Viðbragðsáætlun og verklagsreglur HSÞ vegna aga-, eineltis-, ofbeldis- og kynferðisbrota 

Hafir þú orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi af einhverju tagi innan félagsins skaltu  leita til einhvers sem þú treystir og segja frá.  

 • Eftir málsatvikum og alvarleika getur einnig verið rétt að hafa samband við lögregluyfirvöld eða neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, lækni eða heilsugæslu.  
 • Láttu félagið þitt, þjálfara, stjórn eða framkvæmdastjóra HSÞ vita sem aðstoða við að koma málinu í viðeigandi farveg. 
ÍSÍ fræðsluefni

Hér er orðið æfing notað sem regnhlífarorð um hvers kyns viðburði hjá félaginu, fundi og æfingar sem viðkomandi eru þátttakendur í. Orðið barn er einnig notað um alla þá sem eru yngri en 18 ára. 

Ábyrgðaraðili  getur átt við um alla starfsmenn og sjálfboðaliða sem gegna ábyrgðarhlutverki, sama hvaða nafni það kallast. 

Brot

Útskýring og verklagsáætlun

Agabrot

Hér er átt við brot á lögum og reglum félagsins.  
Væg agabrot eru t.d. almenn óhlýðni við fyrirmælum og ólæti.  
Alvarleg agabrot eru t.d. ofbeldi í öllum birtingarmyndum s.s. líkamsmeiðingar, einelti, illmæli, neysla ávana- og vímuefna (t.d. áfengi, tóbak, rafrettur), og brot á landslögum. 

Verklag: 

Væg agabrot: veita viðkomandi tiltal, mögulega veita tímabundna brottvísun frá æfingu. 
Alvarleg agabrot: Vísa viðkomandi af æfingu, hafa samband við forráðamann og sjá til þess að barnið sé sótt – tala við forráðamenn um málavexti. 
Ítrekuð agabrot: Skrifleg aðvörun send til viðkomandi og forráðamenn upplýstir. Láti viðkomandi ekki af hegðun sinni skal vísa honum tímabundið úr starfi – ábyrgðaraðili tekur þessa ákvörðun í samráði við aðalstjórn félagsins [framkvæmdastjóra HSÞ]. 

Einelti
Áreitni
Ofbeldi 

Einelti er endurtekin athöfn eða hegðun sem niðurlægir, gerir lítið úr, móðgar, særir, mismunar eða ógnar og veldur vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Þetta er óvelkomin hegðun fyrir þann sem fyrir henni verður, hvort sem henni er beitt með orðum, líkamlega eða annarri tjáningu. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt og líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. 

Verklag:

Samskiptavandi 

Reynið að leysa úr samskiptavanda eins fljótt og auðið er s.s. með því að ræða við hlutaðeigendur málsins, hvern í sínu lagi ef þarf, til að leysa málið en jafnframt til þess að meta alvarleika þess.  

  • Mikilvægt getur verið að skrá niður hvað gerðist og forðast að vera einir í viðtölum.  
  • Foreldrar/forráðamenn hluteigandi aðila eru upplýstir um málið. 

Ef grípa þarf til aðgerða til þess að aðskilja aðila í félagsstarfi skal ávallt færa gerendur til en ekki þolendur 

 

 

Einelti 
Áreitni 
Ofbeldi 

Sé málið stærra en svo að hægt sé að leysa það á einfaldan hátt skal tilkynna málið til aðalstjórnar félagsins [framkvæmdastjóra HSÞ] eða beint til fagráðs Æskulýðsvettvangsins. 

 • Þegar slík tilkynning berst aflar stjórnin [framkvæmdastjóri HSÞ] nauðsynlegra upplýsinga frá þolanda, meintum geranda/gerendum, forráðamönnum, ábyrgðaraðilum, vinum og þeim sem geta veitt upplýsingar um málið  og tilkynning er send til fagráðs Æskulýðsvettvangsins. 
 • Upplýsa skal foreldra/forráðamenn um tilkynninguna.  
 • Fagráð Æskulýðsvettvangsins metur upplýsingarnar og setur fram áætlun um hvernig skuli tekið á málinu, fylgir því eftir og aðstoðar við að vinna úr málinu. 
 • Gerist ábyrgðaraðili sekur um einelti/áreitni/ofbeldi skal vísa viðkomandi úr starfi tímabundið á meðan unnið er að lausn málsins ef viðvera viðkomandi hefur áhrif á daglegt starf innan félagsins. 

Ef grípa þarf til aðgerða til þess að aðskilja aðila í félagsstarfi skal ávallt færa gerendur til en ekki þolendur.
Öllum er heimilt að tilkynna um einelti eða ofbeldi hvers kyns beint til Æskulýðsvettvangsins með því að fylla út þar til gert eyðublað og skila til fagráðsins. 

Ábyrgðaraðili verður fyrir hótun, áreitni eða ofbeldi 

Ef ábyrgðaraðili verður fyrir hótun, áreitni eða ofbeldi í tengslum við félagsstarf skal hann sem fyrst snúa sér til stjórnar félagsins [framkvæmdastjóra HSÞ] sem meta atvikið með ábyrgðaraðila, hugsanlegum vitnum og öðrum sem málið varðar. 

 • Meta þarf alvarleika atviks og ganga úr skugga um að ábyrgðaraðili fái viðeigandi stuðning og tryggja að umrætt ofbeldi/áreiti/hótanir haldi ekki áfram. 
 • Skrá nákvæma lýsingu á atvikinu og tilkynna til fagráðs Æskulýðsvettvangsins sem aðstoðar við verklag og önnur viðbrögð. 

