Ársþing HSÞ fer fram 13. mars – Munið að skila ársskýrslunum

Ársþing HSÞ verður haldið sunnudaginn 13. mars 2016 í Miðhvammi á Húsavík og byrjar stundvíslega kl. 10:00. Rétt til setu á þinginu eiga 75 fulltrúar frá 23 virkum aðildarfélögum HSÞ.

HSÞ

 

Á þinginu verður val á íþróttamanni HSÞ fyrir árið 2016 kunngjört og  valdir verða íþóttamenn ársins 2016 í hinum ýmsu íþróttagreinum sem stundaðar eru á félagssvæði HSÞ. Einnig verða hvatningarverðlaun veitt í fyrsta skipti fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk.

Fulltrúar frá UMFÍ og ÍSÍ muna ávarpa þingið og heiðra nokkra einstaklinga fyrir vel unnin störf fyrir HSÞ í gegnum tíðina.

Aðaildarfélög HSÞ eru minnt á það að mæting á ársþing HSÞ er lykillinn að því að aðildarfélag fái greiðslur af lottótekjum HSÞ – skv. samþykktum lottóreglum HSÞ.

Aðildarfélög eru einnig minnt á það að skila inn ársskýrslu í síðasta lagi nk. sunnudag 28. febrúar á netfangið hsth@hsth.is

Dagskrá ársþings 2016

 

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSÞ

 

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSÞ  2016 verður haldinn

mánudaginn 29. febrúar n.k.

á Grænatorgi í Íþróttahöllinni á Húsavík kl. 20:00

Aðalfundinn hafa rétt á að sitja fulltrúar þeirra félaga eða deilda innan HSÞ sem aðild eiga að frjálsíþróttaráðinu ;

 • Íþr.fél. Völsungur
 • Umf Bjarmi
 • Umf Efling
 • Umf Einingin
 • Umf Geisli
 • Umf Langnesinga
 • Umf Leifur Heppni
 • Umf Snörtur

Allir velkomnir sem láta sig þetta málefni varða, en aðeins kjörnir fulltrúar félaganna hafa atkvæðisrétt á fundinum og hafa þessi félög þegar fengið fundarboð í tölvupósti.

Dagskrá fundarins:

 1. Setning aðalfundar
 2. Kosning fundarstjóra og ritara.
 3. Kosning kjörbréfanefndar og allsherjarnefndar (3 menn í hvora)
 4. Skýrsla fráfarandi stjórnar.
 5. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar ásamt fjárhagsáætlun næsta árs. Einnig árstillögur ef til kemur.
 6. Lagabreytingar og tillögur sem borist hafa, teknar til meðferðar.
 7. Kosning formanns ráðsins.
 8. Kosning ritara sem er jafnframt varaformaður.
 9. Kosning gjaldkera.
 10. Kosning tveggja varamanna í stjórn og tveggja skoðunarmanna.
 11. Önnur mál.
 12. Fundi slitið.

Með von um að sjá ykkur sem flest

Fyrir hönd frjálsíþróttaráðs HSÞ

Hulda Elín Skarphéðinsdóttir

 

 

UMF Geisli sendir knattspyrnulið til keppni í 4. deild

Ungmennafélagið Geisli í Aðaldal mun stilla upp meistaraflokksliði karla í knattspyrnu í sumar og hefur liðið verið skráð til keppni í 4. deildinni sem hefst síðustu helgina í maí. Einn af liðsmönnum Geisla, Hrannar Guðmundsson, sagði í spjalli við 641.is að þessi hugmynd að spila í 4. deildinni í sumar hefði kviknað sl. haust og veturinn hefði verið nýttur til undirbúnings.

geisli

Dregið var í fjóra riðla í gær í 4. deildinni og dróst lið Geisla í C-riðil ásamt 6 öðrum liðum sem koma öll af höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan lið Kormáks/Hvatar frá Hvammstanga. Ekki er búið að fastsetja leikdaga.

Mynd: Lið Geisla sem varð Íslandsmeistari árið 2004 í 7 manna liðakeppni.

Lesa nánar á 641.is

Fréttir af MÍ og stórmóti ÍR

Helgina 30-31. janúar var Meistaramót Íslands 11-14 ára haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði.  3 keppendur fóru frá HSÞ og varð Jón Alexander H. Artúrsson íslandsmeistari í kúlu 14 ára pilta.  Hann bætti sinn persónulega árangur í kúlunni  og einnig bætti hann tíma sinn í 60 m hlaupi.  Ari Ingólfsson 13 ára bætti sinn persónulega árangur í kúlu og Katla María Kristjánsdóttir 14 ára bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi.

