,,Tilbúin að taka á móti fólki í þessu spennandi verkefni“

,,Það var mikill metnaður af okkar hálfu til að fá þetta mót en héraðssambandið stendur á tímamótum á þessu ári þegar það heldur upp á 100 ára afmæli sitt. Við vorum stórhuga á þessum tímamótum og sóttum í byrjun um að halda Unglingalandsmót en fengum ekki. Við ákváðum að halda áfram og fengum Landsmót UMFÍ 50+ til okkar í staðinn sem er á allan hátt mjög spennandi verkefni. Við höldum það á Húsavík sem okkar stærsti þéttbýliskjarni en samt í samstarfi við tvö sveitarfélög, bæði Norðurþing og Þingeyjarsveit, þannig að við förum með mótið inn á tvo staði. Landsmótið er tvímælalaust stærsti einstaki viðburðurinn á aldarafmælisári okkar,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir, formaður Héraðssambands Þingeyinga, en 4.Landsmót UMFÍ 50+ hefst á á Húsavík á föstudaginn kemur og stendur fram á sunnudag. 

Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ
Jóhanna Kristjánsdóttir formaður HSÞ

Jóhanna sagði héraðssambandið vel í stakk búið til að taka þetta mót að sér og aðstæður með ágætum þó að þær gætu alltaf verið enn betri. Aðstæður eru fínar til að taka að sér Landsmót UMFÍ 50+ og boðið er upp á fjölmargar greinar þannig allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Jóhanna sagði að mikið væri horft til heilsueflingar í tengslum við mótið svo að þetta verður um leið íþrótta- og heilsuhátíð sem mótshaldarar telji að skipti miklu máli. Jóhanna sagði að Landsmót UMFÍ 50+ snerist fyrst og fremst um að fá fólk til að koma og hreyfa sig. Lýðheilsuhugsunin væri mjög ofarlega í hugum fólks.

 

– Íþróttaáhugi hefur líklega alltaf verið mikill ásambandssvæði ykkar?

„Já, það er hárrétt. Íþróttaáhuginn hefur alltaf verið mikill hjá okkur en svæðið er stórt og aðildarfélög um 30 talsins með margar ólíkar greinar þar undir. Það er mjög rík hefð fyrir íþróttaæfingum og íþróttaviðburðum og ekki síður menningarhlutverki íþróttanna. Við byggjum mikið upp á kjörorðinu „Ræktun lýðs og lands“,“ sagði Jóhanna.

Finnst ykkur mikilvægt að fá að taka þetta mót
að ykkur og þá jafnvel til lengri tíma litið?

„Það gríðarlega mikilvægt að fá þetta verkefni inn á okkar svæði. Það skiptir héraðssambandið sérlega miklu máli að fá Landsmót UMFÍ til okkar. Það er ekki hægt að fá flottara verkefni fyrir eitt héraðssamband, það segir sig sjálft.“

Í hverju liggur undirbúningur fyrir að halda
mót af þessu tagi?

„Undirbúningurinn felst aðallega í því að ná góðri samstöðu á milli aðildarfélaganna og fá þau til að vinna saman. Einnig vegur fjármögnun þungt í þessu sambandi og svo fáum við aftur á móti góða kynningu, bæði inn á við og út á við. Sveitarfélögin fá góða kynningu og í heild sinni er þetta gott fyrir svæðið. Þetta þjappar okkur vel saman og gerir okkur sterkari þegar upp er staðið. Við fórum fyrir nokkrum árum í gegnum sameiningu Héraðssambands Suður-Þingeyinga og Ungmennasambands Norður-Þingeyinga og þessari sameiningu náum við enn betur með því að halda Landsmót UMFÍ 50+ hér í sumar. Þetta verkefni er jákvætt í alla staði. Við finnum fyrir miklum meðbyr í héraðinu öllu og jákvæðni hvert sem litið er. Mót sem þetta gerir ekkert annað en að auka samstöðu á meðal fólks. Við erum tilbúin að taka á móti fólki og ætlum að vanda okkur við það,“ sagði Jóhanna Kristjánsdóttir formaður Héraðssambands Þingeyinga. 

