Íþróttafélagið Þingeyingur - Nýtt félag við Öxarfjörð
Í gærkvöldi fór fram stofnfundur Íþróttafélagsins Þingeyings með félagssvæði við Öxarfjörð. Íþróttafélagið er stofnað til þess að taka við hlutverki hinna þriggja gömlu ungmennafélaga sem standa við Öxarfjörð og sameina þar með íþróttastarf á svæðinu í eitt félag. Markmið félagsins skv. nýsamþykktum lögum þess er iðkun íþrótta, og að halda uppi hvers konar félagsstarfi og annarri starfsemi félagsmönnum til góða.
Stofnun Íf. Þingeyings hefur verið nokkuð lengi í fæðingu, fyrst og fremst vegna covid, en fyrsti fundurinn þar sem fram kom áhugi íbúa svæðisins um eitt félag á svæðinu var haldinn að hausti 2019. Síðan þá hafa verið haldnir þrír formlegir fundir, fyrstu tveir fundirnir voru með forsvarsmönnum ungmennafélaganna við Öxarfjörð og sá þriðji var opinn kynningar- og umræðufundur um stofnun nýs félags.
Það var því nokkuð langþráð stund þegar stofnfundur hins nýja félags fór loksins fram, þann 9. júní 2021. Fundurinn var haldinn í matsal Fjallalambs á Kópaskeri og hófst hann á grillveislu í boði Fjallalambs en að henni lokinni hófst formlegur fundur. Fyrsti liður fundarins var að fara yfir lagagreinar félagsins og eftir örlitlar lagfæringar á drögunum voru ný lög samþykkt samhljóða. Þá samþykkti fundurinn nokkrar ályktanir m.a. um stofnun sérstaks netfangs fyrir félagið, að ný stjórn leitaði eftir samstarfssamningi við Norðurþing, um samstarf við Öxarfjarðarskóla varðandi merki og lit félagsins og að lokum að hvetja stjórnir Umf. Snartar, Umf. Öxfirðinga og Umf. Leifs heppna til þess að ganga frá sínum málum nú þegar nýtt félag hefði verið stofnað.
Í stjórn hins nýja félags voru kosnir fimm aðilar: Róbert Karl Boulter er formaður, Matthildur Dögg Jónsdóttir er gjaldkeri, Svala Rut Stefánsdóttir er ritari, Halldís Gríma Halldórsdóttir og Salbjörg Matthíasdóttir eru meðstjórnendur. Skoðunarmaður reikninga og varamaður er Jóhannes Guðmundsson.
Þegar formlegheitum var lokið varðandi lög félagsins og kosningu nýrrar stjórnar urðu umræður líflegri og mun ný stjórn vera strax farin af stað að leita eftir aðilum til þess að halda úti íþróttaæfingum í sumar og ákveðið var að stofna fésbókarsíðu fyrir félagið. Framkvæmdastjóra HSÞ var falið að koma fundarupplýsingum til stjórnar HSÞ og eins umsókn um aðild að HSÞ. Miðað við umræður er mikill hugur í nýrri stjórn og verður gaman að sjá íþróttalíf blómstra að nýju við Öxarfjörð.
Tíu stofnfélagar Íf. Þingeyings sátu þennan fund og eru allir sem áhuga hafa á íþrótta- og félagsmálum á svæðinu hvattir til þess að ganga í félagið og taka þátt í uppbyggingunni. Það er t.d. hægt með því að senda tölvupóst á netfang Íf. Þingeyings if.thingeyingur@gmail.com með upplýsingum um nafn og kennitölu.