Reglugerðir HSÞ

Smellið á sjóðinn til að hlaða niður umsóknareyðublaði

Afreksmannasjóður HSÞ – Hægt er að sækja um í sjóðinn hvenær sem er ársins

Aksturssjóður HSÞ – Auglýst er eftir umsóknum þrisvar sinnum á ári, alla jafna apríl/maí, ágúst/september og nóvember/desember

Fræðslusjóður HSÞ – Umsóknir í sjóðinn þurfa að berast fyrir 15. nóvember ár hvert

Lottóreglugerð Héraðssambands Þingeyinga

Lottótekjurnar skiptast þannig:
Af óskiptu fari:*
5% sem skiptist jafnt á milli:
Afreksmannasjóðs HSÞ
Akstursstjóðs HSÞ
Af því sem þá er eftir:
20% til HSÞ
80% til aðildarfélaga HSÞ
Skipting milli aðildarfélaganna:
15% eftir mætingu á ársþing
70% eftir iðkendatali 6-17 ára
15% vegna félagsmanna 18 ára og eldri.
Samþykkt á Framhaldsstofnþingi HSÞ í Skjólbrekku 12.apríl 2008

Forsendur fyrir skiptingu milli aðildarfélaganna:
1. Mæti félag ekki með fulltrúa á ársþing HSÞ fær það félag ekki úthlutað úr lottó. Einnig þarf félag að hafa skilað starfsskýrslu fyrir úthlutunarárið, bæði skriflegri skýrslu fyrir ársþing HSÞ og starfsskýrslu í Felix, félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ fyrir 15. apríl ár hvert.
2. Greiðsla eftir mætingu á ársþing HSÞ er í hlutfalli við fulltrúafjölda félags á þinginu.
Viðaukinn samþykktur á ársþingi HSÞ í Ljósvetningabúð 12. mars 2011, með orðalagsbreytingu á ársþingi á Raufarhöfn 26. febrúar 2012.

Samþykkt á ársþingi HSÞ á Laugum í Reykjadal 23. mars 2014.
*Breytingar samþykktar á Ársþingi HSÞ í Stórutjarnaskóla 12. mars 2017 með
orðalagsbreytingu á ársþingi í Ýdölum 11. mars 2018

Fræðslusjóður HSÞ

1. grein
Sjóðurinn heitir Fræðslusjóður HSÞ
2. grein
Tilgangur sjóðsins er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi, með því að sækja námskeið, fundi og ráðstefnur ef stjórn sambandsins álítur það íþrótta- og félagslífi í héraði til framdráttar.
3. grein
Aðalstjórn HSÞ sér um úthlutanir úr sjóðnum.
4. grein
Vörslu sjóðsins og reikningshald annast gjaldkeri/starfsmaður HSÞ.
5. grein
Tekjur sjóðsins eru:
a) Ársþing HSÞ ákveður framlag til sjóðsins ár hvert að lágmarki kr. 150.000.-
b) Frjáls framlög og söfnunarfé.
6. grein
Öll aðildarfélög innan HSÞ og félagsmenn þeirra eiga rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum. Umsóknir vegna yfirstandandi árs þurfa að berast skrifstofu HSÞ á þar til gerðu eyðublaði fyrir 15. nóvember ár hvert og skulu undirritaðar/staðfestar af formanni viðkomandi aðildarfélags. Skila þarf staðfestingu á greiðslu námskeiðsgjalda með umsókn.
7. grein
Styrkupphæðir skulu taka mið af fjármagnsgetu sjóðsins og skal sjóðstjórn setja sér vinnureglur varðandi úthlutun. Styrkupphæðir geta þó aldrei numið hærri upphæð en útlögðum kostnaði styrkþega. Sjóðstjórn er heimilt að veita styrki úr sjóðnum að eigin frumkvæði til verkefna sem ekki teljast til árlegra verkefna hreyfingarinnar.
8. grein
Sjóðsstjórn skal skila skýrslu til stjórnar HSÞ þar sem gerð er grein fyrir styrkveitingum og fjárreiðum sjóðsins.

