Frjálsíþróttaskólinn

Frjálsíþróttaskólinn okkar hófst mánudaginn 20.júlí en ekki í eins mikilli blíðu og við höfðum vonast eftir að fá. Alls voru 17 krakkar, frá 11-13 ára, í skólanum þetta árið og ekki hægt að segja annað en það hafi verið mjög góð þátttaka. Þessir einstaklingar komu úr Bárðardal, Kelduhverfi, Aðaldal, Reykjadal, frá Kópaskeri, Þórshöfn og Húsavík.

Frjálsíþþróttaskólinn 2

Mæting var um eitt leytið og komu allir sér fyrir áður en fyrsta æfingin var klukkan tvö. Brói þjálfari bauð krakkana velkomna og var með smá fræðslu áður en hann, ásamt Bjargey frá Úlfsbæ, hófu æfinguna . Á mánudeginum var bara ein æfing en tíminn meira notaður í að fá alla til að kynnast og þjappast saman.

Á þriðjudeginum voru tvær æfingar og sú fyrsta hófst klukkan tíu. Foreldrar aðstoðuðu Bróa á þeirri fyrri en á seinni æfinguna mætti Hafdís Sigurðardóttir afrekskona í frjálsum. Mikil ánægja var með Hafdísi og hún var að leiðbeina krökkunum í langstökki. Í lokin fengu þau sem vildu að taka mynd af sér með Hafdísi. Á milli æfinga var farið í sund og svo fengum við þrjá bocciaiðkendur til að koma og vera með sýnikennslu í boccia. Það voru Ásgrímur Sigurðarson, Anna María Bjarnadóttir og Kristbjörn Óskarsson.

Frjálsíþróttaskólinn 1
Miðvikudagurinn tók á móti okkur með rigningu á fyrstu æfingunni og var aðeins farið að votta fyrir þreytu í liðinu. Stutt var á milli æfinga þennan daginn og því var gott að fara í heita pottinn, slaka á og teygja á aumum vöðvum. Bjargey og Eyþór frá Úlfsbæ aðstoðuðu Bróa á seinni æfingunni og sáu um hástökk og grindarhlaup meðan Brói æfði kúluvarp. Boðið var upp á pizzu frá Dalakofanum í kvöldmatinn og dagurinn endaði í gömlu sundlauginni á Laugum þar sem farið var í bíó.
Fimmtudagurinn var rigningarlaus og var því fagnað ákaflega. Ágústa Pálsdóttir, gömul frjálsíþróttakempa, var aðstoðarmaður á fyrri æfingunni en Bjargey og Eyþór voru með á seinni æfingunni. Á milli æfinga var farið í sund og svo fengum við fólk frá Pílukastfélagi Íslands til okkar og þau kynntu okkur fyrir þessari íþrótt sem er ný keppnisgrein á unglingalandsmótinu í ár. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og kannski einhverjir sem munu láta sjá sig í þessari keppnisgrein á landsmótinu.

Frjálsíþróttaskólinn 3

Síðasti dagurinn rann upp og sem betur fer hætti að rigna áður en æfingin hófst. Eyþór aðstoðaði Bróa við æfingar og var áherslan lögð á langstökk, spjótkast og boðhlaup. Síðasta máltíðin var svo grillaðir hamborgarar og meðan þeir runnu niður spjallaði Brói við krakkana og útskrifaði þá úr skólanum. Í heildina gekk allt mjög vel og allir ánægðir með vikuna, þrátt fyrir aðeins of mikinn kulda og bleytu.