Fréttir af MÍ og stórmóti ÍR

Helgina 30-31. janúar var Meistaramót Íslands 11-14 ára haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði.  3 keppendur fóru frá HSÞ og varð Jón Alexander H. Artúrsson íslandsmeistari í kúlu 14 ára pilta.  Hann bætti sinn persónulega árangur í kúlunni  og einnig bætti hann tíma sinn í 60 m hlaupi.  Ari Ingólfsson 13 ára bætti sinn persónulega árangur í kúlu og Katla María Kristjánsdóttir 14 ára bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi.

Hópmynd ef keppendum á Stórmóti ÍR
Hópmynd ef keppendum á Stórmóti ÍR

Síðastliðna helgi fór fram í Laugardalshöll Stórmót ÍR.  Alls fór 31 keppandi frá HSÞ,  30 tóku þátt í  frjálsíþróttarkeppni og 1 keppandi tók þátt í þrautabraut.  Af þessum 30 keppendum voru 16 þeirra að fara á sitt fyrsta Stórmót.   Keppendur okkar náðu mjög góðum árangri og virtist ekki koma að sök löng bílferð daginn áður en brottför okkar tafðist talsvert vegna veðurs og moksturs.  Mikil fjölgun er í frjálsum íþróttum og er gaman að segja frá því að keppendur sem komu á Stórmótið komu nánast af öllu starfssvæði HSÞ. Keppendur okkar  kepptu í 103 skipti og þar af bættu þau sinn persónulega árangur í 48 skipti sem er fyrsta markmið hjá öllu keppendum.   Keppendur okkar fengu 11 sinnum viðurkenningarskjal fyrir mestu persónulegu bætingu í grein.  2 gull, 4 silfur og 3 brons komu í hlut keppanda okkar.  Fjórða sætið kom í hlut okkar 6 sinnum og fimmta sætið 5 sinnum.

Tanía Sól Hjartardóttir fékk gull í kúlu og brons í hástökki
Tanía Sól Hjartardóttir fékk gull í kúlu og brons í hástökki

Tanía Sól Hjartardóttir 11 ára fékk gull í kúlu og brons í hástökki.  Sindri Þór Tryggvason 14 ára fékk gull fyrir kúluvarp.  Jón Alexander Artúrsson 14 ára, Natalía Sól Jóhannsdóttir 13 ára,  Guðni Páll Jóhannesson 13 ára og Hafdís Inga Kristjánsdóttir 12 ára fengu öll silfur í kúluvarpi.  Hafþór Höskuldsson 11 ára fékk brons fyrir hástökk, og bræðurnir Snæþór 20 ára og Hlynur 17 ára Aðalsteinssynir fengu báðir brons fyrir 3000 m hlaup.

Jón Alexander H Artússon varð íslandsmeistari í kúlu á Meistaramóti Íslands.
Jón Alexander H Artússon varð íslandsmeistari í kúlu á Meistaramóti Íslands.

Á Stórmóti Ír er veitt viðurkenning fyrir mestu persónulegu bætingu í hverjum flokki og í hverri grein. Keppendur okkar hlutu þá viðurkenningu 11 sinnum en það voru;  Heimir Ari Heimisson 14 ára fyrir 200 m. hlaup, Erla Rós Ólafsdóttir 13 ára fyrir kúluvarp, Svanhildur Björt Siggeirsdóttir 15 ára fyrir langstökk, Íshildur Rún Haraldsdóttir 11 ára fékk bæði fyrir hástökk og langstökk, Bergþór Snær Birkisson 13 ára fékk viðurkenningu fyrir mestu bætingu í 60 m grindahlaupi, Guðni Páll Jóhannesson 13 ára fyrir 600 m hlaup, Unnur Jónasdóttir fyrir 60 m hlaup. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 15 ára fékk fyrir mestu bætingu í 60 m. grindahlaupi.  Bræðurnir Hlynur og Snæþór fengu báðir fyrir mestu bætingu í 3000 m hlaupi.

Frjálsíþróttaráð HSÞ þakkar Heimabakaríi, Norðlenska, heimamönnum og MS fyrir stuðninginn.

 

