Hreyfivika UMFÍ – hefur þú fundið þína hreyfingu?

Hreyfivika UMFÍ hófst formlega í dag, 28. apríl. Fjölmargir viðburðir eru í boði á landsvísu og hafa margir boðberar hreyfingar skráð viðburði sína inn á heimasíðu hreyfivikunnar. Hér á starfssvæði HSÞ er vitað um skipulagða viðburði á Húsavík, Laugum, Mývatnssveit og Raufarhöfn að minnsta kosti, og eflaust fleiri sem fréttaritara er ekki kunnugt um.

Allir eru hvattir til þess að taka þátt í hreyfivikunni, hvort sem er í skipulögðum viðburðum eða af eigin frumkvæði. Þá er tilvalið fyrir fjölskyldur að klára sem flest atriði í hreyfibingói UMFÍ.

Fréttapunktar og tilkynningar 4. maí 2018

Stjórn HSÞ auglýsir eftir umsóknum í Aksturssjóð og Fræðslusjóð HSÞ – umsóknarfrestur til og með 15. maí

Tilgangur Aksturssjóðs er að taka þátt í ferðakostnaði vegna þátttöku barna og unglinga, 18 ára og yngri, á félagssvæði HSÞ í skipulögðum íþróttaæfingum og/eða skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi, á vegum aðildarfélaga HSÞ. Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum. Umsækjendur geta verið foreldrar/forráðamenn, hópur foreldra eða aðildarfélög HSÞ. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ.

Tilgangur Fræðslusjóðs er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi, með því að sækja námskeið, fundi og ráðstefnur ef stjórn sambandsins álítur það íþrótta- og félagslífi í héraði til framdráttar. Öll aðildarfélög innan HSÞ og félagsmenn þeirra eiga rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ.

Umsóknarfrestur í báða sjóði er til og með 15. maí n.k. og skal umsóknum skilað rafrænt á hsth@hsth.is. Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri.

Að lokum vill stjórn HSÞ minna á Afreksmannasjóð HSÞ. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ www.hsth.is

Samkomutjald HSÞ til leigu í sumar

Tjaldið er 46 m2, borð og stólar fyrir 36 manns fylgja. Nokkrar helgar eru nú þegar fráteknar. Helgin kostar 40.000 kr. og hver auka dagur 10.000 kr. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu HSÞ í s. 896-3107 eða gegnum netfangið hsth@hsth.is.

Samningur ÍSÍ og Air Iceland Connect

ÍSÍ og Air Iceland Connect (AIC) hafa undirritað samstarfssamning um afsláttarkjör í innanlandsflugi fyrir íþróttahreyfinguna. Bókanir íþróttahópa fara eftir sem áður í gegnum hópadeild AIC. Fyrir einstaklingsbókanir þarf að nálgast inneignarnúmer á skrifstofu ÍSÍ á skrifstofutíma. Samninginn er að finna á heimasíðu ÍSÍ undir liðnum „Um ÍSÍ“.

Stöðubréf nr. 2 frá ÍSÍ vegna #metoo

ÍSÍ hefur sent út stöðubréf nr. 2 til að halda áfram að upplýsa um stöðu mála og það nýjasta er varðar baráttuna gegn hvers konar ofbeldi og áreitni í íþróttahreyfingunni. Bréfið má finna hér í viðhengi Bref_ithrottahreyfingin_metoo_2.

Hver er þín skoðun? Umræðupartý ungmenna og stjórnenda 10. maí

Fimmtudaginn 10. maí kl. 16:00 – 19:30 í félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík, stendur UMFÍ í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) fyrir sínu 3ja umræðupartýi fyrir ungt fólk og stjórnendur innan sveitarfélaga.

Viðburðurinn hefur það markmið að gefa ungu fólki (13 – 25 ára) tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri við stjórnendur. Nonni frá KVAN verður með stutt erindi um að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Í framhaldi af því verða þrjár umræðulotur með þremur mismunandi viðfangsefnum. Umræðuefnin eru: Hvaða breytingar vill ungt fólk sjá á íþróttafélögum? Nemendakort – hvað fela þau í sér? Hvaða sýn hefur ungt fólk á pólitíkinni í dag?

