Fjölskyldan á fjallið – Gunnólfsvíkurfjall og Eyjan

Ár hvert stendur Héraðssamband Þingeyinga fyrir vali á tveimur léttum gönguleiðum til fjalla á sínu starfssvæði, sem er okkar þátttaka í gönguverkefni UMFÍ „Fjölskyldan á fjallið“ – sjá www.ganga.is Á þessum stöðum er komið fyrir gestabókarkassa með gestabók sem allir geta skráð nafn sitt í eftir að hafa gengið leiðina og taka þar með þátt í gönguverkefninu. Að hausti er síðan dregið úr öllum skráðum nöfnum í gestabækur um allt landið og vinningshafi fær útivistarverðlaun.
HSÞ til aðstoðar með val á gönguleiðum/fjöllum undanfarin ár er Ferðafélagið Norðurslóð og Almenningsíþróttanefnd HSÞ. Í ár varð fyrir valinu Gunnólfsvíkurfjall og Eyjan í Ásbyrgi. Tvær skemmtilegar, en ólíkar gönguleiðir og þar með mis léttar.

Gengið verður með gestabækur laugardaginn 3. maí á báða staðina.

Snemma dags mun ferðafélagið standa fyrir göngunni á Gunnólfsvíkurfjall og verður lagt upp frá keðjunni á veginum upp á fjallið kl. 11:00. Gunnólfsvíkurfjall er 719 m hátt, rís þverhnípt úr sjó og af fjallinu er stórkostlegt útsýni. Gestabókin verður í kassa við veðurstöðina uppi á fjallinu.
Síðar þennan sama dag stendur nefndin fyrir göngu á Eyjuna í Ásbyrgi. Þar verður því einnig komið fyrir gestabók í kassa. Mæting í þá göngu er kl. 17:00 við Gljúfrastofu.
Almenningsíþróttanefnd HSÞ og Ferðafélagið Norðursljóð hvetja fólk til að fá sér hressandi vorgöngu.

Umhverfissjóður UMFÍ

UMFÍ hefur auglýst eftir umsóknum úr Umhverfissjóði UMFÍ – Minningarsjóði Pálma Gíslasonar. Tilgangur sjóðsins er að styrkja umhverfisverkefni félaga eða einstaklinga innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Stofnendur sjóðsins eru fjölskylda Pálma Gíslasonar, fyrrverandi formanns UMFÍ, ásamt ungmennafélagshreyfingunni og öðrum velunnurum. Reglugerð um sjóðinn ásamt rafrænni umsókn má finna á heimasíðu UMFÍ (www.umfi.is) undir styrkir. Umsóknum skal skila rafrænt til UMFÍ fyrir 15. apríl.

Fræðslusjóður HSÞ – auglýst er eftir umsóknum

Opið er fyrir umsóknir úr Fræðslusjóði HSÞ, en tilgangur sjóðsins er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi. Þeir félagar HSÞ sem hafa sótt námskeið, fundi og ráðstefnur sem eru íþrótta- og félagslífi í héraði til framdráttar geta sótt um styrk.
UMSÓKNARFRESTUR er til 15. apríl n.k.

Nú er tækifæri til að sækja um !
Úr reglum Fræðslusjóðs HSÞ:
7. grein
Öll aðildarfélög innan HSÞ eiga rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.
a. Styrkupphæðir taka mið af fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni.
b. Úthlutun úr sjóðnum fer fram 3 sinnum á ári. Umsóknir þurfa að berast fyrir 15. apríl, 15. ágúst og 15. desember til skrifstofu HSÞ, undirritaðar af formanni viðkomandi aðildarfélags.
c. Styrkupphæð nemur allt að helming námskeiðsgjalds hverju sinni.
d. Aðrar úthlutanir fara eftir ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni.

Nánar má sjá um reglur sjóðsins hér á heimasíðunni undir „Sjóðir og styrkir“ og þar er einnig að finna umsóknareyðublað – sem einnig má sækja beint með þessum tengli: http://hsth.is/sjodir-og-styrkir/fraeeslusjodur/umsoknareyeublad

Stjórn HSÞ

Ársþingi HSÞ lokið – margir sjálfboðaliðar heiðraðir og Þorsteinn Ingvarsson valinn íþróttamaður HSÞ 2013

Ársþing HSÞ var haldið sunnudaginn 23.mars s.l. Á þingið mættu 53 þingfulltrúar af 81, frá 17 aðildarfélögum af 28 virkum – og var því þingið með naumindum löglegt.

Kæru félagar, næsta ár getum við því bara gert enn betur!

