HSÞ hlaut fyrirmyndarbikar UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram um verslunarmannahelgina venju samkvæmt. Mótið er frábær viðburður þar sem börn og unglingar koma saman ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt fjölbreyttri dagskrá í ýmis konar keppni, hreyfingu og skemmtun.

Flottur hópur barna og unglinga mætti undir merkjum HSÞ á mótið og voru skráð í hinar ýmsu greinar. HSÞ átti skráða fulltrúa í alls 13 greinum: Kökuskreytingum, upplestri, fótbolta, strandblaki, strandhandbolta, glímu, hjólreiðum, pílukasti, bogfimi, stafsetningu, skák, körfubolta, frisbígolfi og frjálsíþróttum. Það verður að segjast að árangur þessara keppenda var alveg frábær. Fjölmörg verðlaun komu í hlut okkar þátttakenda og voru fjölbreyttum greinum s.s. kökuskreytingum, upplestri, strandblaki, strandhandbolta, pílukasti, körfubolta, skák og frjálsíþróttum og voru nokkrir titlar þar á meðal. Unglingalandsmótsmeistarar frá HSÞ 2019 voru:

  • Hilmar Örn Sævarsson  Pílukast 11-18 ára drengja
  • Halldór Tumi Ólason       Langstökk, þrístökk og 100m 18 ára drengja
  • Elísabet Ingvarsdóttir     600m og þrístökk 11 ára stúlkna
  • Erla Rós Ólafsdóttir         Spjótkast 18 ára stúlkna
  • Arney Dagmar Sigurbjörnsdóttir Hástökk 14 ára stúlkna

Mótssetning var á föstudagskvöldinu en þá taka félögin þátt í skrúðgöngu á íþróttavellinum undir fánum sinna sambanda. Þar voru þátttakendur frá HSÞ glæsilegust á velli. Þátttakendur voru allir eins, klæddir í peysur sem Sparisjóður Suður-Þingeyinga gaf þeim. Hópurinn var samstæður og prúður og sambandinu til mikils sóma, bæði innan og utan vallar. Það sama má segja um tjaldbúðir HSÞ og fjölskyldur þátttakenda HSÞ. Enda fór það svo að sambandið fékk Fyrirmyndarbikar UMFÍ.

Þátttakendur frá HSÞ nutu stuðnings frábærra fyrirtækja, en auk styrks frá Sparisjóðnum í formi peysu voru þátttökugjöld niðurgreidd fyrir tilstuðlan styrkja frá Jarðböðunum, Ísfélaginu, Landsbankanum, Geir útgerð og Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Takk fyrir stuðninginn