Lög Héraðssambands Þingeyinga

I. Kafli. Um sambandið

  1. grein

Sambandið heitir Héraðssamband Þingeyinga, skammstafað HSÞ. Lögheimili þess og varnarþing er þar sem skrifstofa sambandsins er staðsett hverju sinni. Sambandssvæðið nær yfir sveitarfélögin frá Langanesbyggð í austri til Grýtubakkahrepps í vestri.

  1. grein

Tilgangur sambandsins er að efla samhug og samvinnu æskulýðsins í Þingeyjarsýslum, stuðla að fjölbreyttu íþrótta- og félagsmálastarfi aðildarfélaganna og vera málsvari félaganna út á við. HSÞ skal starfa samkvæmt lögum ÍSÍ og UMFÍ.

Hlutverk HSÞ er:

      1. Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, er stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins.
      2. Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs.
      3. Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt í því skyni.
      4. Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði.
      5. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs.
      6. Að staðfesta lög/lagabreytingar aðildarfélaga og halda utan um staðfest lög félaga og skili yfirliti til ÍSÍ yfir lög aðildarfélaga í lok hvers árs.
      7. Að tilkynna ÍSÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda.
      8. Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild.
  1. grein

HSÞ er stjórnað af:

      1. Ársþingi HSÞ
      2. Stjórn HSÞ

Reikningsár er almanaksárið.

II. Kafli. Um Ársþing

  1. grein

Ársþing HSÞ fer með æðsta vald í málum sambandsins. Ársþing skal haldið fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Skal stjórnin boða til þess með minnst eins mánaðar fyrirvara. Tillögur að laga- og reglugerðarbreytingum skulu hafa borist stjórn HSÞ eigi síðar en þremur vikum fyrir ársþing. Dagskrá, reikninga, fjárhagsáætlun, tillögur sem borist hafa ásamt tillögum sem stjórn hyggst leggja fyrir þingið skulu kynntar aðildarfélögunum með síðara þingboði í síðasta lagi viku fyrir ársþing.

Boðun þings og framlagning gagna fyrir og á ársþingi má vera á rafrænu formi, verði því við komið.

  1. grein

Hvert aðildarfélag á rétt á að senda að lágmarki 1 fulltrúa og að hámarki 9 fulltrúa á ársþing HSÞ. Fulltrúafjöldi hvers aðildarfélags miðast við fjölda lögráða félagsmanna (18 ára og eldri) eftir félagatali í starfsskýrslum síðastliðins starfsárs til ÍSÍ/UMFÍ og samkvæmt eftirfarandi töflu:

Fjöldi félaga 18 ára og eldri   Fjöldi þingfulltrúa

0-75  . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .   1
76-150  . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .   2
151-300 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  3
301-600 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  4
601-900 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  5
901- og yfir . . . . . . . . . . . . . . . . . .  6

Fyrir iðkendur 17 ára og yngri verði til viðbótar fulltrúar sem hér segir:

20-100 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  1
101-300 . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .  2
301 og fleiri . . . . . . . . . . . . . . . . . 3

Þá eiga sérráð sambandsins rétt á að senda einn fulltrúa hvert og hafa þeir fulltrúar jafnan rétt og aðrir fulltrúar þingsins. Kjörgengi og kosningarétt til ársþings HSÞ hafa allir lögráða félagsmenn.

  1. grein

Lögmætt er ársþing ef löglega er til þess boðað. Fulltrúar skulu leggja fram kjörbréf frá viðkomandi félagi/ráði. Eigi má fulltrúi á ársþingi fara með nema eitt atkvæði. Allir félagar innan UMFÍ og ÍSÍ hafa málfrelsi og tillögurétt á ársþingi, en kjörnir fulltrúar einir atkvæðisrétt.

  1. grein

Ársþing tekur ákvarðanir um starfsemi sambandsins á komandi starfsári, úrskurðar reikninga sambandsins og afgreiðir fjárhagsáætlun yfirstandandi árs. Þingið kýs 5 einstaklinga í stjórn sambandsins: Formaður skal kosinn árlega, en tveir meðstjórnendur annað hvert ár til tveggja ára. Einnig skal kjósa tvo varamenn til tveggja ára, einn annað hvert ár. Varamenn taka sæti í stjórn í sömu röð og þeir voru kosnir.

