Styrkir og fréttir af sambandsþingi UMFÍ

Verkefna- og styrktarsjóður HSÞ er opinn fyrir umsóknir til og með 15. nóvember n.k. Við hvetjum aðildarfélög og félagsmenn til að sækja í sjóðinn. Reglugerð sjóðsins var breytt aðeins á síðasta ársþingi og stjórn hefur sett sér vinnureglur sem finna má á heimasíðunni undir www.hsth.is/reglugerdir/. Þá er líka minnt á að umsóknarfrestur í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ rennur út núna 1. nóvember www.umfi.is/styrkir/fraedslu-og-verkefnasjodur/.

Tímamótatillaga samþykkt á þingi UMFÍ

Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ

Tveir fulltrúar HSÞ sátu sambandsþing UMFÍ á Hótel Geysi um helgina. Innan UMFÍ eru nú 22 af 25 íþróttahéruðum landsins og var þetta fjölmennasta þingið hingað til.

Markverðasta tillagan sem samþykkt var á þinginu var breyting á reglugerð um lottóúthlutanir en álíka tillaga var lögð fram og samþykkt á íþróttaþingi ÍSÍ í vor. Með þessum reglugerðarbreytingum verður lottói frá ÍSÍ og UMFÍ nú skipt eins á milli íþróttahéraðanna. Samhliða þessari breytingu á að stofna átta svæðisstöðvar íþróttahéraða með sextán stöðugildum til þess að þjónusta íþróttahéruðin.

Það eru því framundan spennandi tímar á sviði íþróttahreyfingarinnar en mikið vatn hefur runnið til sjávar frá öndverðri síðustu öld þegar íþróttahéruðin voru stofnuð. Við horfum til þess að þessar breytingar muni leiða af sér sterkari hreyfingu þegar fram í sækir.