Æfingabúðir á Þórshöfn

Föstudaginn 15.  janúar var farið af stað frá Laugum og stefnan tekin á Þórshöfn þar sem frjálsíþróttaráð stóð fyrir sólarhringsæfingabúðum. Við fengum rútu frá Fjallasýn til að koma okkur á milli staða. Alls voru 29 frjálsíþróttaiðkendur teknir upp í rútuna á leiðinni en með í för voru líka Brói þjálfari, Friðbjörn Bragi og svo Hulda, Malla og Jóa úr frjálsíþróttaráði. Vegna hálku á leiðinni seinkaði okkur aðeins á staðinn en það kom ekki að sök og þegar allir voru komnir í salinn töldum við rúmlega 50 krakka og finnst okkur það alveg frábært.
Frjálsar æfingabúðir á Þórshöfn
Friðbjörn og Brói voru með æfingu til hálf átta en þá tók við sund eða sturta og svo fengum við ljúffengar pizzur sem matráðurinn í skólanum bjó til ásamt aðstoðarliði. Eftir pizzuát var farið í félagsheimilið þar sem við gistum. Þeir sem ætluðu að gista fundu sér stað og svo var smá tími fyrir leik áður en horft var á mynd og liðinu komið í ró. Fyrri æfing laugardagsins hófst klukkan 10 og stóð fram að hádegi. Boðið var upp á pasta í hádeginu og svo var hvíld og frágangur fram að seinni æfingunni sem var klukkan hálf tvö. Að lokum var farið í sturtu eða sund og svo boðið upp á hressingu áður en haldið var heim. Allir stóðu sig vel og hjálpuðust að við að gera þessa ferð skemmtilega og árangursríka og vonum við að í framhaldinu munum við fjölmenna á næstu mót sem framundan eru í Reykjavík.
Frjálsíþróttaráð vill þakka Þórshafnarbúum fyrir að taka svona vel á móti okkur, einnig viljum við þakka Ísfélaginu,Samkaup, Ungmennafélagi Langnesinga og Fjallasýn fyrir að gera þessar æfingabúðir að veruleika með okkur. Takk kærlega fyrir okkur.
Frjálsíþróttaráð vill svo að lokum minna á dagatalið sem við gefum út og er okkar helsta fjáröflunarleið.