Fréttir af ársþingi - íþróttamaður HSÞ 2020

Ársþing HSÞ fór fram sl. laugardag í Þórsveri á Þórshöfn. Þingið var vel sótt en alls voru mættir fulltrúar 19 af 23 virkum aðildarfélögum. Þar sem þingið var ekki haldið árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins var í raun um tvöfalt þing að ræða.

Fjölmargar tillögur lágu fyrir þinginu og náðist góð og mikil umræða um þær breytingar sem lagðar voru fram. Meðal annars voru uppfærð lög sambandsins samþykkt ásamt því að samþykkt var breyting á úthlutunarsjóðum HSÞ sem eru nú sameinaðir í einn sjóð með betri möguleika á nýtingu þess fjármagns sem í hann fer. Reglugerð sjóðsins er mun rýmri en reglur fyrri sjóða og er það von okkar að þessi breyting verði íþrótta- og ungmennafélagsstarfi á starfssvæði HSÞ til hagsbóta og fleiri geti notið góðs af.

Breytingar urðu á flóru sambandsaðila á þinginu en skráning Umf. Reykhverfungs úr HSÞ var samþykkt. Þá var samþykkt úrsögn Skákfélagsins Hugans úr HSÞ og innganga Skákfélagsins Goðans, sem hefur verið endurvakið.

Verkefnið æfum alla ævi heldur áfram og er aðildarfélögunum falið að fjalla um skýrsluna um stöðu félaganna og þróun sl. ára. Sveitarfélögin eru jafnframt hvött til þess að styðja ötullega við starf íþrótta- og ungmennafélaga á svæðinu og efla þannig lífsgæði, heilsu og vellíðan íbúanna. Félagar eru hvattir til að taka þátt í íþróttaveislum og landsmótum UMFÍ sem vonandi munu fara fram í sumar. Hér er um að ræða íþróttahátíðir fyrir fjölskylduna sem eru mikil skemmtun og góð hreyfing.

Þakkir eru færðar styrktaraðilum HSÞ sem eru sveitarfélögin Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Grýtubakkahreppur. Einnig þökkum við Sparisjóði Suður-Þingeyinga, Jarðböðunum, Ísfélaginu, Landsbankanum, Geir útgerð, Verkalýðsfélagi Þórshafnar og Bílaleigu Akureyrar sem studdu við starf sambandsins á árunum 2019-2020.

Þinggerðin mun birtast á heimasíðu HSÞ innan tíðar og er þá hægt að sjá allar tillögur sem samþykktar voru.

Aðeins einn gestur mætti á þingið og var það Viðar Sigurjónsson hjá ÍSÍ. Hann heiðraði tvo aðila með Gullmerki ÍSÍ en þau Guðrún Kristinsdóttir, Völsungi, og Hermann Aðalsteinsson, Skákfélaginu Huginn, hafa starfað innan HSÞ og sinna aðildarfélaga í fjöldamörg ár með góðum árangri. Einnig fékk María Sigurðardóttir, Umf. Einingunni, starfsmerki UMFÍ fyrir sitt framlag til frjálsíþróttaráðs. Þá var samþykkt reglugerð um heiðursviðurkenningar HSÞ og voru veitt bæði silfur- og gullmerki HSÞ. Silfurmerki hlutu Hermann Aðalsteinsson, Stefán Jónasson, Jóhanna S. Kristjánsdóttir og Elísabet Sigurðardóttir. Gullmerki HSÞ fengu Sölvi Alfreðsson, Jón Þórir Óskarsson, Kristján I. Jóhannesson og Jón Friðrik Benónýsson.

Íþróttamenn HSÞ 2020 voru heiðraðir á þinginu en það voru eftirfarandi:

 • Blakmaður HSÞ: Arney Kjartansdóttir, Völsungi
 • Bogfimimaður HSÞ: Tómas Gunnarsson, Umf. Eflingu
 • Bocciamaður HSÞ: Ásgrímur Sigurðsson, Völsungi
 • Frjálsíþróttamaður HSÞ: Erla Rós Ólafsdóttir, UMFL
 • Knattspyrnumaður HSÞ: Guðrún Þóra Geirsdóttir, Völsungi
 • Skotíþróttamaður HSÞ: Kristján R. Arnarson, Skotfélagi Húsavíkur

Íþróttamaður HSÞ 2020 var kjörin Erla Rós Ólafsdóttir.

Auk farand- og eignabikara hlutu allir íþróttamennirnir peningalegan styrk frá HSÞ og Sparisjóði Suður-Þingeyinga og viljum við þakka Sparisjóðnum fyrir stuðninginn og þeirra framlag.

Ný stjórn HSÞ var kjörin á þinginu:

 • Formaður til eins árs: Jónas Egilsson, UMFL
 • Meðstjórnendur til tveggja ára: Garðar Héðinsson, Skotfélagi Húsavíkur og Anna María Ólafsdóttir, UMFL
 • Meðstjórnendur til eins árs: Selmdís Þráinsdóttir, Völsungi og Sigfús Hilmir Jónsson, Hestamannafélaginu Grana.
 • Varamaður til tveggja ára: Sigurlína Tryggvadóttir, Umf. Einingunni
 • Varamaður til eins árs: Kristinn Björn Haraldsson, Mývetningi