Reglugerðir HSÞ

Verkefna- og styrktarsjóður HSÞ

 1. Sjóðurinn heitir Verkefna- og styrktarsjóður HSÞ og er stofnaður á ársþingi HSÞ 2021 með stofnframlagi núverandi innistæða Afreksmanna-, Aksturs- og Fræðslusjóðs HSÞ.
 2. Tilgangur sjóðsins er að styðja við og efla íþrótta- og félagsstarf á sambandssvæði Héraðssambands Þingeyinga.
 3. Stjórn sjóðsins er skipuð formanni, gjaldkera og ritara HSÞ. Hlutverk hennar er að gera tillögu að úthlutun fjár úr sjóðnum og fylgjast með nýtingu styrkja.
 4. Tekjur sjóðsins eru:
   1. Ákveðið hlutfall af óskiptum lottótekjum samkvæmt reglugerð um skiptingu á lottótekjum sambandsins.
   2. Frjáls framlög og söfnunarfé.
 5. Markmið sjóðsins er m.a. að styrkja eftirfarandi:
   1. Íþróttafólk sem hefur hæfileika og getu til þess að ná langt í sinni íþróttagrein.
   2. Félagsmenn (iðkendur, þjálfara, starfsfólk og stjórnarfólk) til þátttöku í fræðslunámskeiðum, ráðstefnum eða fundum sem er íþróttalífi og félagsstarfi í héraði til bóta.
   3. Fræðsluerindi innan héraðs fyrir iðkendur, þjálfara, dómara eða sjálfboðaliða. Skilyrði er að opið sé fyrir þátttöku frá öllum aðildarfélögum HSÞ.
   4. Ferðakostnað einstaklinga vegna æfinga og keppni innanlands og erlendis.
   5. Nýjungar og sérstök verkefni.

Stjórn sjóðsins skal setja sér vinnureglur vegna úthlutunar styrkja og ákveður styrkupphæðir hverju sinni, þ.m.t. hámarksupphæðir til einstaklinga/hópa og fjölda styrkja til sama einstaklings/hóps/verkefnis innan sama árs.

 1. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári og skulu umsóknir hafa borist fyrir 15. maí vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu frá 1. nóvember sl. árs til 30. apríl sama árs, og fyrir 15. nóvember vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu frá 1. maí til 31. október sama árs. Heimilt er að veita út sjóðnum við fyrri úthlutun 50% af því fé sem í honum er ásamt 50% af tekjuafgangi síðasta árs og við síðari úthlutun því fjármagni sem eftir er í sjóðnum. Styrkupphæðir fara eftir fjármagnsgetu sjóðsins.
 2. Eingöngu félagsmenn aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrk úr sjóðnum sem og stjórnir aðildarfélaga HSÞ. Sjóðurinn styrkir eingöngu þá sem iðka/þjálfa íþrótt sína og/eða keppa og starfa undir merkjum HSÞ og aðildarfélaga þess. Þó geta félagsmenn aðildarfélaga HSÞ sem lögheimili hafa á sambandssvæðinu og stunda íþróttir á vegum ÍSÍ sem ekki er keppt í á vegum aðildarfélaga eða sérráða HSÞ sótt um styrk úr sjóðnum.
 3. Umsóknum skal skilað rafrænt til framkvæmdastjóra eða formanns HSÞ á þar til gerðu eyðublaði þar sem fram kemur: Nafn félags; nafn umsækjanda/ábyrgðarmanns, símanúmer, netfang og reikningsupplýsingar; heiti verkefnis og lýsing á verkefninu sem sótt er um; fyrirhuguð ráðstöfun styrks og upphæð sem sótt er um.

Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til þess að afla sér nánari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublaði s.s. leita umsagnar annarra aðila og krefjast staðfestingar á verkefninu t.d. með afritum af reikningum og kvittunum.

 1. Styrkþegar skulu skila stuttri greinargerð um framgang verkefnisins að því loknu.
 2. Sjóðsstjórn metur hverja umsókn til samþykktar eða synjunar og skal á hverju ársþingi HSÞ gera grein fyrir styrkveitingum úr sjóðnum.
 3. Reglugerð þessi tekur gildi þegar ársþing HSÞ hefur samþykkt hana.

Samþykkt á ársþingi HSÞ haldið í Þórsveri á Þórshöfn þann 20. mars 2021. Samhliða stofnun sjóðsins voru afreksmanna-, aksturs- og fræðslusjóður HSÞ lagðir niður.

Umsóknir í verkefna- og styrkarsjóð

Vinsamlega fyllið út formið hér á síðunni. Kvittanir, reikningar, staðfestingar og annað sem styður við umsóknirnar óskast sendar á netfangið hsth@hsth.is.

Umsóknarfrestir eru tveir:
15. maí vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. nóv-30. apríl
15. nóvember vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. maí-31. október

Lottóreglugerð Héraðssambands Þingeyinga

Lottótekjurnar skiptast þannig:

 1. 5% til verkefna- og styrktarsjóðs HSÞ
 2. 20% til HSÞ
 3. 75% til aðildarfélaga HSÞ skv. eftirfarandi skiptingu:
  • 15% eftir mætingu á ársþing í hlutfalli við heildarfjölda mættra þingfulltrúa
  • 70% eftir iðkendatali 6-17 ára
  • 15% eftir fjölda félagsmanna, 18 ára og eldri

Forsendur fyrir úthlutun skv. c)-lið

 1. Fulltrúi aðildarfélags mæti á ársþing HSÞ.
 2. Félag skili skriflegri skýrslu til HSÞ, sem birtist í ársskýrslu HSÞ, þar sem starfi félagsins síðastliðið starfsár er lýst.
 3. Félag skili starfsskýrslu í félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ fyrir 15. apríl ár hvert.