Ef barn yngra en 18 ára beitir ábyrgðaraðila alvarlegu ofbeldi skal tilkynna það til foreldra/forráðamanna barnsins og til lögreglu og barnaverndaryfirvalda.
Ef starfsmaður / sjálfboðaliði félags beitir ábyrgðaraðila alvarlegu ofbeldi skal tilkynna það til lögreglu og víkja viðkomandi úr starfi á meðan rannsókn stendur. 

Kynferðisbrot 

Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og óheimilt er að afgreiða slík mál innan aðildarfélaga. Með kynferðisbroti er átt við þá háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í barnaverndarlögum nr. 80/2002. 

Verklag: 

Brotið á barni

Ef grunur vaknar um kynferðisbrot á barni eða ungmenni í félagsstarfi skal tilkynna það tafarlaust til aðalstjórnar félags [framkvæmdastjóra HSÞ], fagráðs Æskulýðsvettvangsins og/eða barnaverndaryfirvalda/lögreglu í síma 112.   

 • Stjórn félagsins [framkvæmdastjóri HSÞ] gerir barnaverndaryfirvöldum og lögreglu viðvart sem og stjórn sambandsins [félagsins]. Jafnframt er fagráði Æskulýðsvettvangsins gert viðvart.  
 • Framkvæmdastjóri HSÞ eða fagráð Æskulýðsvettvangsins skal hafa samband við forráðamenn barnsins og greina frá atburðum, nema barnaverndaryfirvöld eða lögregla gefi fyrirmæli um annað. 

Eftir að mál hefur verið tilkynnt til réttra aðila sjá barnaverndaryfirvöld og lögregla alfarið um meðferð málsins. 

Ábyrgðaraðili er meintur gerandi

Ef meintur gerandi er ábyrgðaraðili skal ávallt vísa viðkomandi tímabundið úr starfi á meðan rannsókn málsins stendur yfir. 

 • Framkvæmdastjóri HSÞ [stjórn félags]  skal upplýsa framkvæmdastjóra félagasamtaka Æskulýðsvettvangsins sem leitar eftir upplýsingum úr sakaskrá viðkomandi ábyrgðaraðila, þó svo það hafi verið gert áður. Hafi ábyrgðaraðili verið dæmdur fyrir kynferðisbrot skal honum vikið úr starfi tafarlaust. 
 • Séu engar upplýsingar í sakaskrá skal hafa samband við barnaverndaryfirvöld, upplýsa um uppkomnar grunsemdir og biðja barnaverndarnefnd að kanna málið betur. 
 • Í hvert sinn sem upp koma sögusagnir um kynferðisbrot ábyrgðaraðila á barni þarf að meta áreiðanleika upplýsinganna. Ákvörðun og mat um tilkynningu til barnaverndaryfirvalda er tekin af framkvæmdastjóra og í samstarfi við fagráð Æskulýðsvettvangsins. Einnig má fá ráðleggingar hjá Barnaverndarstofu. 
  • Fagráð Æskulýðsvettvangsins er framkvæmdastjórum og stjórnum aðildarfélaga til ráðgjafar varðandi mál sem tengjast kynferðisbrotum. 
  • Þó svo langt sé liði frá því meint brot átti sér stað skal samt sem áður tilkynna það til sömu aðila. 

Taki yfirvöld til rannsóknar mál þar sem meintur gerandi er ábyrgðaraðili er honum vikið úr starfi sínu tímabundið á meðan rannsókn málsins stendur fyrir. Þegar niðurstöður liggja fyrir hjá viðeigandi yfirvöldum er tekin ákvörðun um framhald starfa meints geranda, í samráði við barnaverndaryfirvöld, ef við á, og fagráð Æskulýðsvettvangsins. 

Brotið á ábyrgðaraðila 

Vakni grunur um að brotið hafi verið kynferðislega á ábyrgðaraðila í félagsstarfi skal tilkynna það tafarlaust til stjórnar félagsins [framkvæmdastjóra HSÞ], eða beint til fagráðs Æskulýðsvettvangsins. 

 • Framkvæmdastjóri gerir lögreglu viðvart í síma 112, einnig barnaverndaryfirvöldum sé einhver hlutaðeigandi yngri en 18 ára. 
 • Einnig skal gera fagráði Æskulýðsvettvangsins viðvart. 
Áfengi 
Tóbak 
Vímuefni 

Öll neysla áfengis og annarra ávana- og vímuefna er bönnuð hvar sem skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf fer fram á vegum félaganna þar sem þátttakendur eru undir tvítugu. 

Reykingar og önnur tóbaksnotkun er bönnuð í húsakynnum íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þeim sem eru undir 18 ára er óheimilt að reykja eða nota annað tóbak og rafrettur í félagsstarfi. 

Verklag: 

Öll viðbrögð skulu mótast af vilja til að aðstoða viðkomandi við að laga sig að reglunum og áframhaldandi starfs innan félagsins. Upplýsa skal foreldra um neyslu ólögráða barna í félagsstarfi. 

Veita skal áminningu við fyrsta brot og aðstoð til að laga sig að reglum. Við annað brot skal vísa viðkomandi úr starfi, hvort sem um iðkanda eða ábyrgðaraðila er að ræða, en leitast við að hafa áhrif á að viðkomandi leiti sér aðstoðar. Hægt er að endurskoða brottvikningu hafi viðkomandi bætt ráð sitt. 

Samþykkt á 12. ársþingi HSÞ, Skjólbrekku, 10. mars 2019