Æfingabúðir á Þórshöfn

Föstudaginn 15.  janúar var farið af stað frá Laugum og stefnan tekin á Þórshöfn þar sem frjálsíþróttaráð stóð fyrir sólarhringsæfingabúðum. Við fengum rútu frá Fjallasýn til að koma okkur á milli staða. Alls voru 29 frjálsíþróttaiðkendur teknir upp í rútuna á leiðinni en með í för voru líka Brói þjálfari, Friðbjörn Bragi og svo Hulda, Malla og Jóa úr frjálsíþróttaráði. Vegna hálku á leiðinni seinkaði okkur aðeins á staðinn en það kom ekki að sök og þegar allir voru komnir í salinn töldum við rúmlega 50 krakka og finnst okkur það alveg frábært.
Frjálsar æfingabúðir á Þórshöfn
Friðbjörn og Brói voru með æfingu til hálf átta en þá tók við sund eða sturta og svo fengum við ljúffengar pizzur sem matráðurinn í skólanum bjó til ásamt aðstoðarliði. Eftir pizzuát var farið í félagsheimilið þar sem við gistum. Þeir sem ætluðu að gista fundu sér stað og svo var smá tími fyrir leik áður en horft var á mynd og liðinu komið í ró. Fyrri æfing laugardagsins hófst klukkan 10 og stóð fram að hádegi. Boðið var upp á pasta í hádeginu og svo var hvíld og frágangur fram að seinni æfingunni sem var klukkan hálf tvö. Að lokum var farið í sturtu eða sund og svo boðið upp á hressingu áður en haldið var heim. Allir stóðu sig vel og hjálpuðust að við að gera þessa ferð skemmtilega og árangursríka og vonum við að í framhaldinu munum við fjölmenna á næstu mót sem framundan eru í Reykjavík.
Frjálsíþróttaráð vill þakka Þórshafnarbúum fyrir að taka svona vel á móti okkur, einnig viljum við þakka Ísfélaginu,Samkaup, Ungmennafélagi Langnesinga og Fjallasýn fyrir að gera þessar æfingabúðir að veruleika með okkur. Takk kærlega fyrir okkur.
Frjálsíþróttaráð vill svo að lokum minna á dagatalið sem við gefum út og er okkar helsta fjáröflunarleið.

Silfurleikar ÍR

Silfurleikar ÍR eru haldnir í nóvember ár hvert en þeir fóru fram sl. laugardag í Laugardalshöll.   Mótið var fyrst haldið árið 1996 og hét þá Haustleikar ÍR. Nafninu var breytt árið 2006 til að minnast þess að 50 ár voru þá liðin frá því að ÍR-ingurinn Vilhjálmur Einarsson fékk silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourn í Ástralíu. Með Silfurleikum vilja ÍR-ingar minnast þessa mikla afreks og þrístökk skipar þar veglegan sess eins og vera ber. Silfurleikar ÍR eru fyrir 17 ára og yngri.

Ari Ingólfsson, Unnar Þór Hlynsson, Eyþór Kári Ingólfsson, Jón Alexander Athúrsson, Hilmir Smári Kristinsson
Ari Ingólfsson, Unnar Þór Hlynsson, Eyþór Kári Ingólfsson, Jón Alexander Athúrsson, Hilmir Smári Kristinsson

5 strákar fóru frá HSÞ á Silfurleikana staðráðnir í að bæta sinn persónulega árangur í sínum greinum á þessu aldurs ári.  Alls kepptu þeir í 15 greinum og náðu að bæta sinn persónulega árangur eða jafna hann í 9 þeirra. Allir náðu að bæta sig í einhverri grein.  Að auki náðu þeir sér í þrjú verðlaunasæti.  Jón Alexander Arthúrsson vann kúluvarp í flokki 13 ára pilta með kasti upp á 12,04. Eyþór Kári Ingólfsson varð annar í hástökk 15 ára pilta, stökk 1,67 m.  Unnar Þór Hlynsson einnig 15 ára varð í 3. sæti í 60 m. hljóp á tímanum 7,90 sek.  Á meðfylgjandi myndum afhendir Einar Vilhjálmsson formaður frí verðlaunin.

Silfurleikar ÍR 2

Æfingabúðir á Laugum

Frjálsíþróttaráð stóð fyrir sólarhringsæfingabúðum á Laugum 30.-31. okt síðastliðinn. 13 krakkar af svæðinu mættu til leiks og var þetta mjög skemmtilegur tími, bæði í æfingum og utan. Brói var með útiæfingu niður á velli klukkan 5 og að henni lokinni skelltu allir sér í sund.

 

Æfing laugar3

Eftir æfingu og sund var hungrið farið að hrjá mannskapinn og þá ekki slæmt að gæða sér á pizzu frá Dalakofanum. Eftir pizzuát var farið í hópeflisleiki fram að svefntíma og ekki hægt að segja annað en að þau hafi staðið sig mjög vel í þeim málum og skemmt sér frábærlega.

Æfing laugar 2

Klukkan 10 á laugardagsmorgunin var svo æfing númer 2 og hún var einnig úti. Frekar svalt var úti og hélaður völlurinn en þau létu það ekki á sig fá og áttu góða æfingu. Útiæfingarnar snérust mikið um hlaup og drillur.

Kærkomin hvíld og hádegismatur var á milli æfinga en seinni æfingin var inni í íþróttahúsi klukkan 2. Þar sagðist Brói ætla að pína þau og lét þau í alls konar þrekæfingar.  Að lokinni æfingu var farið í sund áður en haldið var heim.

 

Bikarkeppni FRÍ á Laugum

Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri var haldin á Laugum í Reykjadal sunnudaginn 23. ágúst. Alls mættu 6 félög með 8 lið til keppni að þessu sinni og voru rúmlega 100 keppendur. A-lið ÍR og HSK/SELFOSS urðu jöfn í efsta sæti með 122,5 stig. Lið ÍR var með 7 sigurvegara en HSK/SELFOSS með 3 sigurvegara svo ÍR urðu bikarmeistarar. UFA/UMSE kom þar á eftir með 122 stig svo það var mjög jafnt á toppnum.

