Ársþing HSÞ 2018 – Nýr formaður tekinn við

Ársþing HSÞ 2018

10. Ársþing HSÞ var haldið sunnudaginn 11. mars s.l. Mæting aðildarfélaga var góð, en 19 félög af 22 virkum félögum sendu fulltrúa sína á þingið auk Frjálsíþróttaráðs HSÞ sem einnig á rétt á einum fulltrúa. Alls voru því á þinginu 58 fulltrúar auk gesta frá UMFÍ og ÍSÍ.

Þingstörf gengu vel fyrir sig en fyrir þinginu lágu 15 tillögur frá stjórn HSÞ. Flestar tillögur voru samþykktar óbreyttar á þinginu og örfáum tillögum var breytt í störfum þingsins og þær samþykktar með breytingum. Ein tillagan var dregin til baka og tillaga stjórnar um breytingu á lottóskiptingu milli HSÞ og aðildarfélaga var felld með jöfnum atkvæðum þeirra sem voru með og á móti. Helstu tillögur sem samþykktar voru fyrir utan hefðbundnar þakkar- og hvatningartillögur voru m.a. tillaga að mótun Íþrótta- og æskulýðsstefnu HSÞ og tillaga að HSÞ gerist Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Ingi Þór ÍSÍ

Gestir þingsins frá ÍSÍ voru þeir Ingi Þór Ágústsson og Viðar Sigurjónsson. Veittu þeir Baldvin Kristni Baldvinssyni og Kolbrúnu Ívarsdóttur Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu HSÞ og sinna félaga.

Baldvin Kristinn Baldvinsson, Hestamannafélaginu Þjálfa, fékk viðurkenningu fyrir áratugalangt starf sitt hjá Þjálfa, en Baldvin sat einnig um tíma sem stjórnarmaður í HSÞ. Meðal þess sem Baldvin hefur komið að er seta í nefndum og ráðum LH fyrir hönd félagsins, uppbygging keppnisvæðis félagsins sem og önnur uppbygging vegna hestamennsku á svæðinu. Baldvin hefur einnig byggt upp góða aðstöðu hjá sjálfum sér og hefur hann aðstoðað félagið við að halda utan um starfsemi æskulýðsdeildar hestamannafélagsins Þjálfa, m.a. með því að leggja til aðstöðu og hross svo börn og unglingar sem ekki eiga hross geti einnig komist í kynni við hesta. Þá hefur ræktunarbú Baldvins í Torfnesi verið tilnefnt marg oft sem ræktunarbú ársins og einnig hlotið slíka nafnbót og hefur hann ræktað mörg heiðursverðlaunahross og hafa hross frá honum getið sér góð orðs á keppnisbrautum bæði hér heima sem og erlendis. Baldvin er vel að þessari viðurkenningu kominn vegan brennandi áhuga síns og þrautseigju bæði í ræktunar- sem og félagsstarfi í þágu hestamennskunar.

Kolbrún Ívarsdóttir, Mývetningi, fékk viðurkenningu fyrir ötult sjálfboðaliðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar í mörg ár. Hún hefur bæði setið í stjórn Mývetnings íþrótta- og ungmennafélags, bæði sem gjaldkeri og ritari, og einnig í stjórn HSÞ sem gjaldkeri. Hún hefur ávallt staðið við bakið á sínum börnum sem og öðrum börnum í Mývatnssveit, fylgt þeim á æfingar og keppnir um land allt. Hún var einn af drifkröftunum þegar skíðastarf Mývetnings var keyrt af stað og var potturinn og pannan í allri vinnu tengdu starfinu. Eftir að starfið lagðist að mestu niður hefur Kolla keyrt allt að tvisvar til þrisvar í viku til Akureyrar yfir vetrartímann með drengi sína tvo á skíðaæfingar. Og þar hefur hún svo staðið vaktina á mótum og keppnisferðum Skíðafélags Akureyrar. Frá því að Mývatnsmaraþonið var fyrst haldið sumarið 1995 hefur Kolla ávallt verið við vinnu við það, ýmist á drykkjarstöð, skráningu eða í tímatöku. Sjálfboðaliðastarfið er gríðarlega mikilvægt í öllu íþróttastarfi og það er litlu íþróttafélagi eins og Mývetningi mjög mikilvægt að eiga svona frábæran sjálfboðaliða sem alltaf er klár í slaginn eins og hún Kolla er og hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

Gestir þingsins frá UMFÍ voru þau Gunnar Gunnarsson (einnig formaður UÍA) og Auður Inga Þorsteinsdóttir. Veitti Gunnar Guðrúnu Kristinsdóttur, Völsungi, starfsmerki UMFÍ.

