Fréttapunktar úr starfinu

Umsóknir í Aksturssjóð HSÞ, Fræðslusjóð HSÞ og Afrekssjóð HSÞ

Auglýst er eftir umsóknum í aksturssjóð og fræðslusjóð vegna haustannar 2018. Umsóknir þurfa að berast skrifstofu HSÞ fyrir 15. desember n.k. Umsóknareyðublöð sjóðanna ásamt reglugerðum er að finna á heimasíðu HSÞ undir lög og reglugerðir: http://hsth.is/log-og-reglugerdir/. Þá er einnig auglýst eftir umsóknum í afrekssjóð HSÞ vegna ársins 2018, umsóknir berist fyrir 15. desember n.k.

Úrslit Héraðsmóts HSÞ í sundi

Héraðsmót HSÞ 2018 í sundi fór framan í nokkuð köldu veðri á Laugum þann 24. nóvember s.l. Um 25 keppendur voru skráðir til leiks og stóðu þau sig öll með prýði og fjölmargir persónulegir sigrar unnust. Mótinu lauk með verðlaunaafhendingu og pizzahlaðborði í Dalakofanum.

Það voru þau Styrmir Franz Snorrason, Eflingu, og Dagbjört Lilja Daníelsdóttir, Völsungi, sem hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir að vera stigahæst.

Fréttir frá formannafundi ÍSÍ 16. nóv

Formannafundur ÍSÍ var haldinn þann 16. nóvember s.l. Bæði formenn og framkvæmdastjórar íþróttahéraða og sérsambanda eru boðaðir á fundinn og sátu þau Jónas Egilsson formaður og Gunnhildur Hinriksdóttir framkvæmdastjóri fundinn fyrir hönd HSÞ. Fundurinn var með hefðbundnu sniði, helstu atriði sem vert er að benda á er að Ferðasjóður ÍSÍ opnar fljótlega fyrir umsóknir fyrir yfirstandandi keppnisár (sjá http://www.isi.is/um-isi/ferdasjodur-ithrottafelaga/) . Þá er ÍSÍ einnig að vinna í því að útbúa pakka varðandi persónuverndarlög sem ætti að einfalda ferlið fyrir héraðssambönd og íþróttafélög þegar þau móta sér sína persónuverndarstefnu. Að lokum var farið yfir mikilvægi þess að lög félaga stæðust lög ÍSÍ og minnt á eftirlitsskyldu héraðssambanda af því tilefni.

Þá sátu þau Jónas og Gunnhildur einnig í ráðstefnu um framtíðarskipulag íþróttamála sem haldin var af framkvæmdastjórn ÍSÍ þann 16. nóvember. Ráðstefnan var blanda af hugarflugi og borgarafundi þar sem markmiðið var að svara fjórum stórum spurningum um framtíðarskipulag íþróttamála á Íslandi, hlutverk og skipulag íþróttafélaga, hvernig nýta megi fjármagn íþróttahreyfingarinnar betur og hvernig bæta megi og styrkja sérsamböndin. Niðurstöður þessarar ráðstefnu verða kynntar á næsta íþróttaþingi ÍSÍ.

Varað við tölvupóstum með fyrirmælafölsunum

Borið hefur á því að íþrótta- og ungmennafélög hafa fengið tölvupósta sem virðast vera frá formanni félagsins með þeirri ósk að ákveðin upphæð verði lögð inn á uppgefinn bankareikning. Við hvetjum félaga að hafa allan vara á í aðstæðum sem þessum. Mikilvægt er að staðfesta allar greiðslubeiðnir af þessu tagi með símtali eða með því að fá staðfestingu frá öðrum tengdum aðila. Staðfesta einnig breyttar greiðsluupplýsingar birgja með símtali. Horfa á sjálft netfangið, auk birtingarnafns, og kanna hvort að aðrir í félaginu hafi fengið svipaðan póst. Það þarf að læra að þekkja hætturnar og hafa auga fyrir því sem stingur í stúf. Er sendandinn að setja mikla tímapressu á viðtakandann? Er viðtökulandið nýtt? Er viðtökubankinn nýr?

Er kominn tími á Unglingalandsmót á sambandssvæði HSÞ aftur?

UMFÍ hefur auglýst eftir sambandsaðilum til þess að halda ULM árin 2021 og 2022. Stjórn HSÞ hefur sýnt því áhuga en ljóst er að mótið hefur vaxið verulega síðan það var haldið á Laugum árið 2006. Það mun að öllum líkindum krefjast einhverrar uppbyggingar og/eða endurnýjunar á mannvirkjum í héraðinu. Krafa er um ýmis atriði, m.a. segir í reglugerð mótsins að ætíð skuli keppt í glímu, frjálsíþróttum, knattspyrnu, körfubolta og sundi og keppnisaðstaða sé fyrir hendi skv. reglum sérsambanda. Í vinnureglum varðandi val á mótssvæðum er tiltekin sú aðstaða sem þarf að vera fyrir hendi fyrir valdar keppnisgreinar. Má þar nefna frjálsíþróttavöll með gerviefni, 25m sundlaug, 8-10 fótboltavellir í minniboltastærð, íþróttahús með a.m.k. 2 körfuboltavöllum með stillanlegum körfum. Auk þess þarf 8-10 hektara svæði undir tjaldsvæði sem þarf að vera sem næst aðalmótssvæðinu. Það er svo sannarlega kominn tími til að fá ULM aftur heim í hérað og hvetjum við sveitarfélög til þess að skoða þennan möguleika fyrir framtíðina, þó svo að HSÞ sæki ekki um mótið að þessu sinni.

Hvað getur héraðssambandið gert fyrir þitt aðildarfélag og iðkendur?

Ársþing HSÞ 2018 samþykkti að fela stjórn, í samvinnu við aðildarfélög, sveitarfélög, skóla, fyrirtæki og fleiri aðila að móta stefnu með það að markmiði að auka íþróttaiðkun, hreyfingu og lýðheilsu íbúa á sambandssvæðinu. Sambandið hefur síðan þá verið að viða að sér gögnum um starf félaganna, hafið viðræður við fyrirtæki og sótt um styrki úr samfélagssjóðum til þess að fjármagna verkefnið. Ljóst er að víða eru brotalamir í innra starfinu og mikilvægt að skoða vel hvernig héraðssambandið getur stutt betur við starfið á svæðinu og þá aðila sem taka að sér sæti í stjórnum eða aðra sjálfboðaliðavinnu í þágu aðildarfélaganna. Ekkert er orðið fastmótað, enda á samtalið við aðildarfélögin eftir að eiga sér stað. En eitt af því sem er fyrir víst er HSÞ getur boðið félögum sínum upp á er aðgangur að skráningar- og greiðslukerfinu Nóra, og eru forsvarsmenn aðildarfélaga hvattir til þess að setja sig í samband við framkvæmdastjóra HSÞ til þess að koma þessu í kring og einfalda ýmislegt varðandi skráningu og greiðslur vegna æfinga og annarra viðburða.