Siðareglur HSÞ

Samþykkt á 12. ársþingi HSÞ, Skjólbrekku, 10. mars 2019

Eyðublað umsókn um sakavottorð UMFÍ

Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, klínískur sálfræðingur. Símatími alla þriðjudaga kl. 10-11, í síma 839-9100. sigurbjorg@dmg.is

Siðareglur þessar eru leiðbeinandi viðmið og hvatning fyrir alla þá sem koma að íþrótta-, félags- og æskulýðsstarfi innan HSÞ, kjörna fulltrúa, iðkendur og keppendur, foreldra og forráðamenn, þjálfara, sjálfboðaliða og annað starfsfólk . Markmiðið með siðareglunum er að gæta hagsmuna iðkenda af starfssvæði HSÞ og jafnframt að stýra hlutverki og ábyrgð þeirra aðila sem koma að starfi HSÞ og aðildarfélaga þess. Siðareglur þessar eru ekki tæmandi listi. Siðareglurnar er hluti af þeim félagsanda og viðhorfi sem HSÞ vill að ríki á sambandssvæðinu.

Siðareglur þessar gilda í öllum aðildarfélögum HSÞ, enda hafi aðildarfélag ekki mótað sér sínar eigin siðareglur. Siðareglurnar þarf að kynna öllum hlutaðeigandi, nýjum stjórnarmeðlimum og þjálfurum/starfsfólki við upphaf starfa.

Samkvæmt Æskulýðslögum er óheimilt er að ráða einstaklinga til starfa sem sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi og hlotið hafa refsidóm vegna kynferðisbrota (XXII. kafli almennra hegningarlaga, nr. 19/1940). Einnig er óheimilt að ráða þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs. Æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skrifi undir samþykkt þess efnis að HSÞ eða aðildarfélag þeirra hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá.

Kjörnir fulltrúar og fólk í stjórnum, nefndum og ráðum HSÞ og/eða aðildarfélaga:

 1. Kynna sér og hafa í heiðri siðareglur þessar og aðrar innan ÍSÍ sem gilda um kjörna aðila og starfsmenn ÍSÍ og sambandsaðila þess.
 2. Standa vörð um anda og gildi HSÞ og aðildarfélaga sinna.
 3. Koma fram af fullkomnum heilindum, forðast hvers kyns hagsmunaárekstra og misnota ekki aðstöðu sína í þágu eigin hagsmuna eða á kostnað annarra. Eru til fyrirmyndar í framkomu, hegðun og störfum, bæði innan og utan héraðs.
 4. Eru laus við fordóma og koma fram við aðra af virðingu og sanngirni. Mismuna ekki á grundvelli kynferðis, þjóðernis, kynþáttar, litarhafts, menningar, tungumáls, trúarbragða, kynhneigðar eða stjórnmálaskoðana.
 5. Stuðla að heilbrigðu, uppbyggjandi og vönduðu starfi, jöfnum tækifærum til þátttöku í íþróttum og hreyfingu, með velferð félagsmanna og jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
 6. Leitast við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, einelti eða annars konar félagslega misbeitingu. Kynferðislegt áreiti og ofbeldi verður ekki liðið.
 7. Haga störfum sínum þannig að starfsemi sambandsins [félagsins] er opin, upplýst, gagnsæ og unnin á lýðræðislegan hátt.
 8. Standa vörð um og fara vel með fjármuni og verðmæti HSÞ [félags síns] með hagsmuni HSÞ [félags síns] að leiðarljósi og án skuldbindinga umfram samþykktir.
 9. Gæta trúnaðar og þagmælsku um það sem það á við, þó aldrei þegar ákvæði IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 liggja undir.
 10. Þiggja aldrei persónulegar gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.

Iðkandi og keppandi af sambandssvæði HSÞ:

