Hvert stefnir félagið þitt – „á ég að gera það“ – námskeið í stjórnun félaga

Flest öll okkar koma á einhverjum tímapunkti og á einhvern hátt að starfi íþrótta- og ungmennafélaga. Veist þú hvert markmið eða hlutverk félagsins þíns er? Fyrir hverja vinnur félagið? Hvað gera þeir sem eru í stjórn? Hef ég eitthvert hlutverk sem foreldri?

HSÞ stendur fyrir námskeiði í stjórnun félaga. Námskeiðið er fyrir þá sem starfa í íþróttahreyfingunni, hvort sem það er í aðalstjórn félags, stjórn deildar, nefnd eða ráði, eða sem þjálfari, sjálfboðaliði eða foreldri. Fyrra námskeiðið verður á Þórshöfn, miðvikudaginn 25. september frá kl. 16:30 til ca 20. Seinna námskeiðið verður á Húsavík, fimmtudaginn 10. október.

Nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið, en það er gert með því að fylla út í formið sem hér fylgir. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu HSÞ hsth@hsth.is eða 896-3107

Stjórn HSÞ auglýsir eftir umsóknum í Aksturssjóð, Fræðslusjóð og Afreksmannasjóð HSÞ

Aksturssjóður: Tilgangur sjóðsins er að taka þátt í ferðakostnaði vegna þátttöku barna og unglinga, 18 ára og yngri, á félagssvæði HSÞ í skipulögðum íþróttaæfingum og/eða skipulögðu félags- og æskulýðsstarfi, á vegum aðildarfélaga HSÞ.

Eingöngu félagar innan aðildarfélaga HSÞ geta sótt um styrki úr sjóðnum. Umsækjendur geta verið foreldrar/forráðamenn, hópur foreldra eða aðildarfélög HSÞ. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ http://hsth.is/log-og-reglugerdir/. Umsóknarfrestur vegna aksturs á sumarönn er til og með 10. september n.k. HSÞ auglýsir eftir umsóknum í Fræðslusjóð HSÞ

Fræðslusjóður: Tilgangur sjóðsins er að auka menntun og þekkingu félaga innan HSÞ á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi, með því að sækja námskeið, fundi og ráðstefnur ef stjórn sambandsins álítur það íþrótta- og félagslífi í héraði til framdráttar.

Öll aðildarfélög innan HSÞ og félagsmenn þeirra eiga rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ http://hsth.is/log-og-reglugerdir/. Umsóknarfrestur í fræðslusjóð á árinu er til og með 15. nóvember n.k.

Að lokum vill stjórn HSÞ minna á Afreksmannasjóð HSÞ. Reglugerð sjóðsins og umsóknareyðublað má nálgast á heimasíðu HSÞ

HSÞ hlaut fyrirmyndarbikar UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram um verslunarmannahelgina venju samkvæmt. Mótið er frábær viðburður þar sem börn og unglingar koma saman ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt fjölbreyttri dagskrá í ýmis konar keppni, hreyfingu og skemmtun.

Flottur hópur barna og unglinga mætti undir merkjum HSÞ á mótið og voru skráð í hinar ýmsu greinar. HSÞ átti skráða fulltrúa í alls 13 greinum: Kökuskreytingum, upplestri, fótbolta, strandblaki, strandhandbolta, glímu, hjólreiðum, pílukasti, bogfimi, stafsetningu, skák, körfubolta, frisbígolfi og frjálsíþróttum. Það verður að segjast að árangur þessara keppenda var alveg frábær. Fjölmörg verðlaun komu í hlut okkar þátttakenda og voru fjölbreyttum greinum s.s. kökuskreytingum, upplestri, strandblaki, strandhandbolta, pílukasti, körfubolta, skák og frjálsíþróttum og voru nokkrir titlar þar á meðal. Unglingalandsmótsmeistarar frá HSÞ 2019 voru:

  • Hilmar Örn Sævarsson  Pílukast 11-18 ára drengja
  • Halldór Tumi Ólason       Langstökk, þrístökk og 100m 18 ára drengja
  • Elísabet Ingvarsdóttir     600m og þrístökk 11 ára stúlkna
  • Erla Rós Ólafsdóttir         Spjótkast 18 ára stúlkna
  • Arney Dagmar Sigurbjörnsdóttir Hástökk 14 ára stúlkna