UMFÍ styrkir ferðakostnað fyrir þátttakendur sem þurfa að ferðast lengra en 50km aðra leið til þess að taka þátt. Aðeins er hægt að fá styrk fyrir lággjaldafargjöldum eða ódýrasta ferðamátanum. Algengt er t.d. að skila inn mynd af bensín nótu. Skila þarf inn kvittunum fyrir 25. maí til þess að fá styrkinn endurgreiddan.

Skráningafrestur er til 9. maí nk.

Nánari spurningum eða vangaveltum svarar Ragnheiður hjá UMFÍ á ragnheidur@umfi.is eða í síma 568 2929. Hægt er að skrá sig með því að smella hér

Lýðháskólinn á Flateyri – auglýst eftir umsóknum

Viltu stunda nám án áherslu á einingar og próf? Taka frá heilan vetur til að prófa hvað í þér býr? Velja þér ný viðfangsefni við nýjar aðstæður með nýjum vinum?

Lýðháskólinn á Flateyri auglýsir eftir umsóknum til náms frá og með 15. apríl en kennsla hefst haustið 2018. Umsóknir fara fram á  vefsvæði skólans www.lydflat.is þar sem nálgast má upplýsingar um skólann og námsframboð. Jafnframt má nálgast ýmsar upplýsingar á fésbókarsíðu skólans https://www.facebook.com/Lydhaskoli/.

Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist við Lýðháskólann á Flateyri en ekki eru gerð sérstök skilyrði um fyrri störf eða menntun. Við leitum eftir nemendum sem eru áhugasamir, viljugir og tilbúnir til að taka þátt, deila ábyrgð og prófa eitthvað nýtt.

Ekki er um eiginlegan umsóknarfrest að ræða. Opnað er fyrir umsóknr 15. apríl. Afgreiðsla umsókna hefst 1. maí og verða umsóknir sem berast fyrir þann tíma settar í forgang. Eftir það afgreiðum við umsóknir jafnóðum og þær berast.

Umsækjendur eru hvattir til að sækja um sem fyrst til að auka líkur á inntöku. Það er takmarkað pláss á hverri önn, fyrstir koma, fyrstir fá. Ef nemendur sækja um og það er þegar orðið fullt er þeim boðið að vera á biðlista og/eða fá pláss á næstu önn.

Landsmót UMFÍ 2018 – helgina 12.-15. júlí á Sauðárkróki

Heimasíða landsmótsins hefur verið opnuð og vil ég hvetja alla til þess að kynna sér þetta nýja fyrirkomulag og það sem í boði verður á landsmótinu. https://www.landsmotid.is/

Ársþing HSÞ 2018 – Nýr formaður tekinn við

Ársþing HSÞ 2018

10. Ársþing HSÞ var haldið sunnudaginn 11. mars s.l. Mæting aðildarfélaga var góð, en 19 félög af 22 virkum félögum sendu fulltrúa sína á þingið auk Frjálsíþróttaráðs HSÞ sem einnig á rétt á einum fulltrúa. Alls voru því á þinginu 58 fulltrúar auk gesta frá UMFÍ og ÍSÍ.

Þingstörf gengu vel fyrir sig en fyrir þinginu lágu 15 tillögur frá stjórn HSÞ. Flestar tillögur voru samþykktar óbreyttar á þinginu og örfáum tillögum var breytt í störfum þingsins og þær samþykktar með breytingum. Ein tillagan var dregin til baka og tillaga stjórnar um breytingu á lottóskiptingu milli HSÞ og aðildarfélaga var felld með jöfnum atkvæðum þeirra sem voru með og á móti. Helstu tillögur sem samþykktar voru fyrir utan hefðbundnar þakkar- og hvatningartillögur voru m.a. tillaga að mótun Íþrótta- og æskulýðsstefnu HSÞ og tillaga að HSÞ gerist Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Ingi Þór ÍSÍ

Gestir þingsins frá ÍSÍ voru þeir Ingi Þór Ágústsson og Viðar Sigurjónsson. Veittu þeir Baldvin Kristni Baldvinssyni og Kolbrúnu Ívarsdóttur Silfurmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu HSÞ og sinna félaga.

