Æfingabúðir á Þórshöfn

Frjálsíþróttaráð HSÞ stóð fyrir sólarhrings æfingabúðum í frjálsum íþróttum  á Þórshöfn dagana 16.-17. janúar.  Við vorum 9 sem  lögðum  af stað frá Laugum með bíl frá Fjallasýn, 5 bættust við á Húsavík og 2 i Kelduhverfi. Ferðin austur gekk vel og fengum við góðar móttökur á Þórshöfn. Á Þórshöfn er stórt og mikið íþróttahús sem við fengum afnot af en gistingin var í félagsheimilinu sem er rétt við íþróttahúsið. Fyrsta æfingin var kl. 17 og voru það Bjargey, Hlynur, Eyþór og  Unnar elstu iðkendur okkar sem sáu um þá æfingu í fjarveru Bróa. Mætingin var mjög góð en 43 einstaklingar voru í allt mættir.  Eftir æfingu skelltu krakkarnir  sér í   sund, ísbað og heitan pott áður en farið var að borða. Ísfélagið á Þórshöfn og frjálsíþróttaráð buðu upp á pizzu og UMFL bauð upp á gos með. Eftir mikla pizzu veislu  var kvöldvaka.  Farið var í spurningakeppni, sýnd voru ýmiss frumsamin skemmtiatriði og svo var frjáls tími. ULMF bauð líka upp á popp á kvöldvökunni.  Um 30 manns gistu í félagsheimilinu, bæði  gestir og heimamenn.

Þórshöfn 3

Klukkan níu á laugardagsmorgunn var morgumatur en nauðsynlegt er að borða vel og ekki rétt fyrir æfingu.  Iðkendur skelltu sér í fótbolta fyrir æfingu og var skipt í lið heimamenn á móti gestum.  Heimamenn unnu.  Fyrri æfing dagsins var kl. 10  og var Brói þjálfari þá mættur á Þórshöfn.   Brói  lék við hvern sinn fingur enda taldi hann sig ekki hafa haft svona marga á æfingu í 20-30 ár.  Það var glatt á hjalla og ýmsar  æfingar í boði.  Brói útskýrði vel tilgang æfinga og sagði að nauðsynlegt væri að gera alls konar æfingar til að samhæfa huga og líkama.  Kapítóla og Ásdís þjálfarar á Þórshöfn aðstoðuðu við þjálfun sem og foreldrar og aðrir  sjálfboðaliðar.   Eftir æfingu var borðað nesti og ávextir sem UMFL  gaf.  Hvíldartími tók við eftir mat sem var m.a. notaður í að ganga frá upp í félagsheimili.   En nauðsynlegt er líka að kunna að hvíla líkamann milli átaka.  Eitthvað fannst krökkunum  þó hvíldartíminn vera langur og voru þau fljótlega farin í feluleik og svo í fótbolta aftur.  Þá  unnu gestir.    Í upphafi seinni æfingar var tekinn hópmynd.  Brói lét krakkana fara í hraðaaukningar, drillur og styrktaræfingar.  Minnti á að nota vel hendur til að halda jafnvægi.   Eftir góðar teygjur í lok æfingar  fóru krakkarnir svo í sund eftir æfingu.   Áður en við fórum heim var reynt að klára nesti, og ávexti.

Þórshöfn 4

Óhætt er að segja að allt hafi gengið upp þennan sólarhring.  Iðkendur eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu  hvort sem var á æfingum eða utan vallar.  Ævinlega kurteis og prúð.  Það var reglulega gaman að sjá alla þessa hæfileikaríku krakka saman og vonandi sjáum við til þeirra flestra í framtíðinni.

En af hverju erum við að hafa svona æfingabúðir?  Jú það er nauðsynlegt að brydda upp á ýmsum uppákomum fyrir iðkendur.  Starfssvæði  HSÞ er stórt og æfðar eru frjálsar íþróttir  á þremur stöðum á svæðinu.  Það er gaman fyrir krakkana að hittast og kynnast  líka utan æfinga og keppni.