Hópmynd ef keppendum á Stórmóti ÍR
Hópmynd ef keppendum á Stórmóti ÍR

Síðastliðna helgi fór fram í Laugardalshöll Stórmót ÍR.  Alls fór 31 keppandi frá HSÞ,  30 tóku þátt í  frjálsíþróttarkeppni og 1 keppandi tók þátt í þrautabraut.  Af þessum 30 keppendum voru 16 þeirra að fara á sitt fyrsta Stórmót.   Keppendur okkar náðu mjög góðum árangri og virtist ekki koma að sök löng bílferð daginn áður en brottför okkar tafðist talsvert vegna veðurs og moksturs.  Mikil fjölgun er í frjálsum íþróttum og er gaman að segja frá því að keppendur sem komu á Stórmótið komu nánast af öllu starfssvæði HSÞ. Keppendur okkar  kepptu í 103 skipti og þar af bættu þau sinn persónulega árangur í 48 skipti sem er fyrsta markmið hjá öllu keppendum.   Keppendur okkar fengu 11 sinnum viðurkenningarskjal fyrir mestu persónulegu bætingu í grein.  2 gull, 4 silfur og 3 brons komu í hlut keppanda okkar.  Fjórða sætið kom í hlut okkar 6 sinnum og fimmta sætið 5 sinnum.

Tanía Sól Hjartardóttir fékk gull í kúlu og brons í hástökki
Tanía Sól Hjartardóttir fékk gull í kúlu og brons í hástökki

Tanía Sól Hjartardóttir 11 ára fékk gull í kúlu og brons í hástökki.  Sindri Þór Tryggvason 14 ára fékk gull fyrir kúluvarp.  Jón Alexander Artúrsson 14 ára, Natalía Sól Jóhannsdóttir 13 ára,  Guðni Páll Jóhannesson 13 ára og Hafdís Inga Kristjánsdóttir 12 ára fengu öll silfur í kúluvarpi.  Hafþór Höskuldsson 11 ára fékk brons fyrir hástökk, og bræðurnir Snæþór 20 ára og Hlynur 17 ára Aðalsteinssynir fengu báðir brons fyrir 3000 m hlaup.

Jón Alexander H Artússon varð íslandsmeistari í kúlu á Meistaramóti Íslands.
Jón Alexander H Artússon varð íslandsmeistari í kúlu á Meistaramóti Íslands.

Á Stórmóti Ír er veitt viðurkenning fyrir mestu persónulegu bætingu í hverjum flokki og í hverri grein. Keppendur okkar hlutu þá viðurkenningu 11 sinnum en það voru;  Heimir Ari Heimisson 14 ára fyrir 200 m. hlaup, Erla Rós Ólafsdóttir 13 ára fyrir kúluvarp, Svanhildur Björt Siggeirsdóttir 15 ára fyrir langstökk, Íshildur Rún Haraldsdóttir 11 ára fékk bæði fyrir hástökk og langstökk, Bergþór Snær Birkisson 13 ára fékk viðurkenningu fyrir mestu bætingu í 60 m grindahlaupi, Guðni Páll Jóhannesson 13 ára fyrir 600 m hlaup, Unnur Jónasdóttir fyrir 60 m hlaup. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir 15 ára fékk fyrir mestu bætingu í 60 m. grindahlaupi.  Bræðurnir Hlynur og Snæþór fengu báðir fyrir mestu bætingu í 3000 m hlaupi.

Frjálsíþróttaráð HSÞ þakkar Heimabakaríi, Norðlenska, heimamönnum og MS fyrir stuðninginn.

 

Skíðagöngudeild Völsungs býður upp á gönguskíðanámskeið

Skíðagöngudeild Völsungs stefnir á að halda skíðagöngunámskeið um næstu helgi (12.-14. feb.), bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Leiðbeinandi verður Einar Ólafsson sem er tvöfaldur ólympíufari og hefur einnig keppt á heimsbikar- og heimsmeistaramótum. Einar hefur verið með kennslu í Bláfjöllum í vetur og hefur verið mikil ánægja með störf hans enda þykir hann afar góður leiðbeinandi.

Þessu fylgir eðlilega nokkur kostnaður en hugmyndin er þó að bjóða byrjendum upp á frítt námskeið, en lengra komnir greiði þó þátttökugjald sem ekki er búið að ákveða hvað verður enda fer það eftir áætluðum fjölda þátttakenda. Þess má geta að um er að ræða nokkur skipti fyrir lengra komna yfir helgina enda yrði þá farið ítarlega í ýmis tæknileg atriði ásamt því að taka fyrir nokkrar göngutegundir og -stíla. Þetta fer þó allt eftir því hvernig hópar verða samsettir og hver aðsóknin verður.

Það verður þó ekki farið út í þetta nema það sé áhugi hjá fólki að nýta sér þetta frábæra tækifæri. Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að líta við á fésbókarsíðu skíðagöngudeildarinnar og skrá sig þar í kommenti.

Með því að smella HÉR kemst maður inn á fésbókarsíðu skíðagöngudeildarinnar.

Hvetjum áhugasama til að skrá sig og kynna sér skemmtilega vetraríþrótt við allra hæfi.