Stórmót ÍR fór fram um helgina

Metþátttaka var á 19. Stórmóti ÍR  var haldið í laugardalshöll 31. janúar og 1. Febrúar sl. Yfir 800 keppendur voru skráðir til leiks frá 32 félögum.   Mótið var haldið í 10. skipti í Laugardalshöll. Auk fjölmenns hóps barna og unglinga kepptu flestir okkar bestu frjálsíþróttamenn á mótinu.

Hópmynd af keppendum frá HSÞ
Hópmynd af keppendum frá HSÞ

Lið HSÞ fór með rútu ásamt UMSE og UFA til að spara mótskostnað fyrir keppendur en 9 keppendur og 3 mæður/farastjórar fóru frá HSÞ.  Mæting var við Bogann á Akureyri  rétt fyrir klukkan 16  á föstudaginn og á gististað vorum við komin um klukkan 22.  Gist var á farfuglaheimilinu í Laugardal eins og svo oft áður og er það ódýr og góður kostur þegar liðið er bíllaust í Reykjavík. Það tók innan við 15 mínútur að ganga á milli gististaðar og keppnisstaðar og ekki skemmdi að Laugardalslaug var líka í gönguleiðinni.  Þegar komið var á gististað var farið að búa um og var það pínu hausverkur hjá sumum, einn sagði „mamma reyndi að kenna mér þetta um jólin“.  Smá hressing var í boði  og morgundagurinn skipulagður áður en farið var að sofa.  Laugardagurinn var tekinn snemma en við þurftum að vera komin í íþróttahúsið laust eftir klukkan 8 því fyrstu keppendur okkar áttu að hefja keppni klukkan 9.  Ákveðið var að kaupa morgunmat á gistiheimilinu og var það góð tilbreyting frá nesti.   Ein nýjung var á þessu Stórmóti en það var að veita viðurkenningu fyrir mestu bætingu í hverri grein í hverjum aldursflokki.  Skemmtileg nýjung  og þörf því auðvitað er alltaf markmiðið að bæta sinn eigin árangur.   En eins og mótshaldarar sögðu:

´“Viðurkenningunni er ætlað að varpa ljósi á þá áherslu í frjálsíþróttastarfinu að persónulegar framfarir og atgervisaukning einstaklinga á öllum getustigum er eitt af höfuðmarkmiðum frjálsíþróttastarfsins þar sem allir hafa hlutvek, enginn situr á varamennabekk og kynjamismunun fær ekki þrifist. Einhugur er meðal sambandsaðila um að viðurkenning af þessum toga sé vel til fundin og að æskilegt sé að koma henni fyrir í mótahaldinu með formlegri hætti en tíðkast hefur á frjálsíþróttamótum almennt til þessa.“

Hafdís Inga Kristjánsdóttir 11 ára var að keppa á sínu fyrsta stórmóti og náði sér í silfurpening í kúlu ásamt því að fá viðurkenningarskjal fyrir mestu  bætingu en hún bætti sig um 50 cm.  Natalía Sól Jóhannsdóttir 12 ára  fékk einnig silfur pening fyrir kúlu.  Á Stórmóti ÍR keppa 11-12 ára krakkarnir bara fyrri daginn og á þessu móti voru þau búin að keppa um klukkan 14.  Þá var ákveðið að fara í sund með þau sem vildu en aðrir voru áfram upp í höll enda áttu  eldri keppendur okkar enn eftir að keppa í nokkrum greinum.   Elstu strákarnir okkar luku keppni rétt fyrir klukkan 19 fyrri daginn.  Kjúklingur og hamborgar voru pantaðir í heimsendingu og gerðu krakkarnir matnum góð skil.  Ákveðið var að fá einn sal í gistiheimilinu til að borða og  þar var skjávarpi og endaði dagurinn með því að hafa bíó.  Sum augu náðu ekki alveg endanum á myndinni  enda langur dagur að baki.  Daginn eftir var vakið  um klukkan 8 enda þurftum við að vera búin að losa herbergin klukkan 10.  Seinni keppnisdagurinn var öllu rólegri næstum of rólegur.   Við áttum keppenda í  sex greinum og oftast klukkustund milli greina hjá þeim.  Tíminn milli greina var nýttur í að klára nesti og  horfa á aðra frjálsíþróttaiðkendur keppa og hvetja þá til dáða.   Eyþór Kári Ingólfsson náði 3. sæti í hástökki en einnig fékk hann tvær viðurkenningar fyrir mestu bætingu í grein.  Í 200 m. hlaupi, bæting um 5, 41 sek.  og 60 m hlaupi, bæting um 1,63 sek.

Í heildina náðist mjög góður árangur hjá krökkunum.   Brói var mjög ánægður með árangur sinna keppenda og sagði að þau hefðu náð betri árangri en hann hefði búist við. Ekki það að hann hafi ekki haft trú á krökkunum heldur er  oft  erfitt fyrir keppendur að koma á svona stóran keppnisstað með topp aðstöðu þegar búið er að æfa í litlum sal við allt aðrar aðstæður.  Okkar krakkar ná t.d. ekki að æfa 60 m. hlaup innanhús heldur bara 30-40 m. hlaup.  Flestir ef ekki allir bættu sinn persónulega árangur í einni eða fleiri greinum.  Aðrir eru búnir að setja sér markmið fyrir næsta mót sem er eftir hálfan mánuð hjá 11-14 ára þ.e. meistarmótið.  Á svona mótum skapast oft mjög góð stemning og hópurinn þéttist og kynnist vel. Við getum ekki annað en verið stolt af hópnum sem fór þessa helgina en þau eiga hrós skilið fyrir hegðun og framkomu. Einnig er gaman að vera samferða öðru íþróttafélagi því þar skapast líka vinskapur og liðin eru dugleg að hvetja hvert annað.  Vonandi sjá flestir sér fært um að greiða greiðsluseðilinn sem fylgdi dagatalinu sem kom í pósti um daginn og styrkja með því  þessa krakka því þau eiga fullt erindi á svona íþróttamót.  HES/MS