Guðrún, Starfsmerki UMFÍ

Guðrún Kristinsdóttir fékk viðurkenningu sína fyrir áratugalangt og ötult starf á vegum Völsungs. Guðrún kom fyrst til íþróttafélagsins Völsungs árið 1980 og sá þá um leikjanámskeið fyrir Völsung. Þegar hún flutti til Húsavíkur árið 1986 stofnaði hún strax fimleikadeild innan Völsungs og var formaður deildarinnar í um 20 ár. Hún hefur starfað sem þjálfari, stjórnarmaður og formaður deildarinnar í um 32 ár. Hún tók við sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs árið 2010 og hefur verið það síðan. Þar hefur hún unnið mikið og gott starf og meðal annars leitt félagið í gegnum þá vinnu að verða eitt af fyrirmyndarfélögum ÍSÍ, sem félagið varð árið 2015. Guðrún hefur verið viðriðin starfið hjá Völsungi sem nefndarmaður, foreldri, og svo sem formaður félagsins frá árinu 2010 og komið að flestum íþróttagreinum sem sjálfboðaliði. Einnig hefur hún stundum leyst framkvæmdastjóra félagsins af. Guðrún er því vel að þessari viðurkenningu komin.

 

Hvatningarverðlaun HSÞ voru afhent, íþróttamenn einstakra íþróttagreina voru heiðraðir sem og Íþróttamaður HSÞ ársins 2017.

Hvatningarverðlaun HSÞ árið 2017:
Elmar Örn Guðmundsson, Völsungi, handknattleikur

Íþróttamenn HSÞ í einstökum greinum voru eftirfarandi:

  • Blakmaður HSÞ árið 2017: Sladjana Smiljanic, Völsungi
  • Bocciamaður HSÞ árið 2017: Sverrir Sigurðsson, Völsungi
  • Langhlaupari HSÞ árið 2017: Anna Halldóra Ágústsdóttir, Völsungi
  • Frjálsíþróttamaður HSÞ árið 2017: Eyþór Kári Ingólfsson, Umf. Einingunni
  • Glímumaður HSÞ árið 2017: Pétur Þórir Gunnarsson, Mývetningi
  • Knattspyrnumaður HSÞ árið 2017: Dagbjört Ingvarsdóttir, Völsungi
  • Skákmaður HSÞ árið 2017: Tómas Veigar Sigurðsson, Skákfélaginu Huginn
  • Skotíþróttamaður HSÞ árið 2017: Gylfi Sigurðsson, Skotfélagi Húsavíkur

Íþróttamaður HSÞ árið 2017: Eyþór Kári Ingólfsson, Umf. Einingunni.

Nýr formaður og nýir stjórnarmenn voru kjörnir á þinginu að tillögu uppstillingarnefndar. Nýr formaður HSÞ er Jónas Egilsson, Umf. Langnesinga, aðrir nýkjörnir stjórnarmenn eru þau Jón Sverrir Sigtryggsson, Hestam. Þjálfa, Ásdís Inga Sigfúsdóttir, Umf. Eflingu, og Selmdís Þráinsdóttir, Völsungi.

Formannaskipti – Jónas og Aníta

Fyrir í stjórn voru þeir Hermann Aðalsteinsson, Stefán Jónasson og Sigurbjörn Ásmundsson. Varamenn eru Þorsteinn Þormóðsson, Magna og Sölvi Steinn Alfreðsson, Umf. Langnesinga. Þökkum við fráfaranandi formanni, Anitu Karin Guttesen, sem og fráfarandi stjórnarmönnum, Jóhönnu Jóhannesdóttur og  Kristjáni R. Arnarsyni þeirra framlag í starfi HSÞ undanfarin ár.