Fréttir af ársþingi
14. ársþing HSÞ var haldið í Sólvangi á Tjörnesi þann 12. mars sl. Var þingið vel sótt af aðildarfélögum HSÞ.
Helstu tíðindi þingsins voru þau að nýr formaður HSÞ var kjörinn, Jón Sverrir Sigtryggsson, en Jónas Egilsson, fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Góðir gestir ÍSÍ og UMFÍ sóttu þingið, þeir Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ. Fluttu þeir m.a. stutt erindi varðandi íþróttahreyfinguna og framtíð hennar sem innlegg í málefnaumræðu sem fram fór á þinginu.
Veittar voru viðurkenningar til íþróttamanna ársins en íþróttamaður HSÞ fyrir árið 2021 var kjörin Tamara Kaposi-Keto, blakmaður HSÞ. Aðrir íþróttamenn sem hlutu viðurkenningu voru Tómas Halldór Pétursson frjálsíþróttamaður HSÞ, Einar Eyþórsson glímumaður HSÞ, Sæþór Olgeirsson knattspyrnumaður HSÞ, Jakob Sævar SIgurðsson skákmaður HSÞ og Rosa Maria Millan skotíþróttamaður HSÞ. Sparisjóður Suður-Þingeyinga og stjórn HSÞ veitti íþróttamönnunum peningalegan styrk og viljum við koma á framfæri bestu þökkum til Sparisjóðsins fyrir stuðninginn.
Jónas Egilsson hlaut starfsmerki UMFÍ fyrir störf sín sem formaður HSÞ en Jónas lagði m.a. grunn að Æfum alla ævi, stefnu HSÞ í íþrótta- og æskuýðsmálum. Einnig hlaut Ragnar Emilsson, Golfklúbbi Húsavíkur, Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu klúbbsins. En auk þess að hafa gengt mörgum ábyrgðarstörfum innan golfklúbbsins þá hefur hann sýnt mikið frumkvæði í endurbótum á vellinum og var einn aðal hvatamaður að uppsetningu golfhermis.
Silfurmerki HSÞ fengu þau Valgerður Sæmundsdóttir og Þorsteinn Ægir Egilsson UMFL fyrir frábært uppbyggingarstarf innan Umf. Langnesinga svo eftir hefur verið tekið á landsvísu. Einnig hlutu Silfurmerki HSÞ þeir Gunnólfur Sveinsson og Gylfi Sigurðsson í Skotfélagi Húsavíkur fyrir ötult starf að uppbyggingu aðstöðu og framgangi skotíþrótta hjá skotfélaginu.
Gullmerki HSÞ var veitt Marinó Eggertssyni, Golfklúbbinum Gljúfra en Marinó hefur af einskærum áhuga haldið úti og rekið golfvöllinn í Ásbyrgi í fjöldamörg ár.
Á þinginu var m.a. haldin málefnavinna þar sem þingfulltrúum var skipt niður í hópa og fengu allir hópar sömu spurningar til þess að ræða og koma með sameiginlegt svar hópsins. Gekk þetta ágætlega og komu fjölmargar góðar hugmyndir fram fyrir nýja stjórn HSÞ varðandi framtíðina. Sem dæmi má nefna hvernig HSÞ/félögin gæti bætt starfið með því að samnýta þjálfara og auka samvinnu t.d. í fræðslumálum og sameiginlegum viðburðum. Þá var eindregin afstaða með því að efla frekar samstarfið innan héraðs og komu fjölmargar góðar hugmyndir fram en síður vildu þingfulltrúar leggja áherslu á að stækka héraðið þó svo að aukin samvinna sé alltaf jákvæð.
Aðildarfélagaflóra HSÞ breyttist á þinginu en aðild tveggja nýrra félaga að HSÞ var samþykkt en það eru Íþróttafélagið Þingeyingur við Öxarfjörð og Skotíþróttafélag Norðurlands á Húsavík. Þá var Golfklúbburinn Hvammur á Grenivík skráður úr HSÞ en klúbburinn hefur hætt allri starfsemi.
Ársskýrslu HSÞ og þinggerð verður hægt að nálgast hér á heimasíðu HSÞ sjá www.hsth.is/arsthing