Einnig skal kjósa 2 skoðunarmenn árlega og varamann þeirra.

Stjórn sambandsins skiptir sjálf með sér verkum og kýs sér varaformann, ritara og gjaldkera. Hver stjórnarmaður getur, að loknu kjörtímabili, skorast undan endurkosningu til jafn langs tíma. Þá skal þingið kjósa í allar aðrar trúnaðarstöður sambandsins sem kosið er í til eins árs í senn. Kosningar skulu bundnar við uppástungur, nema ársþing ákveði annað.

  1. grein

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á þingi og verði atkvæði jöfn er málið fallið. Ef tveir eða fleiri hljóta jafn mörg atkvæði til að ná kosningu skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

Lögum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

  1. grein

Stjórn HSÞ skal styðjast við eftirfarandi dagskrá á ársþingi:

      1. Þingið sett
      2. Starfsmenn þingsins kosnir
          1. Forsetar
          2. Ritarar
      3. Kjörbréfanefnd kosin
      4. Skýrsla stjórnar og reikningar sambandsins kynntir
      5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
      6. Álit kjörbréfanefndar
      7. Reikningar bornir undir atkvæði
      8. Ávörp gesta
      9. Mál lögð fyrir þingið
      10. Skipan í starfsnefndir – nefndarstörf
          1. Allsherjarnefnd
          2. Íþróttanefnd
          3. Fjárhagsnefnd
          4. Laganefnd
      11. Afgreiðsla mála
      12. Kosningar
          1. Formaður
          2. Aðalmenn í stjórn
          3. Varamenn í stjórn
          4. Skoðunarmenn reikninga
          5. Fulltrúi á íþróttaþing ÍSÍ
      13. Önnur mál
      14. Þingslit
  1. grein

Aukaþing skal halda, ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess, stjórn HSÞ eða eftir ákvörðun ársþings. Allur boðunar- og tilkynningarfrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt ársþing.

III. Kafli. Um stjórn

  1. grein

Stjórn HSÞ skipa formaður, fjórir aðalmenn og tveir varamenn kjörnir á ársþingi skv. 7. grein. Á fyrsta fundi sínum skal stjórn skipta með sér verkum, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi.

Stjórn sambandsins annast framkvæmd allra sambandsmála eftir ákvörðunum ársþinga og ákvæðum laga þessara. Hún annast innheimtu sambandsgjalda, tekur á móti því fé sem sambandinu áskotnast, varðveitir það og ávaxtar. Á hverju ársþingi gerir stjórnin grein fyrir störfum sínum á liðnu ári, leggur fram endurskoðaða reikninga um tekjur og gjöld sambandsins og tillögu til fjárhagsáætlunar. Stjórnin gefur skýrslu um hag og starfsemi sambandsins til UMFÍ og ÍSÍ samkvæmt lögum þeirra.

  1. grein

Stjórn sambandsins skal halda stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir. Skal boða bæði stjórn og varastjórn. Einstaklingar í varastjórn hafa málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum en ekki atkvæðisrétt, nema ef forföll verða í aðalstjórn og þá í þeirri röð sem þeir voru kosnir.

  1. grein

Heimilt er stjórn sambandsins að kjósa þriggja manna framkvæmdastjórn. Einnig er stjórninni heimilt að ráða starfsmann á launum til sambandsins um lengri eða skemmri tíma og semja við hann um kaup og kjör. Skylt er stjórninni að gera skriflegan samning í hvert sinn sem slík ráðning fer fram.

  1. grein

Heimilt er stjórn sambandsins að skipa í nefndir sem sinna ákveðnum skilgreindum verkefnum innan sambandsins. Stjórn setur reglur um starf nefnda.

