Framkvæmdastjóraskipti

Eva Sól afhendir Gunnhildi lyklana að skrifstofu HSÞ

Nú um áramótin urðu framkvæmdarstjóraskipti hjá HSÞ. Eva Sól Pétursdóttir ætlar að hverfa á vit ævintýranna til Danmerkur í lýðháskóla og hefur Gunnhildur Hinriksdóttir tekið við keflinu. Gunnhildur er íþróttafræðingur að mennt og kenndi áður við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni. Gunnhildur er úr Mývatnssveitinni og keppti lengi fyrir HSÞ í frjálsíþróttum og spriklar nú með kerlum úr sveitinni í blaki sem keppa undir nafni HSÞ á Íslandsmóti. Gunnhildur er nú búsett á Laugum ásamt fjölskyldu sinni.

Stjórn HSÞ vill koma á framfæri kærum þökkum til Evu fyrir starf sitt fyrir sambandið og jafnframt óska henni góðs gengis og skemmtunar í Danmörku. Þá býður stjórnin Gunnhildi velkomna til starfa.

Aksturssjóður HSÞ og Fræðslusjóður HSÞ

Stjórn HSÞ auglýsir eftir umsóknum um styrk úr Aksturssjóði HSÞ.

Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum. Umsækjendur geta verið foreldrar/forráðamenn, hópur foreldra eða aðildarfélög HSÞ.

 

Umsóknir sendist á skrifstofu HSÞ; hsth@hsth.is

 

Tilgangur sjóðsins er að taka þátt í ferðakostnaði vegna þátttöku barna og unglinga, 18 ára og yngri, á félagssvæði HSÞ í skipulögðum íþróttaæfingum og/eða skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi, á vegum aðildarfélaga HSÞ. Til að umsókn geti farið fyrir aksturssjóð HSÞ þarf akstur á æfingastað að vera umfram 40 km hvora leið.

Nánar um Aksturssjóð HSÞ má finna á heimasíðunni (hsth.is) undir „Ráð, nefndir og sjóðir“ / Aksturssjóður HSÞ. Þar má einnig finna umsóknareyðublað. Ath. upphæð styrks fer eftir fjölda umsókna.

 

Stjórn HSÞ auglýsir einnig eftir umsóknum um styrk úr Fræðslusjóði HSÞ

Rétt til að sækja í sjóðinn hafa eingöngu félagar í aðildarfélögum HSÞ.

 

Umsóknir sendist á skrifstofu HSÞ;  hsth@hsth.is

 

Tilgangur sjóðsins er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi – með því að sækja t.d. námskeið, fundi eða ráðstefnur.

Nánar um Fræðslusjóð má finna á heimasíðunni (hsth.is) undir „Stjórn HSÞ“ / sjóðir og styrkir.  Þar má einnig finna umsóknareyðublað.

Sundæfingar á Laugum í vetur

Í vetur verða sundæfingar á Laugum á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 16:50 – 17:50.  Æfingarnar eru fyrir 1. bekk og eldri og verður fyrsta æfingin í dag 3. október.  Æfingagjöldin eru 2500 kr. á mánuði ef æft er 1x í viku en 5000 kr. ef æft er 2x í viku.  Forráðamenn skrá börnin inn í Nóra kerfið inná volsungur.is.

Frábær hreyfing fyrir alla krakka!

Góður árangur keppenda HSÞ á Unglingalandsmóti UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram um síðustu helgi á Egilsstöðum. HSÞ átti 66 keppendur á mótinu og stóðu þeir sig með glæsibrag og voru svo sannarlega til fyrirmyndar.

HSÞ átti eitt þriggja manna lið í Boccia sem sigraði í flokki 15 ára og eldri.

Tveir keppendur voru frá HSÞ í glímu og fengu silfur og brons hvor í sínum flokki.

26 frá HSÞ tóku þátt í knattspyrnu ýmist sér í liði eða í blönduðum liðum með krökkum frá öðrum félögum. Eitt lið frá HSÞ lenti í 2. sæti í sínum flokki.

Sex keppendur frá HSÞ kepptu í stafsetningu og þrír fengu verðlaun í sínum flokki, tveir brons og einn silfur.

HSÞ átti fjóra keppendur í upplestri og tveir þeirra náðu sér í verðlaun, annar gull og hinn brons.

HSÞ átti einn keppanda í Ólympískum lyftingum sem hafnaði í 3. sæti í sínum flokki.

Átta kepptu fyrir HSÞ í fjórum liðum í strandblaki og eitt liðið fékk silfur í sínum flokki.

Fjórir frá HSÞ kepptu í sundi og fengu samtals 4 brons 1 silfur og 2 gull. Boðsundssveit frá HSÞ fékk líka 1 silfur og 1 brons.

Alls kepptu 33 frá HSÞ í frjálsum íþróttum og nældu keppendur þar sér í 8 gull, 5 silfur og 9 brons. Einnig er gaman að segja frá því að 82% keppenda bættu sinn persónulega árangur á mótinu.

Einnig átti HSÞ einn keppenda í körfubolta sem keppti í liði með öðru félagi, tvo keppendur í skák og 13 keppendur í kökuskreytingum, sem er ný grein á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Úrslitin í heild sinni má sjá á
http://www.umfi.is/unglingalandsmot-umfi

 

 

Samstarfssamningur HSÞ og Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Héraðssamband Þingeyinga og Sparisjóður Suður-þingeyinga undirrituðu í síðustu viku samstarfssamning sín á milli. Samningurinn var gerður til 3ja ára og vill Sparisjóðurinn með árlegu fjárframlagi, létta undir hefðbundinni starfsemi HSÞ við ræktun æskulýðs í Þingeyjarsýslum. HSÞ þakkar Sparisjóðnum kærlega fyrir veittan stuðning.