Snilldar HSÞ-kappi setti íslandsmet í spjótkasti ! /frétt ÍFF

Vormót öldunga í frjálsum íþróttum var haldið síðustu helgina í maíVormotOldunga og var keppt í fimm greinum;  kúluvarp, sleggjukast, lóðakast, kringlukast og spjótkast.

Þátttaka var nokkuð góð og var víst mikið fjör og vel tekið á því af þessum görpum.  Ekki náðist að hafa alla með á myndinni.

HSÞ átti þarna einn fulltrúa, Róbert Þorláksson (þriðji frá hægri á mynd), sem keppti í öllum greinunum í flokki 70 – 74 ára.  Hann bætti sig nánast í öllum greinum og gerði sér svo lítið fyrir og setti íslandsmet í spjótkastinu!

Má sjá öll úrslit Vormótsins hér.

Róbert er heldur ekkert að slá slöku við næstu vikurnar.   Stefnir á að skreppa á Norðurlandamót öldunga í frjálsum sem haldið verður í byrjun júlí í sumar í Óðinsvéum í Danmörku!  En til þess að vera í góðu formi fyrir það mót þá ætlar hann gallvaskur að mæta á Landsmót UMFÍ 50+ á Ísafirði helgina 10. – 12. júní, en þangað er að fara 20 manna hópur til að taka þátt í mótinu undir merkjum HSÞ. Gaman að geta þess að flestir í hópnum eru 62 – 82 ára, en „unglingurinn“ í hópnum er rétt svo löggildur þetta árið, 50 ára.