  1. grein

Heimilt er að kjósa heiðursfélaga HSÞ og veita aðrar heiðursviðurkenningar. Stjórn sambandsins setur reglur þar um sem ársþing staðfestir.

IV. Kafli. Um aðildarfélög

  1. grein

Rétt til inngöngu í sambandið eiga öll ungmenna- og íþróttafélög á sambandssvæðinu, sem hafa lög sín í samræmi við stefnuskrá UMFÍ og ÍSÍ.

  1. grein

Vilji félag ganga í sambandið, sendir það stjórn HSÞ skriflega inntökubeiðni og lætur fylgja afrit af lögum félagsins, stofnfundargerð, stjórnskipan og félagatal. Auglýsa skal stofnfund hins nýja félags á sannanlegan hátt með a.m.k. viku fyrirvara. Inntaka félags verður að hljóta samþykki ársþings sambandsins, en þó getur stjórn veitt bráðabirgðaraðild til næsta ársþings. Innganga aðildarfélags er einnig háð samþykki ÍSÍ og/eða UMFÍ á lögum viðkomandi félags.

Félag sem skráð hefur verið úr sambandinu getur óskað eftir aðild að HSÞ að nýju. Er þá félagið undanskilið kröfu um skýrslu um stofndag og ár en skila þarf fundargerð þar sem aðildarumsókn til HSÞ er tekin fyrir og samþykkt.

  1. grein

Vilji félag ganga úr sambandinu telst úrsögn því aðeins lögmæt að samþykkt hafi verið á löglegum aðalfundi viðkomandi félags, og miðist úrsögn við næstu áramót. Skriflega úrsögn skal senda til stjórnar HSÞ, sem síðan tilkynnir hana á ársþingi. Eigi getur félag sem gengur úr sambandinu krafist endurgjalds á fjármunum sem það hefur lagt til sambandsins eða nokkurs hluta af eignum þess. Ekki er skylt að taka úrsögn viðkomandi félags gilda nema félagið sé skuldlaust við sambandið.

  1. grein

Hvert aðildarfélag skal halda aðalfund, leggja fram skýrslur og ársreikninga og bera upp við félagsmenn sína eins og lög þess gera ráð fyrir og staðfest hafa verið af HSÞ, ÍSÍ og/eða UMFÍ. Senda skal aðalfundarboð aðildarfélaga til skrifstofu HSÞ. Fundargerðir aðalfunda ásamt ársreikningum félags skal senda stjórn HSÞ eigi síðar en tveimur vikum eftir að aðalfundur hefur farið fram.

Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma ber stjórn HSÞ, sé þess óskað, að aðstoða við boðun og framkvæmd aðalfundarins. Í því skyni skal HSÞ hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum aðildarfélaga/sérráða sinna og ef ástæða þykir til getur stjórn HSÞ tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir félagið og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðildarfélags/sérráðs. Stjórnir aðildarfélaga/sérráða geta krafist þess að bókhaldsgögn fari eingöngu um hendur löggilts endurskoðanda og skal kostnaður við það greiddur af aðildarfélaginu.

  1. grein

Fyrir 1. febrúar skulu aðildarfélög HSÞ skila skriflegri ársskýrslu til HSÞ, sem birtist í ársskýrslu HSÞ. Þar skal tilgreina aðalstjórn og stjórnir deilda og nefnda ef við á ásamt sögulegu yfirliti yfir starfið. Aðildarfélög HSÞ skulu skila starfsskýrslum með félaga- og iðkendatölum og tölum úr ársreikningum í gegnum félagakerfi íþróttahreyfingarinnar fyrir 15. apríl ár hvert.

Skylt er hverju félagi að greiða til sambandsins árgjald fyrir hvern félagsmann, 18 ára og eldri, og ákveður ársþing upphæð þess hverju sinni. Gjalddagi er 1. júní og skal miða við félagatal skv. starfsskýrslum til ÍSÍ/UMFÍ sama ár.

Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma skal stjórn HSÞ, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. Ársþingi HSÞ er heimilt, hafi aðildarfélag ekki farið að lögum og/eða fyrirmælum þess, að ákveða að víkja félaginu úr HSÞ.