Frétt af vef UMFÍ

Landsmót 50+ – Skráningarfestur framlengdur

Margir hafa skráð sig til keppni á Landsmót 50+ sem fram fer um komandi helgi, 20-22 júní á Húsavík. Lokað hefur verið fyrir skráningu í Boccia og Bogfimi, en í aðrar greinar hefur skráningarfresturinn verið framlengdur til miðnættis annað kvöld, miðvikudagskvöld 18. júní.

Landsmót 50+Veggspj-50+2014-A4

Keppnisgreinar á Landmóti 50+ eru: Almenningshlaup – boccia – blak –bidds – bogfimi – frjálsar – golf – hestaíþróttir – sýningaratriði, línudans – pútt – ringó – skák – sund – starfsíþróttir – skotfimi- stígvélakast-þríþraut.

Skráning fer fram hér

Við erum kappsöm og ætlum að gera þetta með sóma

Það er hreint út sagt meiriháttar að fá tækifæri til halda Landsmót UMFÍ 50+. Á meðal fólksins er velvildin, ánægjan og kappsemin alveg ótrúleg svo að þetta er bara gaman og gerir allan undirbúninginn skemmtilegan. Það er tvímælalaust mikill styrkur fyrir okkur að fá þetta mót og ofan á annan ferðamannastraum til Húsavíkur í sumar er ljóst að öll gistirými eru orðin full. Við gætum tvöfaldað gistirýmið og það yrði samt allt upppantað. Við lítum annars björtum augum til þessa verkefnis og ætlum að láta það farast okkur vel úr hendi,“ sagði Bergur Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, í viðtali á vef UMFÍ um Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður á Húsavík dagana 20.–22. júní,

Bergur Elías Ágústsson

Bergur sagði að heilsugæslan kæmi að þessu verkefni af fullum krafti með ýmiss konar mælingum og heilsufarskynningum. Sveitarfélagið sinnir umgjörðinni með ýmsum hætti og verður gert átak í snyrtingu og lagfæringu vallar. Fólk vinnur saman og stendur með prýði að undirbúningi mótsins.

„Mér fannst vera tími kominn til að við tækjum að okkur mót hér á svæðinu. Við erum kappsöm og ætlum að gera þetta vel og með sóma, ég hef ekki trú á öðru. Þó að mótið sé haldið að mestu á Húsavík er það Þingeyjarsýslan öll sem kemur að þessu en eins og allir að vita er hefðin mjög sterk á Laugum og víðar.

Menn virkja hver annan og frá mínum bæjardyrum séð er óskaplega gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Bergur.
– Nú er mikil vakning á meðal almennings um hreyfingu almennt. Telur þú Landsmót UMFÍ 50+ gott innlegg í þá þróun?

„Þið getið rétt ímyndað ykkur! Þetta mót er frábært innlegg sem vonandi á framtíðina fyrir sér. Ég get nefnt sem dæmi að þegar varla var göngufæri í bænum í vetur voru tugir manns á hverjum degi sem komu saman á upphituðum gervigrasvelli til að skokka. Þetta er dæmi um að fólk notar aðstöðuna, sem í boði er, til að hreyfa sig. Ég hef notað tækifærið, hvar sem ég hef verið á ferðinni, til að auglýsa mótið og hvetja fólk til að skrá sig. Aðstaðan hjá okkur er líka til fyrirmyndar en við erum þó ekki með 25 metra laug.
Frjálsíþróttaaðstaðan er hins vegar á Laugum,“ sagði Bergur.

Hann sagðist vera stoltur fyrir hönd bæjarfélagsins yfir að halda þetta mót og að vel verði tekið á móti keppendum og gestum.

„Ég er bæði stoltur og ánægður og við munum sýna okkar bestu hliðar. Það verður fullt af fólki í bænum og við hlökkum mikið til. Ég efast reyndar ekki um að við munum standa okkur vel. Aðalatriðið er að þeir sem hingað koma njóti dvalarinnar og hverfi burt með góðar minningar, þá verðum við hamingjusöm,“ sagði Bergur Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.  UMFÍ.is