Kvennahlaup ÍSÍ – komdu með

Kvennahlaup ÍSÍ verður hlaupið í 30. sinn í ár víðsvegar á landinu. Hér heima í héraði verður hlaupið á sex stöðum og hvetjum við alla til að taka þátt og njóta útiverunnar.

Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni. Markmiðið var að höfða til kvenna á öllum aldri þar sem ekki yrði keppt til sigurs heldur áttu konur að fá að hlaupa, ganga eða skokka mismunandi vegalengdir eftir því sem þær kysu sjálfar. Þannig er það enn þann dag í dag, engin tímataka og allir fara á sínum hraða þá vegalengd sem þeir kjósa. 

Kvennahlaupið verður á Húsavík, Laugum, Þórshöfn og Kópaskeri á morgun laugardag 15. júní, í Mývatnssveit verður hlaupið þann 19. júní, en Raufarhafnarbúar tóku forskot á sæluna og hlupu þann 10. júní.

Nánari upplýsingar um stað- og tímasetningar má finna á heimasíðunni: https://www.sjova.is/um-okkur/markadsmal/sjova-kvennahlaup-isi/