Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði – fréttir af HSÞ-liðinu.

HSÞ-hópurinn er í góðum gír.  Alls eru hér 17 manns að keppa og a.m.k.  fjórir í klappliðinu.  Reyndar eru tveir af þeim líka búnir að gerast staðgenglar fyrir önnur lið í boccia – bara svona til að redda málum.  Málið er að hér er nefnilega rífandi skemmtileg stemmning og ungmennafélagsandinn er alveg lifandi!

Okkur hefur gengið prýðilega vel.  Í gær kepptum við í boccia, sundi og pönnukökubakstri.  Þrjú lið tóku þátt í boccia og eitt þeirra komst áfram í úrslit og eru að keppa akkúrat nú þegar þetta er ritað. „Unglingsstelpan“ í hópnum stakk sér 5x í sundlaugina og uppskar fimm gullpeninga.  Pönnukökumeistaranum okkar gekk prýðisvel og náði næstum verðlaunasæti, en mér skilst að pönnukökurnar hafi verið alveg prýðisgóðar hjá öllum keppendum og það hafi verið erfitt að dæma á milli hverjar væru nú bestar.

Í dag eru s.s. úrslit í boccia-keppninni hjá okkar fólki.  Síðan eru „briddsararnir“ okkar sestir við borð – erum með 1 bridge-sveit og kapparnir í frjálsum íþróttum farnir að hita upp fyrir keppnina sem byrjar nú rétt fyrir hádegi.

Síðan eru bara skemmtikvöldið eftir í Edinborgarhúsinu í kvöld – og þá verður tekið á því bæði við fiskihlaðborðið og í dansi við undirspil BG-flokksins, vel þekkt gamalgróin ísfirsk danshljómsveit.

Bestu kveðjur frá LM50+ á Ísafirði,

HSÞ-hópurinn