Uppfylli félag ekki þessar forsendur fær félagið ekki úthlutað úr lottó. Hlutur félagsins rennur þá til annarra aðildarfélaga skv. úthlutunarreglum í c)-lið. Hafi félag staðið undir forsendum 1 og 2 en ekki  3 er stjórn sambandsins heimilt að fresta lottógreiðslum til félagsins þar til félagið hefur staðið skil á starfsskýrslunni. Hafi félagið ekki enn skilað inn starfsskýrslum þann 1. desember skal hlutur þess renna í aðalsjóð HSÞ.

 Samþykkt á ársþingi HSÞ í Þórsveri á Þórshöfn þann 20. mars 2021.

Reglugerð fyrir kjör íþróttamanns og veitingu hvatningarverðlauna HSÞ

(samþykkt á ársþingi HSÞ í Skúlagarði 25. mars 2015)

1. gr.
Íþróttanefndir, sérráð og aðildarfélög HSÞ eiga rétt á að skila tilnefningu eins íþróttamanns innan hverrar greinar til stjórnar HSÞ eigi síðar en 1. febrúar ásamt mynd af viðkomandi. Með tilnefningu fylgi greinargerð um íþróttalegan árangur á árinu svo sem met o. fl. Skilyrði fyrir tilnefningu er að íþróttamaður hafi verið löglegur keppandi í aðildarfélagi HSÞ þegar árangur náðist og hafi að lágmarki verið á sextánda aldursári.
2. gr.
Íþróttanefndir, sérráð og aðilafélög HSÞ eiga rétt á að skila inn tilnefningum um einstakling sem hlýtur hvatningarverðlaun HSÞ til stjórnar HSÞ eigi síðar en 1. febrúar ásamt mynd af viðkomandi. Með tilnefningu fylgi greinargerð um íþróttalegan árangur á árinu svo sem met o.fl. Miðað er við börn og unglinga sem hljóti þessi verðlaun enda einstaklingurinn löglegur keppandi í aðildarfélagi HSÞ.
3. gr.
Skili íþróttanefndir eða sérráð ekki tilnefningu á réttum tíma skal stjórn HSÞ tilnefna íþróttamann í viðkomandi grein, þannig að hann komi til álita við kjörið. Stjórn HSÞ er heimilt að tilnefna íþróttamenn í þeim greinum þar sem nefndir og ráð eru ekki starfandi.
4. gr.
Stjórn HSÞ skal árlega skipa fimm manna valnefnd sem velur íþróttamann HSÞ, úr röðum þeirra sem tilnefndir eru hjá nefndum og ráðum.
5. gr.
Formleg útnefning íþróttamanns HSÞ fer fram á ársþingi, þar sem íþróttamenn hverrar greinar hljóta einnig viðurkenningu.
6.gr.
Með reglugerð þessari falla eldri reglugerðir úr gildi.

Reglugerð um heiðursmerki HSÞ

1. grein

Stjórn HSÞ getur, við sérstök tækifæri s.s. ársþing HSÞ, aðalfundi félaga eða stórafmæli, veitt einstaklingum heiðursviðurkenningar fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar á svæðinu.

2. grein

Viðurkenningar HSÞ eru Silfurmerki HSÞ og Gullmerki HSÞ. Einnig er heimilt að kjósa Heiðursfélaga HSÞ.

3. grein

Um viðurkenningarnar:

    1. Silfurmerki HSÞ er veitt þeim einstaklingum sem unnið hafa gott og mikið starf í þágu einstakra aðildarfélaga eða héraðssambandsins í heild. Merkið skal jafnframt vera hvatning til áframhaldandi góðra starfa í þágu íþróttahreyfingarinnar.
    2. Gullmerki HSÞ er veitt þeim einstaklingum sem hafa sinnt skipulags-, stjórnar- eða þjónustustörfum fyrir sambandið eða aðildarfélögin um lengri tíma svo eftir er tekið. Gullmerkishafi skal alla jafna áður hafa hlotið silfurmerki HSÞ.
    3. Heiðursfélaga er hægt að tilnefna hafi einstaklingur sýnt HSÞ óvenju mikla þjónustu um langt árabil.

4. grein

Tillögurétt að heiðursviðurkenningum HSÞ hafa stjórnarmenn HSÞ, stjórnir aðildarfélaga HSÞ og stjórnir ráða eða nefnda á vegum HSÞ. Tillögum skal fylgja nákvæm lýsing á störfum viðkomandi og starfsferill innan íþróttahreyfingarinnar.

5. grein

Skrifstofa HSÞ skal skrá allar viðurkenningar HSÞ og birta nöfn merkjahafa í ársskýrslu HSÞ.

Samþykkt á ársþingi HSÞ í Þórsveri á Þórshöfn þann 20. mars 2021.