Jón endurkjörinn, Heiðdís Edda íþróttamaður HSÞ
Ársþing HSÞ fór fram um liðna helgi, þann 26. febrúar sl. Þingið var vel sótt af þeim félögum sem sendu fulltrúa en 16 félög sendu alla sína fulltrúa. Átta félög sendu enga fulltrúa og missa því lottótekjur sínar í ár.
Fyrir þinginu lágu 10 þingskjöl frá stjórn HSÞ, þ.m.t. laga- og reglugerðarbreytingar. Miklar og góðar umræður voru í nefndunum og var ánægjulegt að heyra skoðanir svo margra. Mörg þingskjalanna runnu óbreytt í gegnum þingið og önnur voru betrumbætt í nefndum. Er það vel. Einu þingskjali var vísað til vinnuhóps og öðru vísað frá, þó með tillögu til stjórnar. Þinggerðina með framlögðum tillögum sem og þeim breytingum sem samþykktar voru má finna á https://hsth.is/arsthing/.
Aðildarfélögum HSÞ fækkar
Um langa hríð hafa verið félög innan HSÞ sem hafa ekki haft neina starfsemi, hvorki félags- eða íþróttastarf, haldið aðalfundi né skilað nokkrum skýrslum til HSÞ eða íþróttahreyfingarinnar. Þetta voru gamalgróin félög, sum jafnvel stofnfélög gamla HSÞ og UNÞ.
Á þinginu lá tillaga um að skrá öll þessi óvirku félög úr sambandinu, enda höfðu þau verið aðvöruð skv. lögum HSÞ um slíkt. Eftirfarandi félög voru skráð úr HSÞ og tilheyra því ekki lengur íþróttahreyfingunni:
- Umf. Snörtur
- Umf. Öxfirðinga
- Umf. Tjörnesinga
- Umf. Afturelding
- Umf. Gaman og Alvara
- Ungmenna- og íþróttafélag Bakkafjarðar
Lög HSÞ voru einnig endurbætt á þinginu, aðallega kaflinn varðandi aðildarfélögin. Gerð er ríkari krafa til nýrra félaga um stofngögn sem þurfa að fylgja aðildarumsókn, skýrara er hvaða skyldur félögin hafa með því að vera í HSÞ, og þá um skráningu þeirra úr HSÞ. Lög HSÞ verða uppfærð á heimasíðunni innan tíðar.
Viðurkenningar og íþróttamenn ársins
Nokkrir einstaklingar fengu viðurkenningar á störfum sínum innan íþróttahreyfingarinnar:
- Birgir Mikaelsson, Skotfélagi Húsavíkur, hlaut starfsmerki UMFÍ fyrir framlag hans til félagsins og uppbyggingu skotsvæðisins.
- Jónas Egilsson, fyrrum formaður HSÞ, hlaut silfurmerki HSÞ fyrir framlag sitt til íþróttamála innan HSÞ.
- Björn Ingólfsson hlaut gullmerki HSÞ fyrir ævistarf sitt í þágu Magna, HSÞ og ungmennafélagshreyfingarinnar allrar.
- Heimir Ásgeirsson, Magna, hlaut gullmerki HSÞ fyrir ævilangt framlag sitt til íþróttasvæðis Magna. Heimir er þessi klassíski „maður á bak við tjöldin“ alltaf að brasa eitthvað fyrir félagið sitt.
- Þá náðum við loks að næla Kristján I. Jóhannesson sínu gullmerki HSÞ en honum var veitt það árið 2021.
Íþróttamönnum ársins 2022 voru veittar sínar viðurkenningar á þinginu en auk hefðbundinna bikara hlutu íþróttamennirnir peningalegan styrk frá HSÞ og Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Er þeim þakkaður stuðningurinn. Íþróttamaður HSÞ 2022 var kjörin Heiðdís Edda Lúðvíksdóttir, blakkona úr Völsungi. Íþróttamenn ársins í einstökum greinum voru:
- Bardagamaður HSÞ: Dagný Þóra Gylfadóttir, Völsungi
- Bocciamaður HSÞ: Aron Fannar Skarphéðinsson, Völsungi
- Blakmaður HSÞ: Heiðdís Edda Lúðvíksdóttir, Völsungi
- Frjálsíþróttamaður HSÞ: Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Völsungi
- Glímumaður HSÞ: Einar Eyþórsson, Mývetningi
- Knattspyrnumaður HSÞ: Árdís Rún Þráinsdóttir, Völsungi
- Skákmaður HSÞ: Smári Sigurðsson, Skákfélaginu Goðanum
- Skotíþróttamaður HSÞ: Kristján R. Arnarson, Skotíþróttafélagi Norðurlands
Ný stjórn HSÞ
Þinginu lauk með kosningu til stjórnar HSÞ. Þar var endurkjörinn formaður Jón Sverrir Sigtryggsson, nýir í stjórn til tveggja ára eru Hulda Þórey Garðarsdóttir og Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson. Varamaður var kosinn Héðinn Björnsson. Áfram sitja í stjórn frá síðasta ársþingi Sigfús Hilmir Jónsson, Jónas Halldór Friðriksson og varamaður er Dagbjört Aradóttir.