 1. Gerir ávallt sitt besta og ber virðingu fyrir öðrum iðkendum og keppendum, hvort sem um samherja eða mótherja er að ræða, í meðbyr og mótbyr.
 2. Virðir reglur íþróttagreinar sinnar og venjur varðandi heiðarleika í íþróttum. Þrætir ekki við dómara eða starfsfólk móta.
 3. Er heiðarlegur í samskiptum við aðra og sýnir þjálfurum, dómurum, öðru starfsfólki og áhorfendum virðingu.
 4. Sýnir fyrirmyndarframkomu, bæði innan vallar og utan, og hefur hugfast að hann er fyrirmynd þeirra sem yngri eru. Kemur fram við aðra líkt og hann vill að aðrir komi fram við sig.
 5. Hefur heilbrigði að leiðarljósi. Verður ekki uppvís að neyslu áfengis, tóbaks eða annarra vímuefnagjafa og ólöglegra lyfja á æfingum eða í ferðum á vegum HSÞ og aðildarfélaga þess.
 6. Neytir aldrei ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn.
 7. Samþykkir aldrei eða sýnir ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði. Viðhefur ekki meiðandi athugasemdir út frá kynferði, þjóðerni, kynþætti, litarhafti, menningu, tungumáli, trúarbrögðum, kynhneigð eða stjórnmálaskoðunum. Kynferðislegt áreiti og ofbeldi verður ekki liðið.

 

Foreldri/forráðamaður iðkanda og keppanda innan HSÞ og aðildarfélaga þess:

 1. Hvetur barnið til að taka þátt í íþrótta- og æskulýðsstarfi á eigin forsendum en þvingar það ekki.
 2. Útskýrir og kennir barninu að fara eftir og virða reglur íþróttanna og að leysa deilur án fjandskapar eða ofbeldis.
 3. Styður og hvetur öll börn og ungmenni, en ekki bara sín eigin.
 4. Er jákvæður, í meðbyr og mótbyr, og gerir ekki grín að barni eða hrópar á það þegar það gerir mistök.
 5. Spyr hvort æfingin/keppnin hafi verið skemmtileg en ekki eingöngu um úrslit.
 6. Er börnum fyrirmynd í því að taka ósigri af æðruleysi, taka sigri hrokalaust og sýna andstæðingum kurteisi. Ber virðingu fyrir störfum þjálfara og dómara.
 7. Ber virðingu fyrir réttindum barna, aðlögun og manngildum. Virðir það að öll börn í hópnum eru mikilvæg.

Þjálfari, sjálfboðaliði og starfsfólk í barna og unglingastarfi innan HSÞ og aðildarfélaga þess

 1. Er meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd og sýnir góða hegðun og gott fordæmi jafnt í starfi sem og utan þess. Virðir störf og ákvarðanir dómara og starfsfólks móta, spornar gegn óíþróttamannslegri hegðun og heldur á lofti heiðarleika innan íþróttarinnar.
 2. Er réttlátur og heiðarlegur gagnvart iðkendum, mismunar ekki eða viðhefur meiðandi athugasemdir vegna kynferðis, þjóðernis, kynþáttar, litarhafts, menningar, tungumáls, trúarbragða, kynhneigðar eða stjórnmálaskoðana. Meðhöndlar iðkendur á einstaklingsgrunni.
 3. Gætir þess að æfingar hæfi aldri og þroska, að hver og einn hafi tækifæri til að byggja upp og þroska hæfileika sína hvort sem er líkamlega, andlega eða félagslega.
 4. Hrósar iðkendum á jákvæðan hátt en forðast neikvæða gagnrýni.
 5. Sýnir meiðslum og veikindum iðkenda tillitssemi og umhyggju.
 6. Talar ávallt gegn neyslu áfengis, tóbaks, annarra vímuefnagjafa og notkunar ólöglegra lyfja og verður aldrei uppvís að slíkri neyslu í starfi með börnum og unglingum.
 7. Leitast við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, einelti eða annars konar félagslega misbeitingu. Kynferðislegt áreiti og ofbeldi verður ekki liðið.
 8. Samþykkir aldrei eða sýnir ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
 9. Misnotar ekki stöðu sína eða vald á nokkurn hátt, s.s. líkamlega, andlega eða kynferðislega í samskiptum sínum við iðkendur eða annað starfsfólk og sjálfboðaliða. Stofnar ekki til náins sambands við iðkanda.
 10. Er meðvitaður um ábyrgð rafrænna samskipta og forðast samskipti við iðkendur gegnum síma og internet nema til upplýsinga.
 11. Forðast þá aðstöðu að vera ein/n með iðkanda.
 12. Leitast við að eiga góð samskipti við samstarfsfólk, forráðamenn og aðra þjálfara sem sinna iðkandanum.
 13. Gætir trúnaðar og þagmælsku um það sem það á við, þó aldrei þegar ákvæði IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 liggja undir.

Brot á þessum siðareglum gefur heimild til að vísa viðkomandi úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Viðbragðsáætlun HSÞ