Landsmótahrina UMFÍ heldur áfram – ULM næst

Um  nýliðna helgi fór fram Landsmót UMFÍ og 50+ á Sauðárkróki. Boðið var upp á fjöldan allan af alls kyns íþróttagreinum og þrautum auk annarrar skemmtunar. Líklega tóku um 20 manns af starfssvæði HSÞ þátt að þessu sinni, langflestir í 50+ aldurshópnum. Landsmótið var með nýju sniði þar sem engin stigakeppni var á milli sambanda. Mótið var skemmtilegt og fær vonandi að dafna áfram þar sem áhersla er lögð á fjölbreytta hreyfingu og skemmtun fyrir alla þátttakendur. Framkvæmdastjóri HSÞ hlakkar alla vega til að verja landsmótstitil sinn í Þrautabraut á næsta móti. Hér má nálgast úrslit mótsins.

Þá vill HSÞ hvetja fjölskyldur og ungmenni til þess að skrá sig til leiks á Unglingalandsmót UMFÍ sem verður haldið í Þorlákshöfn dagana 2.-5. ágúst n.k. Keppnisrétt hafa allir á aldrinum 11-18 ára og bjóðum við börn fædd árið 2007 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást í för með okkur í ár. Keppnisgreinarnar í ár eru yfir 20 og af mjög fjölbreyttum toga s.s. dorgveiði, sandkastalagerð, stafsetningu, ásamt hefðbundum íþróttagreinum – kynnið ykkur úrvalið á www.ulm.is/dagskra/. Yngri krakkar geta einnig notið sín við fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun sem verður í boði.

Unglingalandsmótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. HSÞ niðurgreiðir mótsgjaldið líkt og undanfarin ár fyrir þingeysk ungmenni og greiða iðkendur af starfssvæði HSÞ aðeins kr. 2940,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.