Þökkum UMFL kærlega fyrir góðar móttökur og gott skipulag.

Dagatal frjálsíþróttaráðs kemur úr prentun í vikulok.  Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að greiða  fyrir dagatalið og styrkja þannig iðkendur okkar.  Fram undan eru fjölmörg íþróttamót og flest þeirra eru í Reykjavík.

Aldarafmælisrit HSÞ er komið út

Nú er loksins komin úr prentsmiðjunni aldarafmælisrit HSÞ sem inniheldur sögu Ungmennasambands Norður Þingeyinga, Héraðssambands Suður Þingeyinga og Héraðssambands Þingeyinga. Skemmtileg bók með mikið af myndum úr starfinu.

HSÞ forsíða

Bókina er hægt að kaupa í Bókaverslun Þórarins á Húsavík, Selinu í Mýnatnssveit, Dalakofanum á Laugum, hjá Birni Ingólfssyni á Grenivík, Skerjakollunni á Kópaskeri, versluninni á Raufarhöfn íþróttahúsinu á Þórshöfn. Bókin er til sölu á skrifstofu HSÞ með því að senda línur á hsth@hsth.is. Bókin kostar kr. 4000,- í beinni sölu frá HSÞ.  Sendum um allt land.

HSÞ baksíða
Hverju eintaki fylgir falleg lyklakippa með merki Héraðssambands Þingeyinga.

 

,,Tilbúin að taka á móti fólki í þessu spennandi verkefni“

,,Það var mikill metnaður af okkar hálfu til að fá þetta mót en héraðssambandið stendur á tímamótum á þessu ári þegar það heldur upp á 100 ára afmæli sitt. Við vorum stórhuga á þessum tímamótum og sóttum í byrjun um að halda Unglingalandsmót en fengum ekki. Við ákváðum að halda áfram og fengum Landsmót UMFÍ 50+ til okkar í staðinn sem er á allan hátt mjög spennandi verkefni. Við höldum það á Húsavík sem okkar stærsti þéttbýliskjarni en samt í samstarfi við tvö sveitarfélög, bæði Norðurþing og Þingeyjarsveit, þannig að við förum með mótið inn á tvo staði. Landsmótið er tvímælalaust stærsti einstaki viðburðurinn á aldarafmælisári okkar,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir, formaður Héraðssambands Þingeyinga, en 4.Landsmót UMFÍ 50+ hefst á á Húsavík á föstudaginn kemur og stendur fram á sunnudag. 

Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ
Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ

Jóhanna sagði héraðssambandið vel í stakk búið til að taka þetta mót að sér og aðstæður með ágætum þó að þær gætu alltaf verið enn betri. Aðstæður eru fínar til að taka að sér Landsmót UMFÍ 50+ og boðið er upp á fjölmargar greinar þannig allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Jóhanna sagði að mikið væri horft til heilsueflingar í tengslum við mótið svo að þetta verður um leið íþrótta- og heilsuhátíð sem mótshaldarar telji að skipti miklu máli. Jóhanna sagði að Landsmót UMFÍ 50+ snerist fyrst og fremst um að fá fólk til að koma og hreyfa sig. Lýðheilsuhugsunin væri mjög ofarlega í hugum fólks.

 

– Íþróttaáhugi hefur líklega alltaf verið mikill ásambandssvæði ykkar?

„Já, það er hárrétt. Íþróttaáhuginn hefur alltaf verið mikill hjá okkur en svæðið er stórt og aðildarfélög um 30 talsins með margar ólíkar greinar þar undir. Það er mjög rík hefð fyrir íþróttaæfingum og íþróttaviðburðum og ekki síður menningarhlutverki íþróttanna. Við byggjum mikið upp á kjörorðinu „Ræktun lýðs og lands“,“ sagði Jóhanna.

