. Það verður nóg um að vera á svæðinu því auk keppnisgreina eru fjölmargir afþreyingarkostir í boði sem og kvöldvökur og skemmtanir. Við viljum þakka Langanesbyggð og Ferðaþjónustunni Narfastöðum fyrir að styrkja unglingalandsmótsnefndina í ár.

Allar upplýsingar um dagskrá mótsins, yfirlitskort af keppnissvæðinu og úrslit er að finna á heimasíðu ULM.

Við óskum keppendum öllum alls hins besta – Áfram HSÞ!

Landsmótahrina UMFÍ heldur áfram – ULM næst

Um  nýliðna helgi fór fram Landsmót UMFÍ og 50+ á Sauðárkróki. Boðið var upp á fjöldan allan af alls kyns íþróttagreinum og þrautum auk annarrar skemmtunar. Líklega tóku um 20 manns af starfssvæði HSÞ þátt að þessu sinni, langflestir í 50+ aldurshópnum. Landsmótið var með nýju sniði þar sem engin stigakeppni var á milli sambanda. Mótið var skemmtilegt og fær vonandi að dafna áfram þar sem áhersla er lögð á fjölbreytta hreyfingu og skemmtun fyrir alla þátttakendur. Framkvæmdastjóri HSÞ hlakkar alla vega til að verja landsmótstitil sinn í Þrautabraut á næsta móti. Hér má nálgast úrslit mótsins.

Þá vill HSÞ hvetja fjölskyldur og ungmenni til þess að skrá sig til leiks á Unglingalandsmót UMFÍ sem verður haldið í Þorlákshöfn dagana 2.-5. ágúst n.k. Keppnisrétt hafa allir á aldrinum 11-18 ára og bjóðum við börn fædd árið 2007 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást í för með okkur í ár. Keppnisgreinarnar í ár eru yfir 20 og af mjög fjölbreyttum toga s.s. dorgveiði, sandkastalagerð, stafsetningu, ásamt hefðbundum íþróttagreinum – kynnið ykkur úrvalið á www.ulm.is/dagskra/. Yngri krakkar geta einnig notið sín við fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun sem verður í boði.

Unglingalandsmótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. HSÞ niðurgreiðir mótsgjaldið líkt og undanfarin ár fyrir þingeysk ungmenni og greiða iðkendur af starfssvæði HSÞ aðeins kr. 2940,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.

Fjölskyldan á fjallið – Þorgerðarfjall og Staðarsel

Almenningsíþróttanefnd HSÞ hefur skipulagt fjölskyldugöngu á Þorgerðarfjall í Aðaldal sunnudagskvöldið 10. júní n.k. Farið verður frá Grenjaðarstað kl. 20:00. Göngukassi verður settur upp við vörðuna efst á fjallinu og verður þar í sumar fyrir áhugasama.

Þá hefur ferðafélagið Norðurslóð þegar sett upp göngukassa við Staðarsel á Langanesi sem verður þar í sumar.

Sjá göngulýsingar undir flipanum Hreyfing – útivist Fjölskyldan á fjallið 2018

Landsmót UMFÍ 12.-15. júlí á Sauðárkrók

Það verður sannkölluð íþróttaveisla á Sauðárkróki dagana 12.-15. júlí n.k.  en þar mun fara fram bæði Landsmót UMFÍ og Landsmót 50+, og að auki Meistaramót Íslands í frálsíþróttum. Fjölmargt verður í boði þessa helgi: Keppnisdagskrá með um 30 íþróttagreinum, Láttu vaða dagskrá fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt og fá leiðsögn auk annarrar skemmtidagskrár og uppákoma þar sem fram koma m.a. Páll Óskar, hljómsveitin Albatross, Geirmundur Valtýsson o.fl.

Allir sem eru 18 ára og eldri geta skráð sig á og í raun setur hver og einn sitt landsmót saman sjálfur, sjá nánar á https://www.landsmotid.is/dagskra/Að sjálfsögðu verður fullt í boði fyrir alla yngri en 18 ára einnig.

Landsmótið er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Landsmótið er tilvalinn vettvangur fyrir fjölskylduna, starfsmannahópa, stórfjölskylduna, saumaklúbbinn og alla sem vilja skemmta sér saman.

Hér er samantekt yfir þær keppnisgreinar sem eru í boði, eftir dögum og aldursflokkum

Hreyfivika UMFÍ – hefur þú fundið þína hreyfingu?

Hreyfivika UMFÍ hófst formlega í dag, 28. apríl. Fjölmargir viðburðir eru í boði á landsvísu og hafa margir boðberar hreyfingar skráð viðburði sína inn á heimasíðu hreyfivikunnar. Hér á starfssvæði HSÞ er vitað um skipulagða viðburði á Húsavík, Laugum, Mývatnssveit og Raufarhöfn að minnsta kosti, og eflaust fleiri sem fréttaritara er ekki kunnugt um.

Allir eru hvattir til þess að taka þátt í hreyfivikunni, hvort sem er í skipulögðum viðburðum eða af eigin frumkvæði. Þá er tilvalið fyrir fjölskyldur að klára sem flest atriði í hreyfibingói UMFÍ.