Mótssetning var á föstudagskvöldinu en þá taka félögin þátt í skrúðgöngu á íþróttavellinum undir fánum sinna sambanda. Þar voru þátttakendur frá HSÞ glæsilegust á velli. Þátttakendur voru allir eins, klæddir í peysur sem Sparisjóður Suður-Þingeyinga gaf þeim. Hópurinn var samstæður og prúður og sambandinu til mikils sóma, bæði innan og utan vallar. Það sama má segja um tjaldbúðir HSÞ og fjölskyldur þátttakenda HSÞ. Enda fór það svo að sambandið fékk Fyrirmyndarbikar UMFÍ.

Þátttakendur frá HSÞ nutu stuðnings frábærra fyrirtækja, en auk styrks frá Sparisjóðnum í formi peysu voru þátttökugjöld niðurgreidd fyrir tilstuðlan styrkja frá Jarðböðunum, Ísfélaginu, Landsbankanum, Geir útgerð og Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Takk fyrir stuðninginn

Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Höfn í Hornafirði dagana 1.-4. ágúst n.k. Keppnisrétt hafa allir á aldrinum 11-18 ára og bjóðum við börn fædd árið 2008 og fjölskyldur þeirra sérstaklega velkomin að slást í för með okkur í ár. Keppnisgreinarnar eru af fjölbreyttum toga ásamt ýmis konar afþreyingu og skemmtun – kynnið ykkur úrvalið á www.ulm.is. Yngri krakkar geta einnig notið sín við fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun sem er í boði.

Unglingalandsmótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem við hvetjum alla til að mæta á. Góðir styrktaraðilar gera HSÞ kleift að niðurgreiða mótsgjaldið fyrir þingeysk ungmenni og greiða iðkendur af starfssvæði HSÞ aðeins kr. 3450,- og geta þá keppt í eins mörgum greinum og þeir vilja. Aðrir mótsgestir greiða ekkert gjald en geta þó tekið þátt í þeirri afþreyingu og verkefnum sem boðið er upp. Skráning og allar nánari upplýsingar um keppnisgreinar er að finna á www.ulm.is. Skráningafrestur rennur út á miðnætti þann 30. júlí.

Við höfum stofnað fésbókarhóp sem kallast „HSÞ á unglingalandsmóti“, endilega sláist í hópinn þar. Þar gefst tækifæri til að setja inn spurningar, óska eftir liðsfélögum, ásamt því að deila upplýsingum. Einnig getið þið haft samband í s. 896-3107 eða á hsth@hsth.is.

Unglingalandsmótsnefnd HSÞ

Styrktaraðilar HSÞ á ULM 2019. Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Jarðböðin, Ísfélag Vestmannaeyja, Landsbankinn, Geir ehf, Verkalýðsfélag Þórshafnar. Takk fyrir stuðninginn

Kvennahlaup ÍSÍ – komdu með

Kvennahlaup ÍSÍ verður hlaupið í 30. sinn í ár víðsvegar á landinu. Hér heima í héraði verður hlaupið á sex stöðum og hvetjum við alla til að taka þátt og njóta útiverunnar.

Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni. Markmiðið var að höfða til kvenna á öllum aldri þar sem ekki yrði keppt til sigurs heldur áttu konur að fá að hlaupa, ganga eða skokka mismunandi vegalengdir eftir því sem þær kysu sjálfar. Þannig er það enn þann dag í dag, engin tímataka og allir fara á sínum hraða þá vegalengd sem þeir kjósa. 

Kvennahlaupið verður á Húsavík, Laugum, Þórshöfn og Kópaskeri á morgun laugardag 15. júní, í Mývatnssveit verður hlaupið þann 19. júní, en Raufarhafnarbúar tóku forskot á sæluna og hlupu þann 10. júní.

Nánari upplýsingar um stað- og tímasetningar má finna á heimasíðunni: https://www.sjova.is/um-okkur/markadsmal/sjova-kvennahlaup-isi/