Baldvin Kristinn Baldvinsson, Hestamannafélaginu Þjálfa, fékk viðurkenningu fyrir áratugalangt starf sitt hjá Þjálfa, en Baldvin sat einnig um tíma sem stjórnarmaður í HSÞ. Meðal þess sem Baldvin hefur komið að er seta í nefndum og ráðum LH fyrir hönd félagsins, uppbygging keppnisvæðis félagsins sem og önnur uppbygging vegna hestamennsku á svæðinu. Baldvin hefur einnig byggt upp góða aðstöðu hjá sjálfum sér og hefur hann aðstoðað félagið við að halda utan um starfsemi æskulýðsdeildar hestamannafélagsins Þjálfa, m.a. með því að leggja til aðstöðu og hross svo börn og unglingar sem ekki eiga hross geti einnig komist í kynni við hesta. Þá hefur ræktunarbú Baldvins í Torfnesi verið tilnefnt marg oft sem ræktunarbú ársins og einnig hlotið slíka nafnbót og hefur hann ræktað mörg heiðursverðlaunahross og hafa hross frá honum getið sér góð orðs á keppnisbrautum bæði hér heima sem og erlendis. Baldvin er vel að þessari viðurkenningu kominn vegan brennandi áhuga síns og þrautseigju bæði í ræktunar- sem og félagsstarfi í þágu hestamennskunar.

Kolbrún Ívarsdóttir, Mývetningi, fékk viðurkenningu fyrir ötult sjálfboðaliðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar í mörg ár. Hún hefur bæði setið í stjórn Mývetnings íþrótta- og ungmennafélags, bæði sem gjaldkeri og ritari, og einnig í stjórn HSÞ sem gjaldkeri. Hún hefur ávallt staðið við bakið á sínum börnum sem og öðrum börnum í Mývatnssveit, fylgt þeim á æfingar og keppnir um land allt. Hún var einn af drifkröftunum þegar skíðastarf Mývetnings var keyrt af stað og var potturinn og pannan í allri vinnu tengdu starfinu. Eftir að starfið lagðist að mestu niður hefur Kolla keyrt allt að tvisvar til þrisvar í viku til Akureyrar yfir vetrartímann með drengi sína tvo á skíðaæfingar. Og þar hefur hún svo staðið vaktina á mótum og keppnisferðum Skíðafélags Akureyrar. Frá því að Mývatnsmaraþonið var fyrst haldið sumarið 1995 hefur Kolla ávallt verið við vinnu við það, ýmist á drykkjarstöð, skráningu eða í tímatöku. Sjálfboðaliðastarfið er gríðarlega mikilvægt í öllu íþróttastarfi og það er litlu íþróttafélagi eins og Mývetningi mjög mikilvægt að eiga svona frábæran sjálfboðaliða sem alltaf er klár í slaginn eins og hún Kolla er og hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

Gestir þingsins frá UMFÍ voru þau Gunnar Gunnarsson (einnig formaður UÍA) og Auður Inga Þorsteinsdóttir. Veitti Gunnar Guðrúnu Kristinsdóttur, Völsungi, starfsmerki UMFÍ.

Guðrún, Starfsmerki UMFÍ

Guðrún Kristinsdóttir fékk viðurkenningu sína fyrir áratugalangt og ötult starf á vegum Völsungs. Guðrún kom fyrst til íþróttafélagsins Völsungs árið 1980 og sá þá um leikjanámskeið fyrir Völsung. Þegar hún flutti til Húsavíkur árið 1986 stofnaði hún strax fimleikadeild innan Völsungs og var formaður deildarinnar í um 20 ár. Hún hefur starfað sem þjálfari, stjórnarmaður og formaður deildarinnar í um 32 ár. Hún tók við sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs árið 2010 og hefur verið það síðan. Þar hefur hún unnið mikið og gott starf og meðal annars leitt félagið í gegnum þá vinnu að verða eitt af fyrirmyndarfélögum ÍSÍ, sem félagið varð árið 2015. Guðrún hefur verið viðriðin starfið hjá Völsungi sem nefndarmaður, foreldri, og svo sem formaður félagsins frá árinu 2010 og komið að flestum íþróttagreinum sem sjálfboðaliði. Einnig hefur hún stundum leyst framkvæmdastjóra félagsins af. Guðrún er því vel að þessari viðurkenningu komin.

 

Hvatningarverðlaun HSÞ voru afhent, íþróttamenn einstakra íþróttagreina voru heiðraðir sem og Íþróttamaður HSÞ ársins 2017.

