Æfum alla ævi

Stefna HSÞ á sviði hreyfingar, íþrótta og lýðheilsu


Ársþing Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) haldið í Ýdölum þann 11. mars 2018 samþykkti að sambandið myndi móta sér íþrótta- og æskulýðsstefnu sem snýr að því að efla heilsu og vellíðan fólks með aukinni hreyfingu. Stefnan hefur fengið heitið „Æfum alla ævi“. Hægt er að skoða stefnuna í flipunum hér neðar eða skoða hana sem pdf.skjal ef smellt er á hlekkinn. Þá er hér hlekkur á samantekt um stöðu og starf HSÞ og aðildarfélaga þess.

Æfum alla ævi

„Æfum alla ævi“ er stefna sem HSÞ mun vinna að í samvinnu við íþrótta- og ungmennafélög og sveitarfélög á sambandssvæði þess til þess að efla heilbrigt líferni. Helstu markmið stefnunnar eru aukin reglubundin hreyfing, íþróttir fyrir alla og efling sjálfboðaliða. Til þess að ná þessum markmiðum fram er stefnunni skipt niður í fjóra megin þætti sem saman styðja hver annan og efla.

Líkami manneskju er hannaður til þess að hreyfa sig. Stoðkerfið allt, bein og vöðvar, og taugakerfið myndar nær órofa heild þar sem efnaboð á einum stað valda samdrætti í vöðvafrumum og hreyfingu líkamans eða líkamsparta. Fleiri líkamskerfi koma auðvitað við sögu þegar allt er skoðað s.s. hormónakerfið, hjarta- og æðakerfið og lungnakerfið til að nefna nokkur, en samspil þessara kerfa við reglulega áreynslu gerir líkamanum kleift að aðlagast álagi. Regluleg hreyfing hjálpar þannig til við að viðhalda þreki og starfsgetu mannslíkamans, betri heilsu, ásamt því að auka lífsgæði.

Það er hverri manneskju nauðsynlegt að hreyfa sig reglulega því auk bættrar starfsgetu þá vinnur regluleg hreyfing einnig gegn ýmsum ótímabærum sjúkdómum sem rekja má til óheilbrigðs lífsstíls. Hreyfingarleysi, of hár líkamsþyngdarstuðull, lélegt mataræði, óhófleg áfengisneysla, andlegt álag og tóbaksnotkun eru allt dæmi um óheilbrigðan lífsstíl og má rekja byrði margra lífsstílssjúkdóma til þessara örfáu áhættuþátta[1]. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl hreyfingarleysis við marga lífsstílssjúkdóma s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, sum krabbamein, ýmsa stoðkerfissjúkdóma, innkirtlasjúkdóma s.s. sykursýki og andlega sjúkdóma á borð við þunglyndi og kvíða[2]. Jafnframt hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á mikilvægi hreyfingar sem forvörn gegn þessum sömu lífsstílssjúkdómum en einnig sem meðferðarform[3]. Þá eru líkamleg og andleg vellíðunaráhrif hreyfingar einnig þekkt[4] sem og mikilvægi hreyfingar til að viðhalda sjálfstæði einstaklinga í daglegum athöfnum[5].

Íslenska þjóðin er að eldast, meðalævilengd íslenskra kvenna er nú tæp 84 ár og hefur lengst um 4 ár síðan 1987 og meðalævilengd íslenskra karla er tæp 81 ár sem er aukning um 6 ár[6]. Ef litið er á aldurssamsetningu og íbúaþróun í Þingeyjarsýslum má sjá að hlutfallslega hefur íbúum fjölgað í eldri aldurshópum miðað við þá yngri frá árinu 1998 (sjá mynd)[7]. Lífsstílssjúkdómar þróast alla jafna yfir langan tíma og koma oft ekki fram fyrr en um og eftir miðjan aldur. Með tilliti til hækkandi aldurs og stærri hóps er því er enn mikilvægara að huga að hreyfingu og heilsueflingu hjá eldri aldurshópum.

[1] (Gakidou, E. et al., 2017; Ezzati & Riboli, 2013; Egger & Dixon, 2014)
[2] (Booth, Roberts, & Laye, 2012)
[3] (Pedersen & Saltin, 2015)
[4] (Mikkelsen, Stojanovska, Polenakovic, Bosevski, & Apostolopoulos, 2017)
[5] (Stessman, Hammerman-Rozenberg, Maaravi, & Cohen, 2002)
[6] (Hagstofa Íslands, 2018)
[7] (Samband íslenskra sveitarfélaga)

Það er rík hefð í vestrænum þjóðfélögum fyrir íþróttum og íþróttaiðkun. Skipulagt íþróttastarf, bæði fyrir börn og fullorðna, er víða í boði þó misjafnt sé hvort áherslan sé á þátttöku og gleði eða afrek og titla. Í stefnu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga er lögð áhersla á að íþróttir eigi að vera fyrir alla, vera skemmtilegar og að leikurinn skipi stóran sess til að örva og þjálfa hreyfireynslu, -færni og líkamlegt atgervi. Áhersla er lögð á jöfn tækifæri, bæði til æfinga og keppni og miðað við þroska, getu og áhuga, sem og að hafa möguleika á að stunda íþróttir vegna félagsskaparins[8].

Þátttaka barna- og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi eða aukinni hreyfingu hefur margvísleg jákvæð áhrif fyrir utan líkamlega færni. Til að mynda hefur verið sýnt fram á tengsl við betri námsárangur[9], betri andlega og félagslega líðan, og bætta sjálfsmynd svo eitthvað sé nefnt[10]. Talið er að börn læri t.a.m. ákveðinn sjálfsaga við það að stunda skipulagðar íþróttir og það skili sér í betri námsárangri. Skipulagt íþróttastarf er því ekki síður mikilvægt fyrir félagslegan og andlegan þroska barna og unglinga eins og fyrir líkamlegan þroska og forðast skyldi að líta eingöngu til íþróttastarfs sem leið til íþróttaafreka.

[8] (Íþrótta- og ólympíusamband Íslands)
[9] (Sævarsson, o.fl., 2017; Centers for Disease Control and Prevention, án dags.)
[10] (Liu, Wu, & Ming, 2015)