Keppendur í Bikarkeppni FRÍ efri röð Páll Vilberg Róbertsson, Unnar Þór Hlynsson, Eyþór Kári Ingólfsson, Jón Alexander Artúrsson,Ragnhildur Halla Þórunnardóttir Neðri röð Erla Rós Ólafsdóttir, Katla María Kristjánsdóttir, Bjartey Unnur Stefánsdóttir, Arna Védís Bjarnadóttir, Jón Friðrik Benónýsson (Brói þjálfari). Á myndina vantar Benóný Arnórsson og Heimi Ara Heimisson
Keppendur í Bikarkeppni FRÍ
efri röð Páll Vilberg Róbertsson, Unnar Þór Hlynsson, Eyþór Kári Ingólfsson, Jón Alexander Artúrsson,Ragnhildur Halla Þórunnardóttir
Neðri röð Erla Rós Ólafsdóttir, Katla María Kristjánsdóttir, Bjartey Unnur Stefánsdóttir, Arna Védís Bjarnadóttir, Jón Friðrik Benónýsson (Brói þjálfari). Á myndina vantar Benóný Arnórsson og Heimi Ara Heimisson

Í stúlknaflokki vann A-lið ÍR með 69,5 stig, HSK/SELFOSS var í 2. sæti með 61,5 og UFA/UMSE varð í 3.sæti með 54 stig.

Í karlaflokki var það UFA/UMSE sem sigraði með 68 stig, HSK/SELFOSS var í 2. sæti með 61 stig og HSÞ í 3. sæti með 54 stig.

3.sæti í bikarkeppni FRÍ Jón Alexander Artúrsson, Páll Vilberg Róbertsson, Eyþór Kári Ingólfsson Unnar Þór Hlynsson, Heimir Ari Heimisson fremstur er Benóný Arnórsson
3.sæti í bikarkeppni FRÍ
Jón Alexander Artúrsson, Páll Vilberg Róbertsson, Eyþór Kári Ingólfsson
Unnar Þór Hlynsson, Heimir Ari Heimisson
fremstur er Benóný Arnórsson

Stangarstökk kvenna var aukagrein á þessu móti þar sem þær Hulda Þorsteinsdottir úr ÍR, Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir frá UFA og Sveinborg Katla Daníelsdóttir úr UMSE voru að gera tilraun til að bæta sinn árangur.

Keppendur HSÞ stóðu sig mjög vel á þessu móti. Unnar Þór Hlynsson var í 2. sæti í 100m hlaupi. Eyþór Kári Ingólfsson var í 3.sæti í 100m grind og 2.sæti í hástökki. Páll Vilberg Róbertsson var í 2. sæti í kúluvarpi og 3. sæti í spjótkasti. Sveit HSÞ í 1000m boðhlaupi pilta var í 3. Sæti

Stúlknasveit HSÞ stóð sig með prýði, þær eru flestar nýbyrjaðar að æfa eða voru að keppa í fyrsta skipti í ákveðinni grein og má segja að miðað við það þá var árangur góður. Arna Védís Bjarnadóttir náði að bæta árangur sinn í hástökki.

HSÞ vill þakka öllum fyrir samveruna á Laugum og gott mót

Þriðjudaginn 25. ágúst var slútt hjá okkur í frjálsum. Að þessu sinni var farið í Ásbyrgi og nutum við góðrar stundar þar í góðu veðri og félagsskap. Áætlum við að um 70-80 manns hafi komið þar saman. Farið var í ýmsa leiki, s.s. ratleik, stígvélakast og aðra hópeflisleiki. Einnig fengum við hoppukastalaleigu Garðars til að koma með kastala til okkar og var mikil ánægja með það. Grillaðir voru hamborgarar og Brói þjálfari útnefndi þá einstaklinga sem voru stigahæstir í árangri eftir þetta tímabil. Arna Dröfn Sigurðardóttir var stigahæst stúlkna með 935 stig en næst á eftir henni var Erla Rós Ólafsdóttir með 934 svo það munaði mjög litlu á þeim. Páll Vilberg Róbertsson var stigahæstur drengja með slétt 1000 stig en á eftir honum var Jón Alexander Artúrsson með 923 stig. Eftir mikið hamborgaraát, leiki og sprell var haldið heim á leið og hefst nýtt æfingatímabil í frjálsum á Laugum í október en á Húsavík í september. Verið er að skoða með æfingar og þjálfaramál í Norðursýslunni.

Arna Dröfn Sigurðardóttir stigahæst stúlkna
Arna Dröfn Sigurðardóttir stigahæst stúlkna
stigahæsti einstaklingur drengja Páll Vilberg Róbertsson
stigahæsti einstaklingur drengja
Páll Vilberg Róbertsson