Samþykkt á 3. ársþingi HSÞ í Sólvangi 13. mars 2010.
Breytingar samþykktar á 12. ársþingi HSÞ í Skjólbrekku 10. mars 2019

Afreksmannasjóður HSÞ

Reglugerð sjóðsins:
1. grein
Sjóðurinn heitir Afreksmannasjóður HSÞ og er stofnaður á ársþing HSÞ 10. apríl 1994.*
2. grein
Tilgangur sjóðsins er að styrkja afreksfólk, einstaklinga eða hópa innan HSÞ sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni.
3. grein
Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum.
4. grein
Stjórn sjóðsins annast alla úthlutun úr sjóðnum. Hún er skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á ársþingi HSÞ til þriggja ára, sitt árið hver. Stjórnin skiptir með sér verkum. Þá skal á hverju ársþingi HSÞ kjósa einn varamann sem stjórninni er heimilt að kalla til ef fjallað er um mál sem tengjast einhverjum stjórnarmönnum persónulega. Skal þá sá stjórnarmaður víkja fundi.
5. grein
Vörslu sjóðsins og reikningshald annast gjaldkeri HSÞ.
6. grein
Tekjur sjóðsins eru:*
a) 2,5% af óskiptum lottótekjum HSÞ.
b) Frjáls framlög og söfnunarfé.
c) Vaxtatekjur.
7. grein
Um styrkveitingar:
1) Veita má styrk úr sjóðnum án umsóknar vegna mjög góðrar frammistöðu í eftirtöldum alþjóðamótum:
a) Heimsmeistaramótum
b) Evrópumeistaramótum
c) Norðurlandameistaramótum
d) Ólympíuleikum
2) Heimilt er að veita styrk úr sjóðnum ef viðkomandi hefur verið valinn í landslið.
3) Ennfremur er heimilt að veita styrk til þeirra sem standa framarlega í sinni grein miðað við styrkleikaflokkun sérsambanda (sé hún til).
4) Einnig getur sjóðsstjórn veitt styrki til einstaklinga eða hópa þó ekki liggi fyrir skrifleg umsókn viðkomandi, telji hún það samrýmast reglum sjóðsins.
8. grein
Styrkupphæðir taka mið af fjármagnsgetu sjóðsins hverju sinni.
9. grein
Til að hljóta styrk geta íþróttamenn aðrir en um getur í 7. grein sótt skriflega um til sjóðsstjórnar. Í umsókn skal gera grein fyrr ástæðum hennar og þurfa umsóknir að vera undirritaðar af formanni viðkomandi aðildafélags. Umsóknir og úthlutanir úr sjóðnum geta farið fram á hvaða árstíma sem er.*

