Verkefna- og styrktarsjóður HSÞ

Á ársþingi HSÞ í mars síðastliðnum voru gerðar talsverðar breytingar á sjóðum sambandsins sem hafa verið notaðir til þess að styðja og styrkja íþróttafólk og þjálfara til þess að sækja æfingar og námskeið eða taka þátt í stórmótum á alþjóðavísu. Eldri sjóðir sambandsins voru sameinaðir í einn nýjan verkefna- og styrktarsjóð sem er ætlað að taka við hlutverki þeirra en jafnframt auka möguleika á fjölbreyttari verkefnum.

Hvaða breytingar voru gerðar?

Reglugerð nýs sjóðs er mun rýmri hvað varðar verkefni og úthlutanir sem hægt er að gera úr sjóðnum en reglugerðir fyrri sjóða voru nokkuð stífar hvað það varðar, sérstaklega afrekssjóður sem hafði safnað fé.

Tilgangur sjóðsins, líkt og fyrri sjóða, er að styðja við og efla íþrótta- og félagsstarf í héraðinu. Þannig er markmið sjóðsins m.a. að styrkja það íþróttafólk sem hefur hæfileika og getu til þess að ná langt í sinni íþróttagrein. Sjóðnum er einnig ætlað að styrkja félaga til þátttöku í námskeiðum eða styrkja fræðsluerindi sem eru fengin heim í hérað. Þá er hægt að sækja í sjóðinn vegna ferðakostnaðar vegna æfinga og keppni. Einnig er opnað fyrir það að félög geti sótt um fyrir nýjungar eða sérstök verkefni.

Sjóðsstjórn þarf ávallt að meta þau verkefni sem sótt er um hverju sinni m.t.t. þess fjármagns sem er í sjóðnum og hvers eðlis umsóknirnar eru, en félagsmenn og aðildarfélög eru hvött til þess að vera dugleg að senda inn umsóknir í sjóðinn óháð því hvort þau telji verkefnin vera nógu merkileg.

Sótt er um á heimasíðu HSÞ með því að fylla út form þar en fylgiskjöl með umsóknum þarf að senda með tölvupósti.

Hvenær er hægt að senda inn umsókn í sjóðinn?

Samkvæmt nýrri reglugerð er fyrsti umsóknarfrestur í sjóðinn framundan eða þann 15. maí n.k.

Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári og eru umsóknarfrestirnir tveir, 15. maí og 15. nóvember. Umsækjendur eru hvattir til þess að senda inn umsóknir allt árið eða um leið og verkefni eru staðfest, hefjast eða þegar áætlun um þau eru komin nægjanlega langt að hægt er að senda inn umsókn.

Stjórn HSÞ samþykkti á fundi sínum þann 19. apríl sl. að heimila umsóknir í sjóðinn fyrir verkefnum sem fyrirhugað er að fara í þrátt fyrir þann tímaramma sem kemur fram í reglugerðinni. Þannig er hægt að sækja um í sjóðinn fyrir verkefnum sem eru framundan, enda má gjarnan líta á það sem svo að um leið og félag er farið að hugsa um að koma verkefni af stað, þá sé það verkefni hafið eða undirbúningsferli fyrir það. Á þetta sérstaklega við um verkefni sem verða ekki framkvæmd nema nægir styrkir fáist.

Spurt og svarað

Er enn hægt að sækja um styrk fyrir þjálfaranámskeiðum?

Já, sjóðnum er ætlað að styrkja námskeið, fundi eða ráðstefnur sem félagsmenn sækja. Til viðbótar er hægt að sækja um styrk til að fá fræðsluerindi heim í hérað sem ekki var hægt áður.

Er enn hægt að sækja um akstursstyrk til þess að keyra iðkendur á æfingar?

Já, sjóðnum er ætlað að styrkja ferðakostnað vegna æfinga og keppni. Akstursviðmið voru tekin út úr reglugerðinni og er sjóðsstjórn falið að meta umsóknir. Þeir forráðamenn sem samnýta akstur eru beðnir um að senda inn sameiginlega umsókn fyrir verkefninu þar sem því er lýst.

Hvernig metið þið hvaða íþróttafólk hefur hæfileika og getu til að ná langt?

Félög eða félagsmenn sem sækja um í sjóðinn senda inn fyrir verkefnum sem þau eru að taka þátt í. Sjóðsstjórn hefur heimild til þess að afla sér frekari upplýsinga en fram koma í umsóknum til þess að geta metið umsóknir sem best.

Hvenær eru umsóknarfrestir?

    • Þann 15. maí er umsóknarfrestur vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. nóv-30. apríl.
    • Þann 15. nóvember er umsóknarfrestur vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. maí- 31. okt.

Þannig ætti umsókn vegna þjálfaranámskeiðs t.d. sem var haldið í febrúar s.l. að berast fyrir 15. maí.

Umsækjendur eru hvattir til að sækja um fyrir fyrirhuguðum verkefnum þó svo að upphafsdagur verkefnis sé utan tímarammans. Undirbúningur verkefnisins er klárlega hafinn þegar umsókn er undirbúin. Þannig eru umsækjendur hvattir til þess að senda inn umsókn fyrir 15. maí vegna verkefnis sem stendur til að framkvæma í sumar, sérstaklega ef verkefnið verður ekki framkvæmt nema ef nægir styrkir fást.

Þarf verkefninu að vera lokið til þess að senda inn umsókn?

Nei. Sum verkefni ná yfir lengra tímabil. Hægt er að senda inn umsókn fyrir þeim þegar þau hefjast.

Ef umsækjendur eru í vafa er alltaf hægt að hafa samband við skrifstofu HSÞ. Betra er að senda inn umsókn en að sleppa því

Verkefnið er löngu búið og ég gleymdi að senda inn umsókn, hvað geri ég þá?

Sjóðurinn er nýr og við erum öll að læra. Sendu inn umsókn eða hafðu samband við skrifstofu HSÞ til að fá ráðleggingar.