Þing HSÞ - íbúar hvattir til fjölgunar
16. ársþing HSÞ var haldið 10. mars á Breiðumýri í umsjón Umf. Eflingar. Þingið var vel sótt af fulltrúum þeirra félaga sem tóku þátt en af 17 félögum sem sendu fulltrúa voru 15 félög með fulla mönnun. Alls höfðu 24 félög rétt á að senda þingfulltrúa.
Fyrir þinginu lágu 7 þingskjöl og var sýnt að eitt þeirra vakti mesta umræðu þingfulltrúa en það var djörf tillaga að breytingu á lottóskiptingu sambandsins. Þingið fékk rögga þingstjórn sem var í höndum Arnórs Benónýssonar fyrrum formanni HSÞ. Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ og Gunnar Gunnarsson frá UMFÍ voru gestir þingsins.
Þingið rúllaði skv. hefðbundinni dagskrá en þegar þingskjölin voru lögð fyrir þingið bauð þingforseti fulltrúum upp á almennar fyrirspurnir og framsögur úr salnum. Eins og áður sagði var það lottótillaga stjórnar HSÞ (og þá samhliða fjárhagsáætlunin) sem vakti þessa umræðu en tillagan var fram komin vegna breyttra úthlutunarreglna ÍSÍ og UMFÍ sem verða þess valdandi að lottófé sem rennur til HSÞ minnkar um helming. Það var gríðarlega gott að fá þessar umræður í salnum, auðvelda fulltrúum að koma með fyrirspurnir og ausa frá sér pirringi. Það gaf einnig stjórn og framkvæmdastjóra HSÞ, sem og fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ tækifæri til þess að útskýra sögulegt samhengi breyttra úthlutunarreglna ÍSÍ og UMFÍ, tilgang og markmið nýrra svæðisskrifstofa og hvað er í farvatninu innan íþróttahreyfingarinnar. Það er alveg ljóst að hraði málsins varðandi svæðisskrifstofur og breytt skipulag að því leytinu til hefur verið mikill og mun meiri en íþróttahreyfingin gerði ráð fyrir og alls óljóst hvernig þetta kemur allt til með að virka.
Það er skemmst frá því að segja að þingið samþykkti frávísunartillögu varðandi nýja lottóreglugerð HSÞ og breytingartillögu á fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir að HSÞ verði rekið í mínus til þess að milda höggið fyrir aðildarfélögin vegna skertra lottótekna til HSÞ.
Af öðrum tillögum sem samþykktar voru má e.t.v. helst nefna að enn var aðildarfélögum HSÞ fækkað þar sem samþykkt var að skrá Umf. Geisla, Umf. Leif heppna og Skotfélag Þórshafnar og nágrennis úr héraðssambandinu. Þessi félög hafa ekki staðið skil til íþróttahreyfingarinnar eins og lög HSÞ gera ráð fyrir. Síðastliðin tvö ár hafa ein níu félög verið skráð úr sambandinu, mörg sem eiga sér yfir 100 ára sögu en hafa því miður ekki staðið tímans tönn og þær samfélagsbreytingar sem hafa orðið. Það er eftirsjá af gömlum félögum sem áður báru blómlegt starf, en jafnframt er líka skynsamlegt að íþróttahreyfingin samlagi sig samfélaginu sem hún starfar í. Þannig var t.d. stofnað nýtt félag kringum Öxarfjörðinn sem hefur tekið við störfum eldri félaga þar sem hafa verið skráð úr HSÞ.
Nokkrar tillögur voru samþykktar sem starfsnefndir þingsins lögðu fram, sú skemmtilegasta líklega hvatning til íbúa innan svæðis héraðssambandsins til þess að eignast fleiri börn. Þeirri hvatningu er hér með komið á framfæri. Þinggerð frá þinginu mun verða aðgengileg á heimasíðu HSÞ innan skamms.
Sigrún Marta íþróttamaður HSÞ
Kjöri íþróttamanns ársins var lýst á þinginu eins og hefð er fyrir. Íþróttamaður HSÞ var kjörin blakkonan Sigrún Marta Jónsdóttir úr Völsungi en hún var m.a. valin til að keppa fyrir A-landslið Íslands í blaki auk þess að vera vaxandi blakari. Aðrir í kjörinu voru þau Hildur Sigurgeirsdóttir bocciamaður HSÞ, Hildur Anna Brynjarsdóttir knattspyrnumaður HSÞ, Ruth Ragnarsdóttir frjálsíþróttamaður HSÞ, Smári Sigurðsson skákmaður HSÞ og Kristján R. Arnarson skotíþróttamaður HSÞ.
Þá voru hjónin Freydís Anna Arngrímsdóttir og Hörður Þór Benónýsson sæmd Gullmerki HSÞ en þau hafa í yfir 30 ár verið og eru enn öflugir máttarstólpar hjá leikdeild Umf. Eflingar og eru óþrjótandi við að halda úti og taka þátt í leikstarfi á félagssvæðinu.
Stjórnin heldur áfram
Formaður, aðal- og varafulltrúar í stjórn buðu sig öll fram til endurkjörs og voru samþykkt með lófataki. Stjórnin situr því óbreytt áfram.