Fjölmennur aðalfundur Umf. Langnesinga

Það var vel mætt á aðalfund Umf. Langnesinga, en hann var haldinn 1. mars sl. Um 30 manns mættu á fundinn og voru umræður málefnalegar og góðar. Í skýrslu stjórnar kom fram að félagið heldur úti öflugu og metnaðarfullu starfi í ýmsum íþróttagreinum. Fjölbreyttar fjáraflanir eru stundaðar til að fjármagna starfið og ýmsar samkomur haldnar. Ársreikningar sýndu góða stöðu félagsins.
Nokkrar breytingar urðu í stjórn, úr stjórninni gengu Ingveldur Eiríksdóttir, Halldóra Magnúsdóttir og Agnar Jónsson. Ný inn í stjórn komu Albert Jón Hólm Sigurðsson og Marta Uscio. Aðrir í stjórn eru Sölvi Steinn Alfreðsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Valgerður Sæmundsdóttir, Oddný Kristjánsdóttir og Hulda Kristín Baldursdóttir.
Á fundinum voru sýndar myndir úr starfi félagsins, m.a. af Ásbyrgismóti, og í lok fundar var boðið upp á vöfflur sem félagsmenn í 7. bekk bökuðu. Síðan var farið í leiki, glens og grín í íþróttasalnum.
Fulltrúi HSÞ á fundinum var Halldóra Gunnarsdóttir.

AÐALFUNDUR UMF LANGNESINGA

Hinn árlegi og að sjálfsögðu skemmtilegi aðalfundur Ungmennafélags Langnesinga verður haldinn laugardaginn 1. mars 2014 og verður fundurinn haldinn í matsal íþróttahússins Veri og hefjast herlegheitinn kl. 14:00. Allir velkomnir á fundinn, ungir jafnt sem aldnir. Enginn neyddur í stjórn né nefndirJ. Að fundi loknum verður boðið upp á vöfflukaffi og farið svo í smá glens og gaman niðri í sal. Þar leikum við okkur öll saman fullorðnir og börn.
DagskráUMFL_3
Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins lagðir fram
Kostning stjórnar
Önnur skemmtileg mál sem koma upp
Vonumst til að sjá sem flesta og eigum góðan og skemmtilegan dag saman þar sem við förum yfir mál UMFL í máli, myndum og tölum.
Stjórn UMFL

ERASMUS – opin kynning á Akureyri 19. febrúar 2014

TÆKIFÆRI OG STYRKIR Í EVRÓPUSAMSTARFI
Miðvikudagur 19. febrúar kl. 14:00 – 16:00
Háskólanum á Akureyri, Sólborg, stofu M102
Háskólinn býður til kynningar í samstarfi við Rannís og „Evrópu unga fólksins“ á styrkjamöguleikum í eftirfarandi:
kl. 14:00 HORIZONE 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlun
kl. 15:05 ERASMUS+ mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætluninni
kl.15:45 CREATIVE EUROPE kvikmynda- og menningaráætluninni

FRÍMÍNÚTUR -landsleikur um aukna hreyfingu í grunnskólum

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur sókn gegn sleni með því að setja af stað nýjan hreyfingarleik í grunnskólum sem nefnist Frímínútur. Leikurinn fer í gang í maí og verður öllum grunnskólum landsins boðin þátttaka.
Markaðar verða 800 metra brautir við skólana og nemendur hvattir til að fara brautina á hverjum degi í löngu frímínútunum. Valkvætt verður að ganga, skokka eða hlaupa. Fleiri þrautum og leikjum verður síðar bætt inn í hreyfileikinn og verður nemendum og skólum boðið að taka þátt í þróun valkosta um hreyfingar í leiknum í samvinnu við íþróttakennara og félag þeirra ÍKFÍ auk annarra aðila sem láta sig verkefnið varða.
FRÍMÍNÚTUR er hreyfingarleikur þar sem grunnskólanemar skora sjálfan sig á hólm gegn eigin sleni með daglegri hreyfingu og útivist í löngu frímínútunum í skólanum. Leikurinn er hópeflisleikur sem bíður upp á keppni milli bekkja, skóla og árganga á landsvísu. Með þátttöku safna nemendur íþróttastjörnum og styrkja þannig sinn bekk, skóla og árgang í leiknum. Allir nemendur hafa hlutverk í leiknum. Virkir og duglegir bekkir hljóta viðurkenninguna íþróttastjörnubekkur og skólar viðurkenninguna íþróttastjörnuskóli.
Til að fjármagna verkefnið stendur FRÍ fyrir sölu happdrættismiða í janúar. Dregið verður í happdrættinu 7. febrúar og fjöldi spennandi vinninga í boði. Söluherferð happdrættismiða beinist ekki hvað síst að fyrirtækjum sem með að kaupum á happdrættismiða fyrir starfsfólk sitt styðja í leiðinni verkefnið FRÍMÍNÚTUR. Hringt verður í fyrirtæki á næstu dögum og þeirra getið sem styrkja verkefnið á heimasíðu og fésbók þess.
Happdrættismiðar eru einnig til sölu á útsölustöðum N1 og einstaklingar hvattir til að nálgast happdrættismiða þar. Nú er lag að skapa samtakamátt í samfélaginu og hefja sókn gegn sleni og leggjast á eitt um að auka hreyfingu ungs fólks. Með fyrirfram þökk fyrir veittan stuðning í verki.
Tengiliðir Frímínútna hjá FRÍ eru Einar Vilhjálmsson (896-7080) og Benóný Jónsson (868-7657).