FRÍMÍNÚTUR -landsleikur um aukna hreyfingu í grunnskólum

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur sókn gegn sleni með því að setja af stað nýjan hreyfingarleik í grunnskólum sem nefnist Frímínútur. Leikurinn fer í gang í maí og verður öllum grunnskólum landsins boðin þátttaka.
Markaðar verða 800 metra brautir við skólana og nemendur hvattir til að fara brautina á hverjum degi í löngu frímínútunum. Valkvætt verður að ganga, skokka eða hlaupa. Fleiri þrautum og leikjum verður síðar bætt inn í hreyfileikinn og verður nemendum og skólum boðið að taka þátt í þróun valkosta um hreyfingar í leiknum í samvinnu við íþróttakennara og félag þeirra ÍKFÍ auk annarra aðila sem láta sig verkefnið varða.
FRÍMÍNÚTUR er hreyfingarleikur þar sem grunnskólanemar skora sjálfan sig á hólm gegn eigin sleni með daglegri hreyfingu og útivist í löngu frímínútunum í skólanum. Leikurinn er hópeflisleikur sem bíður upp á keppni milli bekkja, skóla og árganga á landsvísu. Með þátttöku safna nemendur íþróttastjörnum og styrkja þannig sinn bekk, skóla og árgang í leiknum. Allir nemendur hafa hlutverk í leiknum. Virkir og duglegir bekkir hljóta viðurkenninguna íþróttastjörnubekkur og skólar viðurkenninguna íþróttastjörnuskóli.
Til að fjármagna verkefnið stendur FRÍ fyrir sölu happdrættismiða í janúar. Dregið verður í happdrættinu 7. febrúar og fjöldi spennandi vinninga í boði. Söluherferð happdrættismiða beinist ekki hvað síst að fyrirtækjum sem með að kaupum á happdrættismiða fyrir starfsfólk sitt styðja í leiðinni verkefnið FRÍMÍNÚTUR. Hringt verður í fyrirtæki á næstu dögum og þeirra getið sem styrkja verkefnið á heimasíðu og fésbók þess.
Happdrættismiðar eru einnig til sölu á útsölustöðum N1 og einstaklingar hvattir til að nálgast happdrættismiða þar. Nú er lag að skapa samtakamátt í samfélaginu og hefja sókn gegn sleni og leggjast á eitt um að auka hreyfingu ungs fólks. Með fyrirfram þökk fyrir veittan stuðning í verki.
Tengiliðir Frímínútna hjá FRÍ eru Einar Vilhjálmsson (896-7080) og Benóný Jónsson (868-7657).