  1. grein

Hvert það aðildarfélag sem ekki hefur haldið aðalfund, sent skýrslur og ársreikninga eða greitt árgjöld í samræmi við 19. og 20. grein, missir atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi HSÞ. Líði annað ár án þess að félag haldi aðalfund eða geri skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum skal ársþing HSÞ víkja félaginu úr sambandinu. Víki ársþing HSÞ félagi úr sambandinu er stjórn HSÞ skylt að tilkynna það til ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda.

V. Kafli. Um sérráð

  1. grein

Sérráð er samband þeirra félaga og félagsdeilda innan HSÞ sem hafa iðkun sömu íþróttar á stefnuskrá sinni. Það fjallar um sérfræðileg málefni íþróttagreinar innan héraðsins. Um önnur mál er sérráð háð HSÞ.

Þar sem tvö eða fleiri aðildarfélög hafa iðkun sömu íþróttagreinar á stefnuskrá sinni má HSÞ stofna sérráð. Ársþing skilgreinir sérráð og ákveður hvaða ráð skuli starfa milli þinga. Þó skal stjórn HSÞ einnig heimilt að skipa sérráð ef ástæða er til. Aðildarfélög geta óskað eftir því við stjórn HSÞ að sérráð sé skipað.

HSÞ skal setja starfsreglur um sérráð sem kynna þarf sérsambandi í viðkomandi íþróttagrein. Ársþing staðfestir starfsreglur sérráða, en stjórn HSÞ getur sett starfsreglur sérráða til bráðabirgða fram að næsta ársþingi.

  1. grein

Sérráð skulu almennt skipuð formönnum aðildarfélaga eða deilda innan aðildarfélaga sem sinna viðkomandi íþróttagrein, eða fulltrúum þeirra. Sérráðin skipta sjálf með sér verkum og tilnefna formann. Stjórn HSÞ staðfestir skipan formanna sérráða.

  1. grein

Hlutverk sérráða almennt er að annast skipulag mótahalds og viðburða í hlutaðeigandi íþróttagreinum innan héraðs. Sérráð gerir tillögur að reglum um mótahald og aðra starfsemi og staðfestir stjórn þær. Að öðru leiti er vísað til starfsreglna hvers sérráðs.

Sérráð skulu skila ársskýrslum og reikningum til stjórnar HSÞ fyrir lok janúar ár hvert. Sérráðum er ekki heimil lántaka fjármuna nema með samþykki stjórnar HSÞ.

VI. Kafli. Önnur ákvæði

  1. grein

Ákvörðun um slit sambandsins skal taka á löglega boðuðu ársþingi. Komi slík tillaga fram skal hún þegar tekin til umræðu og atkvæði um hana greidd. Samþykki 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa tillöguna skoðast hún samþykkt og skal þingi slitið tafarlaust. Fráfarandi stjórn situr áfram í fullu umboði og skal hún boða til aukaþings innan tveggja mánaða. Þá skal tillagan borin upp að nýju. Sé hún samþykkt með 4/5 greiddra atkvæða fulltrúa á þinginu skulu það heita lögleg sambandsslit. Verði tillagan felld skulu þingstörf halda áfram þar sem frá var horfið á fyrra þingi.

  1. grein

Komi til sambandsslita HSÞ skulu allar eignir þess renna í einn sjóð sem verði í vörslu UMFÍ en þó ávaxtaður í peningastofnun á sambandssvæðinu. Höfuðstól sjóðsins má eigi skerða en ráðstafa 2/3 ársávöxtunar til íþrótta- og æskulýðsstarfs á sambandssvæði HSÞ.

Verði nýtt samband stofnað sem stefnir að sömu markmiðum og HSÞ á sambandssvæðinu skulu eignir HSÞ renna til þess.

  1. grein

Lög þessi öðlast gildi eftir samþykkt þeirra og falla þá eldri lög úr gildi.

 

Samþykkt á ársþingi HSÞ haldið á Grenivík þann 26. febrúar 2023.