Finnst ykkur mikilvægt að fá að taka þetta mót
að ykkur og þá jafnvel til lengri tíma litið?

„Það gríðarlega mikilvægt að fá þetta verkefni inn á okkar svæði. Það skiptir héraðssambandið sérlega miklu máli að fá Landsmót UMFÍ til okkar. Það er ekki hægt að fá flottara verkefni fyrir eitt héraðssamband, það segir sig sjálft.“

Í hverju liggur undirbúningur fyrir að halda
mót af þessu tagi?

„Undirbúningurinn felst aðallega í því að ná góðri samstöðu á milli aðildarfélaganna og fá þau til að vinna saman. Einnig vegur fjármögnun þungt í þessu sambandi og svo fáum við aftur á móti góða kynningu, bæði inn á við og út á við. Sveitarfélögin fá góða kynningu og í heild sinni er þetta gott fyrir svæðið. Þetta þjappar okkur vel saman og gerir okkur sterkari þegar upp er staðið. Við fórum fyrir nokkrum árum í gegnum sameiningu Héraðssambands Suður-Þingeyinga og Ungmennasambands Norður-Þingeyinga og þessari sameiningu náum við enn betur með því að halda Landsmót UMFÍ 50+ hér í sumar. Þetta verkefni er jákvætt í alla staði. Við finnum fyrir miklum meðbyr í héraðinu öllu og jákvæðni hvert sem litið er. Mót sem þetta gerir ekkert annað en að auka samstöðu á meðal fólks. Við erum tilbúin að taka á móti fólki og ætlum að vanda okkur við það,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir formaður Héraðssambands Þingeyinga. 

Frétt af vef UMFÍ

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ haldinn á Laugum í sumar !

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ verður haldinn á Laugum í Reykjadal í sumar eins og oft áður. Skólinn verður vikuna 10. – 13. júní og er þetta kjörið tækifæri fyrir öll börn og ungmenni frá aldrinum 11 – 18 ára til að spreyta sig í frjálsum íþróttum og öðrum íþróttum, hitta og kynnast öðrum krökkum og hafa það verulega skemmtilegt.
Skráning og Sjá nánar á www.umfi.is

frjálsíþróttaskólinn

Skráning er hafin á Landsmót UMFÍ 50+

Nú er opið fyrir skráningu á 4.Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið á Húsavík dagana 20.-22. júní í sumar.
Skráningin fer fram á heimasíðu www.umfi.is

Þetta verður fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið hefur verið á norðausturhorninu. Fyrri mót voru haldin á Hvammstanga, Mosfellsbæ og Vík í Mýrdal. Þó nokkuð er síðan að Landsmót hefur verið haldið á Húsavík, en það var árið 1987 og tókst með eindæmum vel og var það ekki síst veðurguðunum að þakka.

Unglingalandsmót var haldið að Laugum í Reykjadal sumarið 2006 og var þá ráðist í miklar framkvæmdir á vegum Þingeyjarsveitar og unnu sjálfboðaliðar gríðarlega mikið verk við að koma upp nýjum frjálsíþróttavelli. Fyrir Landsmót UMFÍ 50+ á Húsavík verður flikkað uppá þá aðstöðu sem er til staðar og vonandi verður það íþróttamannlífi til góða að Landsmóti UMFÍ 50+ loknu.

Landsmót UMFÍ 50+ er ekki einungis íþróttamót heldur einnig heilsuhátíð og verður boðið upp á fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl og ýmsar heilsufarsmælingar. Fjölmargar keppnisgreinar verða í boði á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík, en það eru: Fjallahlaup, boccia, bridds, bogfimi, blak, frjálsar, hestaíþróttir, línudans, golf, pútt, ringó, skák, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur, skotfimi, sund, sýningar, stígvélakast og þríþraut. Markmið mótsins er að skapa fólki 50 ára og eldri vettvang til að koma saman og keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og kynna um leið þá möguleika sem eru í boði til þess.