*Breytingar samþykktar á Ársþingi HSÞ haldið í Stórutjarnaskóla 12. mars 2017

Aksturssjóður HSÞ

Reglugerð sjóðsins:
1. grein
Sjóðurinn heitir Aksturssjóður HSÞ.
2. grein
Tilgangur sjóðsins er að taka þátt í ferðakostnaði vegna þátttöku barna og unglinga, 18 ára og yngri, á félagssvæði HSÞ í skipulögðum íþróttaæfingum og/eða skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi, á vegum aðildarfélaga HSÞ. Félagssvæði HSÞ er stórt, dreifbýlt og vegalengdirnar tiltölulega miklar þegar horft er til heildarinnar og aðstæðna. Með sjóðnum er leitast við að gefa börnum og unglingum innan HSÞ aukin tækifæri til æfinga og þátttöku í skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi. Um leið er stutt við skipulagt starf virkra aðildafélaga HSÞ í héraði og jafnframt hvatt til aukins samstarfs milli aðildarfélaga HSÞ þar sem það á við.
3. grein*
Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum. Umsækjendur geta verið foreldrar/forráðamenn, hópur foreldra eða aðildarfélög HSÞ. Til að umsókn geti farið fyrir aksturssjóð HSÞ þarf akstur á æfingastað að vera umfram 35 km hvora leið. Leitast skal við að sameina í bíla eins og kostur er. Ekki er gert ráð fyrir styrkjum vegna sérstakra æfingabúða utan héraðs.
4. grein
Stjórn sjóðsins annast alla úthlutun úr sjóðnum. Hún er skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á ársþingi HSÞ til þriggja ára, sitt árið hver. Stjórnin skiptir með sér verkum. Þá skal á hverju ársþingi HSÞ kjósa einn varamann sem stjórninni er heimilt að kalla til ef fjallað er um mál sem tengjast einhverjum stjórnarmönnum persónulega. Skal þá sá stjórnarmaður víkja fundi.
5. grein
Vörslu sjóðsins og reikningshald annast gjaldkeri HSÞ.
6. grein
Tekjur Aksturssjóðs eru:
a) 2,5% af óskiptum lottótekjum HSÞ
b) Tekjur frá Íslenskum getraunum*
c) Frjáls framlög og söfnunarfé
d) Vaxtatekjur
7. grein
Stjórn sjóðsins setur nánari úthlutunarviðmið en gengið er út frá ákveðnum einingatölum fyrir hvern ekinn kílómetra.
8. grein
Hægt verður að sækja um styrk frá sjóðnum vegna ferðakostnaðar og verður umsóknarferli auglýst 3 sinnum á ári. Umsóknir eiga að berast á þar til gerðum eyðublöðum sem aðgengileg verða á vef HSÞ.

Samþykkt á Ársþingi HSÞ í Stórutjarnaskóla 12. mars 2017 og var þá fyrri reglugerð jafnframt felld úr gildi.
*Breytingar voru samþykktar á 10. Ársþingi HSÞ í Ýdölum 11. mars 2018 þar sem viðmiðunarvegalengd var lækkuð úr 40 km í 3. grein, og tekjuliður í 6. grein b) liðar var leiðréttur.

Reglugerð fyrir kjör íþróttamanns og veitingu hvatningarverðlauna HSÞ

(samþykkt á ársþingi HSÞ í Skúlagarði 25. mars 2015)

1. gr.
Íþróttanefndir, sérráð og aðildarfélög HSÞ eiga rétt á að skila tilnefningu eins íþróttamanns innan hverrar greinar til stjórnar HSÞ eigi síðar en 1. febrúar ásamt mynd af viðkomandi. Með tilnefningu fylgi greinargerð um íþróttalegan árangur á árinu svo sem met o. fl. Skilyrði fyrir tilnefningu er að íþróttamaður hafi verið löglegur keppandi í aðildarfélagi HSÞ þegar árangur náðist og hafi að lágmarki verið á sextánda aldursári.
2. gr.
Íþróttanefndir, sérráð og aðilafélög HSÞ eiga rétt á að skila inn tilnefningum um einstakling sem hlýtur hvatningarverðlaun HSÞ til stjórnar HSÞ eigi síðar en 1. febrúar ásamt mynd af viðkomandi. Með tilnefningu fylgi greinargerð um íþróttalegan árangur á árinu svo sem met o.fl. Miðað er við börn og unglinga sem hljóti þessi verðlaun enda einstaklingurinn löglegur keppandi í aðildarfélagi HSÞ.
3. gr.
Skili íþróttanefndir eða sérráð ekki tilnefningu á réttum tíma skal stjórn HSÞ tilnefna íþróttamann í viðkomandi grein, þannig að hann komi til álita við kjörið. Stjórn HSÞ er heimilt að tilnefna íþróttamenn í þeim greinum þar sem nefndir og ráð eru ekki starfandi.
4. gr.
Stjórn HSÞ skal árlega skipa fimm manna valnefnd sem velur íþróttamann HSÞ, úr röðum þeirra sem tilnefndir eru hjá nefndum og ráðum.
5. gr.
Formleg útnefning íþróttamanns HSÞ fer fram á ársþingi, þar sem íþróttamenn hverrar greinar hljóta einnig viðurkenningu.
6.gr.
Með reglugerð þessari falla eldri reglugerðir úr gildi.