Ýmislegt var á dagskrá, en fyrir utan hin venjulegu þingstörf þá fengum við ávörp góðra gesta. Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri og Haukur Valtýsson, varaformaður UMFÍ lögðu nokkur góð orð í eyru og í leiðinni heiðruðu þeir nokkra sjálfboðaliða sem starfað hafa vel og mikið fyrir sín aðildarfélög og HSÞ.

Starfsmerki UMFÍ: Freydís Anna Arngrímsdóttir og Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Gullmerki ÍSÍ: Sigfús Haraldur Bóasson og Anna Sigrún Mikaelsdóttir
Silfurmerki ÍSÍ: Ágústa Pálsdóttir

Íþróttamenn HSÞ fengu einnig sín verðskulduðu verðlaun frá HSÞ. Íþróttamaður HSÞ 2013 var valinn Þorsteinn Ingvarsson, sem enn og aftur hefur verið valin í landliðshóp í frjálsum fyrir árið 2014. Um síðustu áramót ákvað Þorsteinn hins vegar að ganga til liðs við ÍR og óskum við Þorsteini alls hins besta í framtíðinni og þökkum honum fyrir frábær ár hjá HSÞ en hann hefur alltaf verið góð fyrirmynd utan sem innan vallar.

Aðrir heiðraðir íþróttamenn voru:

Bocciamaður HSÞ 2013; Jóna Rún Skarphéðinsdóttir, Íþr.fél. Völsungi
Bogfimimaður HSÞ 2013; Guðmundur Smári Gunnarsson, Umf Eflingu
Glímumaður HSÞ 2013; Pétur Þórir Gunnarsson, Mývetningi íþr.- og ungm.fél.
Handknattleiksmaður HSÞ 2013; Heimir Pálsson, Íþr.fél. Völsungi
Hestamaður HSÞ 2013; Einar Víðir Einarsson, Hestam.fél. Grana
Knattspyrnumaður HSÞ 2013; Ásgeir Sigurgeirsson, Íþr.fél. Völsungi
Sundmaður HSÞ 2013; Sif Heiðarsdóttir, Íþr.fél. Völsungi
Ithrottafolk_HSTH_2013

Ný aðalstjórn HSÞ var kosin og áfram mun hinn farsæli formaður okkar, Jóhanna Sigríður, sitja næsta starfsár.
Eftirfarandi stjórn mun sitja næsta árið:

Formaður í kjöri til eins árs (2014)
Jóhanna Kristjánsdóttir, Umf Geisli
Stjórnarmenn í kjöri til tveggja ára (2013)
Stefán Jónasson, Umf Tjörnesinga
Hermann Aðalsteinsson, Skákfélagið GM-Hellir
Birna Davíðsdóttir, Umf Bjarmi
Stjórnarmenn í kjöri til tveggja ára (2014)
Einar Ingi Hermannsson, Umf Einingin
Ari Heiðmann Jósavinsson, Umf Geisli
Kolbrún Ívarsdóttir, Mývetningur íþr.- og ungmennafél.
Varamenn í kjöri til tveggja ára (2013)
Sigrún Marinósdóttir, Umf Geisli
Sigurfljóð Sveinbjörnsdóttir, Umf Leifur heppni
Varamaður í kjöri til eins árs (2014)
Arngeir Friðriksson, Umf Efling

Ársþing HSÞ 2014 á Laugum í Reykjadal

Ársþing Héraðssambands Þingeyinga verður haldið í Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal (í matsal skólans) sunnudaginn 23. mars n.k.

Boðaðir þingfulltrúar eru rétt yfir 80 talsins og hafa aldrei verið fleiri, því stöðugt fjölgar félögum innan sambandsins, en HSÞ hefur 31 aðildarfélag innan sinna raða.

DAGSKRÁ er gróflega sem hér segir:
10:00 ÞINGSETNING
10:10 Skýrsla stjórnar / Reikningar sambandsins Umræður
11:00 Skýrsla og reikningar sambandsins borin undir atkvæði
11:15 Ávörp gesta
11:45 Mál lögð fyrir þingið / Skipan í starfsnefndir
12:00 MATARHLÉ
13:00 Nefndastörf / Afgreiðsla mála
14:30 Kosningar
15:00 KAFFIHLÉ
15:15 Íþróttafólk HSÞ, verðlaunaafhending
15:45 Önnur mál
16:00 ÞINGSLIT
Fyrir hönd stjórnar HSÞ, með von um góða mætingu og gott þing.
Elín Sigurborg Harðardóttir,
framkvæmdastjóri HSÞ