Hvatningarverðlaun HSÞ árið 2017:
Elmar Örn Guðmundsson, Völsungi, handknattleikur

Íþróttamenn HSÞ í einstökum greinum voru eftirfarandi:

  • Blakmaður HSÞ árið 2017: Sladjana Smiljanic, Völsungi
  • Bocciamaður HSÞ árið 2017: Sverrir Sigurðsson, Völsungi
  • Langhlaupari HSÞ árið 2017: Anna Halldóra Ágústsdóttir, Völsungi
  • Frjálsíþróttamaður HSÞ árið 2017: Eyþór Kári Ingólfsson, Umf. Einingunni
  • Glímumaður HSÞ árið 2017: Pétur Þórir Gunnarsson, Mývetningi
  • Knattspyrnumaður HSÞ árið 2017: Dagbjört Ingvarsdóttir, Völsungi
  • Skákmaður HSÞ árið 2017: Tómas Veigar Sigurðsson, Skákfélaginu Huginn
  • Skotíþróttamaður HSÞ árið 2017: Gylfi Sigurðsson, Skotfélagi Húsavíkur

Íþróttamaður HSÞ árið 2017: Eyþór Kári Ingólfsson, Umf. Einingunni.

Nýr formaður og nýir stjórnarmenn voru kjörnir á þinginu að tillögu uppstillingarnefndar. Nýr formaður HSÞ er Jónas Egilsson, Umf. Langnesinga, aðrir nýkjörnir stjórnarmenn eru þau Jón Sverrir Sigtryggsson, Hestam. Þjálfa, Ásdís Inga Sigfúsdóttir, Umf. Eflingu, og Selmdís Þráinsdóttir, Völsungi.

Formannaskipti – Jónas og Aníta

Fyrir í stjórn voru þeir Hermann Aðalsteinsson, Stefán Jónasson og Sigurbjörn Ásmundsson. Varamenn eru Þorsteinn Þormóðsson, Magna og Sölvi Steinn Alfreðsson, Umf. Langnesinga. Þökkum við fráfaranandi formanni, Anitu Karin Guttesen, sem og fráfarandi stjórnarmönnum, Jóhönnu Jóhannesdóttur og  Kristjáni R. Arnarsyni þeirra framlag í starfi HSÞ undanfarin ár.

 

 

Frá Grunni í Gull

Flott tækifæri fyrir þjálfara, íþróttakennara og áhugafólk um blak:

Helgina 23.-25. mars 2018 mun Vladimir Vanja Grbic vera með blakbúðir á Húsavík. Verkefnið er samstarfsverkefni blakdeildar Völsungs, BLÍ – Blaksamband Íslands og Special Olympics á Íslandi (Íþróttasamband fatlaðra) en Vladimir Grbic er „Global Ambassador volleyball“ hjá Special Olympics.

Grbic var fyrirliði gullverðlaunahafa Júgóslava á Ólympíuleikunum i Sydney árið 2000 auk þess að hafa unnið til fjölda verðlauna á heims- og Evrópumótum í blaki. Grbic var tekinn inn í Hall of Fame í blaki árið 2011.

Grbic mun vera með fræðilegan fyrirlestur sem og verklega þjálfun þar sem lögð verður áhersla á tæknileg atriði, þjálfunaraðferðir og andlegu hliðina og hvernig þessir þættir móta og hvetja unga iðkendur til afreka.

Föstudagskvöldið 23. mars verður fræðilegur fyrirlestur fyrir þjálfara, íþróttakennara og áhugasama. Fyrirlesturinn á ekki síður við þá sem koma að öðrum íþróttagreinum.

Blakbúðirnar hefjast svo á laugardaginn 24. mars. Þann dag verður áhersla á efni tengt fyrirlestrinum kvöldið áður og á erindi við flestar greinar íþrótta. Á sunnudeginum verður áhersla lögð á blakíþróttina.

Verkefnið er því fyrir blakiðkendur á aldrinum 11 – 18 ára á laugardegi og sunnudegi. Fyrir þjálfara, íþróttakennara og áhugasama frá föstudagskvöldi til sunnudags.

Nánari upplýsingar um verð og skráningu er að finna á https://www.volsungur.is/is/moya/news/fra-grunni-i-gull-blakbudir-a-husavik-23.-25.-mars-2018

Facebook síða:  https://www.facebook.com/Fr%C3%A1-Grunni-%C3%AD-Gull-138103173503839/