Harpa íþróttamaður HSÞ 2019

Viðurkenningar vegna kjörs íþróttamanns HSÞ 2019 voru afhentar í leikhléi mfl. kvenna hjá Völsungi í knattspyrnu þann 21. júní sl. Það voru þau Selmdís Þráinsdóttir og Stefán Jónasson f.h. HSÞ sem afhentu verðlaunin ásamt Helgu Dögg Aðalsteinsdóttur fulltrúa frá Sparisjóðnum. 

Aðildarfélög, nefndir og ráð innan HSÞ geta tilnefnt einstaklinga til íþróttamanns ársins og kýs stjórn HSÞ  íþróttamann ársins í viðkomandi grein. Íþróttamaður ársins er svo kosinn úr þeim hópi. Stjórn HSÞ ásamt Sparisjóðnum veitti hverjum íþróttamanni peningalega gjöf, auk þess sem íþróttamanni ársins var færður peningalegur styrkur. Viljum við þakka Sparisjóðnum kærlega fyrir stuðninginn.

Það var Harpa Ásgeirsdóttir leikmaður Völsungs í knattspyrnu sem var kosin íþróttamaður HSÞ 2019

Íþróttamenn ársins 2019

Blakmaður HSÞ

Arna Védís Bjarnadóttir, Völsungi

Arna Védís hefur þrátt fyrir ungan aldur verið burðarás í meistaraflokksliði Völsungs undanfarin ár. Hún lék stórt hlutverk í liði Völsungs tímabilið 2018-2019 þegar liðið náði þeim frábæra árangri að spila í undanúrslitum bæði í Bikarkeppni og Úrvalsdeild Blaksambands Íslands sem er jafnframt besti árangur Völsungs í liðsíþrótt á Íslandsmóti á þessari öld. Þá var Arna tvívegis valin til æfinga með A-landsliðinu á árinu.

Bocciamaður HSÞ

Vilberg Lindi Sigmundsson, Völsungi

Lindi er öflugur bocciaspilari og hefur æft og spilað með Völsungi frá 16 ára aldri. Árið 2019 var Linda afar gott „Bocciaár“. Hann keppti á öllum mótum ársins innan Íþróttasambands Fatlaðra, á Íslandsmótinu keppti hann bæði með B-sveit Völsungs í 1. deild og einnig í einstaklingskeppni í 2. deild. Á öllum mótum komst hann í úrslit, og spilaði um bronsverðlaun á Íslandsmótinu í einstaklingskeppninni.

Bogfimimaður HSÞ

Ásgeir Ingi Unnsteinsson, Umf. Eflingu

Ásgeir stóð sig vel í bogfimi árið 2019 en hann keppir með sveigboga. Innanhúss náði hann 2. sæti á Íslandsmótinu U21 og tók einnig þátt í IceCup mótaröðinni þar sem hann varð í 3. sæti á janúarmótinu og í 1. sæti á aprílmótinu. Ásgeir keppti á Norðurlandameistaramótinu í Danmörku í sl. sumar og endaði í 9. sæti eftir útsláttarkeppni og varð næsthæstur þeirra Íslendinga sem kepptu í U21 sveigboga. Þá varð Ásgeir Íslandsmeistari í flokki U21 utanhúss og bætti jafnframt Íslandsmetið á 70 metrum upp í 567 stig í flokknum.

Frjálsíþróttamaður HSÞ

Halldór Tumi Ólason, Völsungi

Tumi átti gott keppnisár 2019. Hann æfði vel meðfram skóla og uppskar eftir því. Hans helstu keppnisgreinar eru spretthlaup og langstökk og náði Tumi að bæta sig í nær hverju 60m hlaupi sem hann tók þátt í á árinu og fór hraðast 7,58 sek. Tumi náði 2. sæti í 18-19 flokki í langstökki á MÍ innanhúss og 4. sæti á MÍ fullorðinna innanhúss, það stökk var 6,43m sem er persónulegt met og fleytti honum í 2. sæti yfir bestan árangur 18-19 ára pilta innanhúss á Íslandi á árinu. Þá bætti Tumi sig einnig í 100 og 200m og þrístökki á árinu.

Knattspyrnumaður HSÞ 

Harpa Ásgeirsdóttir, Völsungi

Íþróttamaður HSÞ 2019


Harpa er þaulreyndur leikmaður og skipaði veigamikinn sess í liði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu síðasta sumar þegar liðið fór taplaust í gegnum tímabilið. Hún var fyrirliði liðsins og skoraði alls 5 mörk fyrir Völsung sem hampaði deildarmeistaratitli í 2. deildinni og tryggði sér sæti í 1.deildinni deildinni nú í sumar sumar. Harpa var valin í lið ársins af þjálfurum og fyrirliðum í 2. deildinni og var valin besti leikmaður sumarsins á lokahófi meistaraflokkanna.

Skotíþróttamaður HSÞ

Gylfi Sigurðsson, Skotfélagi Húsavíkur

Gylfi hefur verið duglegur við æfingar síðastliðið ár í riffilgreinum. Hann stóð sig frábærlega vel en hann náði 1. eða öðru sæti á nær öllum mótum sem hann tók þátt í. Hann vann SKAUST-meistaratitil í 100-200 metrum, vann Akureyrarmeistaramótið í 100-200 metrum og náði öðru sæti í Íslandsmótinu í Bench rest í 100-200 metrum, aðeins stigi frá fyrsta sætinu.